Það viðhorf heyrist oft, ekki síst hjá fólki á mínum aldri, að það sé ósanngjarnt að þurfa að greiða af laununum til stéttarfélags. Maður fái ekkert á móti. Ég kippist alltaf við þegar ég heyri þetta og mótmæli. Ekki af því að ég sé eitthvað öðruvísi en aðrir, ég hugsaði svona sjálfur. Þangað til ég þurfti á félaginu að halda. Það skipti nefnilega öllu máli fyrir framtíð mína á Íslandi þegar ég þurfti á Eflingu að halda.
Ég flutti til Íslands árið 2000. Eftir tveggja ára vinnu hjá sama vinnuveitanda ákvað ég að skipta um vinnu. Vinnuveitandinn var alls ekki ánægður og hótaði að senda mig úr landi og borgaði ekki fyrir síðasta mánuðinn. Íslenskur vinnufélagi minn hvatti mig til að fara til félagsins og biðja um hjálp. Ég get alveg viðurkennt, að ég var ekki mjög spenntur fyrir því. Ég hélt að það hefði lítinn tilgang og var hikandi við að biðja um aðstoð. En á endanum fór ég að ráðum vinnufélagans sem kom mér í samband við félagið. Þar sem ég vann á þessum tíma sex daga vikunnar, bauðst starfsmaður Eflingar til að hitta mig utan skrifstofutíma, á sunnudegi. Til að gera langa sögu stutta, þá stóð félagið með mér alla leið. Það reyndi fyrst að innheimta kröfuna hjá atvinnurekandanum og þegar það gekk ekki, var farið með málið alla leið fyrir dómstóla og þar vannst það. Þetta tók langan tíma, um tvö ár, en starfsmenn félagsins gáfust aldrei upp og stóðu þétt við bakið á mér allan tímann.
Á kaf í félagsstarfið
Síðan leiddi eitt af öðru. Áður en ég vissi af, var ég kominn á kaf í félagsstarfið og í stjórn, þar sem ég var í 8 ár. Ég hætti af því að ég hafði ekki lengur tíma, var í námi og fullri vinnu, kominn með fjölskyldu og að gera upp hús í frítímanum. Fyrir mér er Ísland land tækifæranna. Ég kom hingað kornungur, strax eftir skóla og sveinspróf í bifvélavirkjun. Núna er ég menntaður skrúðgarðyrkjufræðingur í góðri vinnu hjá góðu fyrirtæki.
Það býr margt fólk af erlendum uppruna á Íslandi og sérstaklega margir Pólverjar. Margir þeirra eru í Eflingu. Sem betur fer eru flestir atvinnurekendur gott og heiðarlegt fólk, en það eru því miður undantekningar. Og þar liggur einmitt hættan fyrir fólk eins og okkur - innflytjendur í framandi landi. Óheiðarlegu undantekningarnar vilja fá fólk í þeirri stöðu sem ég var. Þá geta þeir notað yfirburði sína, tungumálið og þekkingu á þjóðfélaginu til að brjóta á starfsfólkinu. Þeir geta sagt okkur hvað sem er og við höfum lítið val annað en að taka gott og gilt það sem þeir segja. Það eru alltof mörg dæmi um þetta. Ef vinnufélaginn hefði ekki leitt mig til félagsins, hefði þetta komið fyrir mig líka. Leiðin til að koma í veg fyrir að atvinnurekendur brjóti á okkur er að fylgjast með starfinu í verkalýðsfélaginu og leita til þess ef við höldum að hlutirnir séu ekki eins og þeir eiga að vera. Til þess er það - og þess vegna greiðum við félagsgjaldið. Á vef Eflingar er gríðarlega mikið magn af upplýsingum, ekki bara á íslensku, heldur líka á pólsku og ensku. Ég var stundum fenginn til að túlka þegar Pólverjar þurftu að eiga samskipti við félagið. Það þarf ekki lengur, því á skrifstofunni starfar pólsk kona, meðal annars við afgreiðslu.
Vonandi þarftu aldrei…
Við félaga mína segi ég: Greiðslurnar eru einmitt til að tryggja þetta, tryggja að þú getir leitað réttar þíns og fáir stuðning ef á þarf að halda. Vonandi þarftu aldrei á því að halda, en þú veist það aldrei fyrir fram. Vonandi þarftu aldrei að leita á náðir sjúkrasjóðsins, en þú veist það ekki heldur. Ef til þess kemur, þá er hann þarna, traustur bakhjarl ef á þarf að halda. Ég get haldið áfram og talið upp aðgang að sumarhúsum og allt framboðið af fræðslu - til dæmis í íslensku. Allt eru þetta réttindi sem standa félagsmönnum til boða.
Eftir nokkra daga eru kosningar til stjórnar í Eflingu. Ég hvet alla til að taka þátt í því að velja félaginu stjórn - félaginu okkar. Ég kýs A-lista stjórnar og trúnaðarráðs, með Ingvar Vigur Halldórsson í broddi fylkingar. Það er fólk sem hefur næman skilning á þörfum almenns launafólks og er ótengt stjórnmálaflokkum.
Höfundur er fæddur í Póllandi, en hefur búið á Íslandi frá árinu 2000. Hann hóf snemma þátttöku í starfi Eflingar-stéttarfélags og sat í stjórn félagsins í 8 ár. Hann er menntaður skrúðgarðyrkjufræðingur.