Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Eyþór Arnalds, birti nýlega pistil um svifryk. Oddvitinn greindi ástandið rétt: Það eru mengandi bílar og bílar á nagladekkjum sem valda svifrykinu. En lausnirnar, dýrara malbik, jafnvel steypa, og tíðari þrif, voru ekki í rökréttu samhengi við vandann.
Mér vitandi hefur ekki sýnt sig með óyggjandi hætti að götuþvottur dragi úr svifryki, þótt rykbinding geri það reyndar. Eins, þrátt fyrir að vitað sé að steypuvegir, séu jafnan dýrari og slitni hægar, þá liggur samanburður á steypuryki og malbiksryki ekki það skýrt fyrir að við getum fullyrt að þessar dýru aðgerðir skili sér á endanum í bættri heilsu (þótt þær séu hugsanlega tilraunarinnar virði).
En ef vandamálið er að leikskólabörn mega ekki vera í úti vegna þess að of margir aki um á dísilbíl, á nagladekkjum, á Hringbrautinni þá er kannski réttast að rukka fólk meira fyrir að aka um á dísilbíl, á nagladekkjum, á Hringbrautinni, í von um að sumir hætti því. Frekar en að eyða tonnum af skattfé í misárangursríkar mótvægisaðgerðir.
Höfundur er varaþingmaður Viðreisnar.