Þegar ég krassaði

Auður Jónsdóttir rithöfundur deilir með lesendum sínum reynslu síðustu daga og fjallar um það þegar nútímamanneskjan missir tökin og verður algjörlega ófær um nokkurn hlut.

Auglýsing

Fyrir nokkrum dögum krassaði ég. Og það kom mér í opna skjöldu. Ég fann fyrir stigvaxandi kvíða og á einhverjum tímapunkti heltók hann mig með þeim afleiðingum að ég fraus úr hræðslu og brast síðan í óstöðvandi grát í sunnudagsboði hjá pabba mínum og um stund virtist allt óyfirstíganlegt. Nokkrum dögum seinna hitti ég lækni sem vildi meina að ástand mitt mætti rekja til álags.

Nú er það alls ekki svo að mér finnist dags daglega að lífið sé erfitt. Þvert á móti er oftast mikið fjör; ég lifi góðu lífi, get gert flest sem mig langar og er umvafin frábæru fólki. En ég er ein af þessum nútímamanneskjum. Öllum stundum með nokkur samtöl í gangi á Facebook, stanslaus erindi í tölvupóstinum, sjálfstæð móðir, frílansari með reglulega skilafresti, stundum fleiri en einn á sama tíma. Og með fólk á launum við að reka líf mitt; endurskoðanda, lögfræðing og sálfræðing.

Flestir hafa krassað

Síðan þetta gerðist hef ég reynt að hægja á samskiptum í rafrænum heimum og fara frekar í sund en svara tölvupóstum stanslaust. Kvíðinn vætlar út úr kerfinu, smám saman, en ég finn að í fyrsta skipti á ævinni þarf ég að fara gætilega til að verjast honum. Og kannski að gætilega sé ekki rétta orðið, kannski frekar að ég reyni að finna einhvers konar eðlileika. Andrána eins og hún var einu sinni. Þegar ég var ekki orðin þessi algjöra nútímamanneskja.

Auglýsing

Það merkilega er að nánast flestir sem ég hef sagt frá þessu hafa upplifað eitthvað svipað eða eru að verjast kvíða, kulnun eða ofþreytu. Fyrr í vetur upplifði ég ofþreytu, fannst ég í nokkra daga ekki hafa orkudreitil aflögu til að koma minnstu athöfnum í verk og þá hváði kunningjakona mín, nánast hneyksluð: Ertu virkilega að upplifa þetta í fyrsta skipti!

Sannar klisjur

Við lifum á flóknum lífum, mörg hver. Fólk er í flóknu fjölskyldumunstri, skiptir um maka og blandar saman börnum, vinnur flókin verkefni á degi hverjum, venur sig á að vera undir stöðugu áreiti, ræður manneskjur í vinnu til að skilja eigin skattframtöl, lifir með hinum ýmsu nútímasjúkdómum og reynir að halda haus í lífsgæðakapphlaupi. Og ekkert við því að segja, svona er nútíminn.

Þetta eru auðvitað allt klisjur – en klisjur eru klisjur af því þær eru sannar og meira að segja sú setning er orðin klisja.

Nú gæti einhver sagt að málið væri að breyta um lífstakt. Það er hægara sagt en gert ef maður ætlar að þrífast í samfélagi nútímans. Eina sem maður getur gert er að draga úr notkun á samfélagsmiðlum, mæta í jógatíma, reyna að fókusera á einn dag í einu og lifa sem heilbrigðustu lífi. En gangverk hins daglega lífs heldur samt sem áður áfram að vera flókið.

Margir sem ég þekki reyna að tileinka sér núvitund en meira að segja það er flókið í meðförum þegar augnablikið krefst þess að maður leysi verkefnin sín, vanræki ekki barnið sitt, muni að reka öll erindin sem mega ekki bíða, drífi áfram rútínu heimilisins og sinni sínum nánustu.

Fallvalt heilbrigði

Nútímalíf er sturluð uppfinning. Skemmtilegt og uppfullt af tækifærum, nýjungum og ævintýrum en þannig háttað að nauðsynlegt er að standa meðvitaðan vörð um heilbrigði sitt. Eina ráðið til þess er að setja vitundina um fallvalt heilbrigði í fyrsta sæti.

En það þýðir líka að maður þarf að gefa ákveðinn afslátt á skyldum og kurteisi. Stundum er nauðsynlegt að segja við vingjarnlegu manneskjuna við hlið manns í heita pottinum að maður hafi bara tuttugu mínútur til að kjarna sig og geti ekki haldið uppi samræðum. Fá gálgafrest og segjast svara erindinu í tölvupóstinum í betra næði. Semja við lánadrottna frekar en að vera eins og undin tuska í smáverkefnum. Afboða sig í afmælisveislu af því að maður þarf að ná stund með sjálfum sér. Blæða í sálfræðing frekar en kvöldstund á barnum. Stela einstaka brotum úr degi þar sem maður horfir út um gluggann og hlustar á tónlist.

Þetta flókna en stórkostlega nútímalíf

En við vitum þetta öll. Ég hef lengi vitað allt þetta sem ég er nú búin að tyggja ofan í ykkur. Veit mikilvægi þess, búin að heyra það í óteljandi skipti. Samt virðist mér vera lífsins ómögulegt að lifa eftir því nema nokkra daga í einu.

Kannski er það ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta í pistil. Til að minna mig á alvöru þess. Því ef ég reyni að minnsta kosti ekki að taka þessar klisjur alvarlega er hætt við að ég endi sjálf sem klisja. Nútímamanneskja sem missti tökin og hrökk upp einn daginn ófær um nokkurn hlut, af því að hún ætlaði fram að því að gera allt í einu.

Og ég skammast mín ekki fyrir að segja það því ég veit nú, eftir að hafa deilt reynslu minni með vinum og kunningjum síðustu daga, að ég er svo langt frá því ein um að vera á þessum stað.

Svo margir í kringum mig eiga það sameiginlegt að lifa skemmtilegu lífi en vera samt að kikna. Af því að það er að svo mörgu að huga að hugur og tilfinningar hafa ekki við flóknu lífsmunstrinu.

Bara mikil notkun á samfélagsmiðlum ein og sér getur haft svo mikil áhrif á daglegt líf að við skiljum kannski ekki einu sinni sjálf hvað við erum að útsetja okkur fyrir. Eða þá skatta- og lífeyrissjóðskerfið í lífi þeirra sem vinna sjálfstætt. Allar litlu skyldurnar sem mannsæmandi félagslíf nútímabarns krefst. Óöryggið á leigumarkaðnum fyrir þá sem búa við hann.

Svona má endalaust upp telja til marks um flækjustigið við þetta blessaða nútímalíf. Sem er svo stórkostlega skemmtilegt, þrátt fyrir allt og allt, að maður prísar sig sælan að lifa akkúrat núna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit