Eftir nokkra daga verður gengið til kosninga um formann og helming stjórnarmanna í einu stærsta verkalýðsfélagi landsins, Eflingu-stéttarfélagi. Ég hvet alla félaga í Eflingu að nýta lýðræðislegan rétt til að kjósa um forystuna í félaginu.
Höfundur þessarar greinar er fyrirliði A-listans, er í framboði til embættis formanns. Það er til siðs á Íslandi að segja á sér deili. Ég heiti Ingvar Vigur Halldórsson, fæddur og uppalinn á Akureyri sonur Halldórs Guðlaugssonar og Borghildar Ingvarsdóttur en þau voru verkafólk alla sína starfsæfi. Ég á 4 systkin.
Alltaf verið virkur í starfi
Ég tengdist mínu stéttarfélagi fyrst þegar ég var 16 ára gamall og sótti fræðslu í Ölfusborgir. Þar áttaði ég mig á því hvað stéttarfélög eru mikilvæg og vildi fljótlega leggja mitt af mörkum, varð trúnaðarmaður á mínum vinnustað og svo seinna stjórnarmaður í Eflingu. Þar sá ég hversu sterk rödd Eflingar er í þjóðfélaginu og hversu mikið afl samtakamáttur fólksins er. Til þess þurfa þau samt að vera samstíga, en á það hefur stundum skort í seinni tíð.
Stoltastur er ég af aðkomu minni að tveimur stórum verkefnum: Annars vegar að stofnun Virk - starfsendurhæfingar, en hún hefur gefið þúsundum Íslendinga möguleika á að komast aftur út í lífið sem virkir einstaklingar. Hinsvegar að hafa komið að því að stofna Bjarg fasteignafélag, sem nú er að fara að reisa 2300 ódýrar leiguíbúðir til að bregðast við húsnæðisvandanum sem við glímum við sem þjóðfélag.
En það er af nógu öðru að taka. Húsnæðisvandinn er ekkert að minnka, heldur höfum við bara hægt á aukningu vandans. Ég hef áhuga á að halda áfram baráttu fyrir breytingum á húsnæðismarkaðnum. Til að mynda vil ég nýta rödd félagsins til að bæta stöðu þeirra sem vilja komast af leigumarkaðnum og kaupa og tryggja þar með öruggt heimili fyrir sína fjölskyldu. Það er algjörlega ófært að fólk sem greiðir háa leigu og getur staðið í skilum með hana falli á greiðslumati með mun lægri útreiknaða greiðslubyrði af lánum en leigan er. Eðlilegt væri að fólk gæti sýnt fram á greiðslugetu með því að sýna fram á að hafa greitt leigu. Nú er fólk fast í leigugreiðslum t.d. 200 þúsund á mánuði en fær höfnun á greiðslumat upp á t.d. 150 þúsund á mánuði. Þetta er ósanngjarnt rugl. Við þurfum að byggja upp sanngjarnara samfélag. Við þurfum réttlátari skiptingu á öllum sviðum. Við þurfum réttlátari skiptingu á afrakstri vinnunnar, aðgangi að velmeguninni og virðingu á öllum stigum. Það er ófært að þær launahækkanir sem við semjum um séu teknar af á hinum endanum með lækkun bóta eða breytingum á skattkerfi. Þar vil ég að félagið mitt beiti sínu afli. Þar vil ég beita mér!
Ávinningur hirtur til baka af stjórnvöldum
En hvað er maður eins og ég að vilja upp á dekk? Það er einfalt að svara því. Misskiptingin í þessu þjóðfélagi er óþolandi og ég vil leggja mitt af mörkum við að breyta því ástandi. Það þarf að gera stórátak í húsnæðismálum láglaunafólks og það þarf að hækka laun félaganna á lægstu töxtunum. Það er augljóst. En það er fleira sem hefur áhrif á kaupmátt en krónurnar í umslaginu. Á sama tíma og tekist hefur að hækka lægstu laun meira en annarra, hefur ríkisvaldið markvisst skorið niður í velferðar- og stuðningskerfunum. Stjórnvöld hafa beinlínis grafið undan þeim. Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun og viðmiðanir í vaxta- og barnabótakerfunum hafa ekki fylgt annarri þróun. Fjárhæðir í barnabótakerfinu hafa rýrnað að raungildi og tekjuskerðingar verið auknar. Þetta kemur auðvitað harðast niður á þeim sem lægst hafa launin. Þetta hefur ekki gerst af sjálfu sér, heldur vegna meðvitaðra ákvarðana stjórnvalda, sem hafa þannig stóraukið skattbyrði láglaunafólks. Þannig hafa ríkisstjórnir síðustu tveggja áratuga beinlínis hirt ávinninginn af launahækkunum á þessum tíma og hlutfallslega langmest af þeim sem lægst hafa launin. Undan þessu svíður og ég vil berjast fyrir því að þessi þróun verði stöðvuð og henni snúið við, til viðbótar við hækkun launa verkafólks.
Metoo byltingin mun breyta samfélaginu
Nýlega steig fram fjöldi kvenna - undir merkinu #metoo - og sögðu sögu sína af miklu þjóðfélagsmeini. Stór hluti þeirra kvenna sem stigu fram eru félagsmenn í Eflingu. Hér er verk að vinna. Ég mun beita mér af fullri hörku fyrir því að þeirri menningu sem lýst er í metoo sögunum verði breytt. Efling á að vera í fararbroddi í baráttunni fyrir rétti þolenda. Þetta er barátta sem snýst um almenn mannréttindi.
Við erum ekki á vegum stjórnmálaflokks
Í kosningum til stjórnar Eflingar í mars eru nú tveir listar. Það er hraustleikamerki í stóru og sterku verkalýðsfélagi að fólk vilji gefa kost á sér til forystu. Ég get samt ekki neitað því, að mér finnst óþægilegt til þess að vita að stjórnmálaflokkur skuli standa á bakvið framboð B-listans. Það eru næstum 70 ár síðan tengsl milli hreyfingarinnar og einstakra stjórnmálaflokka voru rofin. Ég geri enga athugasemd við að einstaklingar í verkalýðshreyfingunni og forystu hennar séu virkir í stjórnmálastarfi. Við erum örugglega öll rammpólitísk. Hins vegar hringja allar viðvörunarbjöllur þegar stjórnmálaflokkur notar allt sitt afl - leynt og ljóst - til að berjast fyrir tilteknu framboði. Það má jafnvel halda því fram, að framboðið hafi komið fram af því að stjórnmálaflokkurinn lýsti eftir frambjóðendum. Þegar við bætist, að helsti forystumaður viðkomandi stjórnmálaflokks, Sósíalistaflokksins, hefur ekki hikað við að setja fyrirtæki í þrot og skilja starfsfólkið eftir, fyrirvaralaust án launa og réttinda og stéttarfélögin og Ábyrgðarsjóður launa eru látin sjá um réttindi starfsfólksins eins og gerðist á síðasta ári, þá er rétt að staldra við. Ekki var áhuganum á kjörum og réttindum launafólks fyrir að fara þá. Fólkið á B-listanum er eflaust heilt í sínu, en ég er hræddur um að þau geri sér ekki grein fyrir því að þau eru leikarar í leikriti sem þau sömdu ekki handritið að. Þetta er hættuleg þróun og ég vil með öllum mætti koma í veg fyrir það stjórnmálaflokkur, hvort sem það er Sósíalistaflokkur Gunnars Smára Egilssonar eða einhver annar, nái tökum á þessu félagi sem mér þykir svo vænt um.
Ég hef alltaf trúað á að þá aðferð að láta verkin tala frekar en að fólk blási sjálft sig út. Ég bið félaga í Eflingu um stuðning við A listann í kosningum um nýja forystu í félaginu. Við munum láta verkin tala.
Höfundur er formannsefni A-listans í framboði til stjórnar í Eflingu