Mér er ljúft og skylt að gera taktfasta tilraun til að leggja orð í belg um það hvernig stendur á þessari frétt. Þrumuhljóð sem íslenskir fótboltaáhangendur fengu lánað frá Skotlandi, sameinaði þjóðina, sigraði heiminn og næstum allir landar mínir hafa framkallað stundum tilneyddir og út um allt. Hvernig getur ,,maður út í bæ“ fengið skráðan einkarétt hjá ríkisstofnun (Einkaleyfastofu) á orðinu Húh! fyrir tilteknar vörur og þjónustu og gert athugasemdir við notkun annarra á því? Þetta eru eðlilegar vangaveltur.
Einstaklingar og lögaðilar geta lagt inn vörumerkjaumsóknir hjá Einkaleyfastofu. Vörumerki getur verið orð, orð- og mynd, litur, þrívíddarmynd o.fl. Til dæmis er mögulegt að sækja um skráningu á hljóði hjá Einkaleyfastofu. Eigandi vörumerkisins Húh! hefði þannig getað lagt inn umsókn um skráningu á hljóðmerki. Einkaleyfastofan hefði þá metið skilyrði skráningar enda hlutverk Einkaleyfastofu að meta skilyrði vörumerkjalaga þegar sótt er um skráningu á vörumerki. Rannsókn fer því fram á öllum umsóknum sem stofnuninni berast.
Til dæmis synjar Einkaleyfastofan umsóknum um skráningu ef vörumerki er of líkt öðru vörumerki sem þegar er skráð fyrir sömu/svipaðar vörur eða þjónustu þannig að hætta geti skapast á ruglingi. Að sama skapi ber Einkaleyfastofu að synja merki skráningar ef um er að ræða ,,tákn eða orðasambönd sem teljast algeng í viðskiptum eða notuð eru í daglegu máli“ sbr. orðalag 1. mgr. 13. gr. vörumerkjalaga. Ef vörumerki skortir sérkenni fyrir þá vöru/þjónustu sem um ræðir, eins og matur fyrir matvöru sbr. dæmi sem nefnt er hér af starfsmanni Einkaleyfastofu, ber einnig að synja um skráningu. Umsóknin sem hér er fjallað um var lögð inn þann 7. júlí 2016 og samþykkt af Einkaleyfastofu eftir rannsókn þann 15. október 2016. Þá var hún birt í ELS tíðindum. Eftir birtingu er mögulegt að andmæla skráningum í tvo mánuði. Enginn andmælti skráningu á vörumerkinu Húh!
Þegar umsóknin var lögð inn, þann 7. júlí 2016, voru 15 dagar frá því að undirritaður stóð með eitthvað í auganu, taktklappandi og húh-andi sig sig hásan í bláa hafinu miðju á Ólympíuleikvanginum í París í kjölfar sigurmarks Arnórs Ingva Traustasonar á 94. mínútu gegn Austurríki í undanriðli Evrópukeppninnar í fótbolta. Augnablik sem Guðmundur Benediktsson gerði heimsfrægt ásamt víkingaklappinu sem fylgdi. Jafnvel frægara en Björk og lundinn. Tíu dögum áður en umsóknin var lögð inn vann Ísland Englendinga 2-1 í Nice í 16. liða úrslitum keppninnar. Aftur komst Guðmundur á heimsflug asamt víkingaklappinu sem fylgdi (og þessum gaur). Þremur dögum fyrir umsóknardag lauk ævintýrinu á Ólympíuleikvanginum í París með leik gegn Frökkum. Enn á ný runnu tár eftir að liðið hafði tapað 5-2, þegar Íslendingar á vellinum létu fagnið óma eitt skipti enn. Kveðjuathöfn eftir ógleymanlegar vikur. Tveimur dögum fyrir umsóknardag stóðu tugir þúsunda á Arnarhóli og fagnið náði eyrum heimsins enn á ný. Það hefur fylgt okkur síðan sem einhverskonar sameiningartákn þannig að sumum þykir nóg komið.
Engu að síður var þessi gjörningur á tilfinningalegum hápunkti þegar Íslendingur ákvað að sækja um skráningu á orðmerkinu Húh! Það má halda því fram að Íslendingar hafi síðan þá, allir sem einn, tengt fagnið fræga við stórkostlega frammistöðu íslenska landsliðsins.
Færa má fyrir því rök að á umsóknardegi hafi fagnið verið „tákn eða orðasamband sem notað er í daglegu máli“ í skilningi 13. gr. vörumerkjalaga. Þá hefði Einkaleyfastofan átt að synja skráningu á fagninu að fyrra bragði en eftir stendur spurning um það hvernig þessu fagni verði best lýst. Ef til vill verður því aðeins lýst sem hljóði sbr. það sem segir hér á undan um hljóðmerki. Deilan sem nú er til umfjöllunar varðar hinsvegar skráð orðmerki og það sjálfstætt úrlausnarefni hvort að orðmerkið Húh! tengist þessu fagni í huga neytenda og þar með í skilningi vörumerkjalaga.
Önnur spurning er hins vegar hvort að notkun á bókstöfunum HÚ ásamt upphrópunarmerki í talbólu sem er staðsett fyrir ofan fræga teiknaða fígúru Hugleiks feli í sér brot á vörumerkjarétti eiganda orðmerkisins Húh! Ef Hugleikur leggur inn umsókn um skráningu á myndinni eins og hún birtist á bolnum, væri það verkefni Einkaleyfastofu að taka afstöðu til slíkrar umsóknar.
Í öllu falli liggur fyrir að fagnið snertir strengi í þjóðarsálinni og sögunni er ekki lokið. Umræðan virðist hafa leitt til þess að ný umsókn hefur verið lögð inn frá þriðja aðila fyrir vörumerkið HÚH og einnig hefur eigandi orðmerkisins dregið í land með sínar kröfur. Þá hefur KSÍ blandað sér í málið. Einkaleyfastofan mun því þurfa að taka afstöðu til ýmissa atriða þessu tengt. Hugsanlega áður en Ísland vinnur Argentínu í Moskvu þann 16. júní næstkomandi.
Höfundur er lögmaður sem heitir ekki Magnús Magnús Magnússon.