„Ég er frá Douma“ sagði dökkhærði, brosmildi strákurinn þegar ég spurði hann hvaðan hann kæmi. Ég stirðnaði upp. Douma er í Austur-Ghouta í Sýrlandi og var lýst sem „helvíti á jörðu“ í febrúar síðastliðnum af Sameinuðu þjóðunum þar sem almennum borgurum var hreinlega slátrað af stríðandi fylkingum. Ég og dökkhærði strákurinn erum stödd í Zaatari-flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Hann er 13 ára og er búinn að vera í búðunum í 5 ár. Ég gef honum gamlan skrúfblýant og hann ljómar af gleði.
Sýrlandsstríðið hefur staðið yfir í 7 ár og talið er að um hálf milljón manna hafi látist í stríðinu sem er lýst sem mestu hörmungum okkar kynslóðar. Um 6 milljónir Sýrlendinga hafa flúið land sitt samkvæmt Flóttamannahjálp S.Þ. sem segir enn fremur að 13, 1 milljónir Sýrlendinga búi við neyð í landinu sjálfu. 6,1 milljón manna eru á flótta innan landamæra Sýrlands og 2,9 milljónir manna búa á svæðum Sýrlands sem erfitt er fyrir hjálparsamtök að koma hjálp til. Þessar tölur eru svo risavaxnar að mannlegur hugur getur varla náð utan um þær. Eða áttað sig fyllilega á því að á bak við þær eru manneskjur og líf þeirra. Flest eru börn og konur.
En kemur þetta fjarlæga stríð okkur Íslendingum við í raun og veru ? Heldur betur.
Nýlegar uppljóstranir um að íslensk stjórnvöld hafi ítrekað veitt íslensku flugfélagi leyfi fyrir vopnaflutningum til Sádi-Arabíu, þaðan sem sterkur grunur leikur á að vopn endi í Sýrlandi eða Jemen, færa íslensk stjórnvöld og almenning miklu nær beinum afskiptum af verstu stríðsátökum heims. Þátttaka Hauks Hilmarssonar í stríðsátökunum í Afrin á landamærum Sýrlands og Tyrklands, og óupplýst hvarf hans þar, færir okkur líka nær beinni þátttöku í skelfilegum og flóknum stríðsátökum í Sýrlandi.
Síðast en ekki síst, þá hefur fólk á flótta undan stríðinu í Sýrlandi leitað til okkar Íslendinga eftir alþjóðlegri vernd. Sumum þeirra hefur verið veitt landvistarleyfi, dvalarleyfi og jafnvel ríkisborgararéttur.
Evrópa hefur brugðist væntingum
Nágrannaríki Sýrlands ( fyrir utan Ísrael ) finna langmest fyrir Sýrlandsstríðinu, fyrir utan Sýrlendinga sjálfa. Þó mætti ætla af bæði viðbrögðum Evrópuríkja og samfélagslegri umræðu þar að Evrópa beri langmestan hita og þunga af afleiðingum stríðsins og móttöku sýrlenska flóttamanna. Því fer svo sannarlega fjarri. Evrópuríki hafa aðeins tekið á móti 10% flóttamanna sem flúið hafa Sýrlandsstríðið. Evrópuríki hafa líka fallið á pólitíska og diplómatíska prófinu í því að koma með virkum hætti að friðarferli í Sýrlandsstríðinu. Þessu verður að snúa við. Evrópa verður að stíga inn í sína yfirburðastöðu í alþjóðasamhengi, nú með vanhæfni Bandaríkjanna og Rússa til að vinna að friði í Sýrlandi þar sem bæði ríkin hafa verið í virkri þátttöku í stríðsátökunum.
Nágrannar axla ábyrgð með herkjum
Tyrkland hýsir nú 63% flóttamanna sem flýja frá Sýrlandi eða 3,2 milljón Sýrlendinga. Í Líbanon er fjöldi flóttamanna frá Sýrlandi 1 milljón, þar af er helmingur börn. Í Írak eru 225 þúsund flóttamanna frá Sýrlandi. Í Jórdaníu eru í dag 658 þúsund Sýrlendinga sem hafa leitað þangað vegna stríðsins. Af þeim eru rúmlega helmingur börn. Að auki er talið að 650.000 óskráðra flóttamanna frá Sýrlandi séu í Jórdaníu. Þessi lönd hýsa að auki hundruð þúsunda flóttamanna frá öðrum átakasvæðum eins og Jemen, Írak, Súdan, Sómalíu og Palestínu.
Jórdanir hafa sögulega og menningarlega reynslu af því að vera griðastaður fólks sem flýr stríðsátök og er í 5-6 sæti ríkja í heiminum þegar kemur að móttöku flestra flóttamanna. Palestínumenn fengu skjól í Jórdaníu í kjölfar innrása Ísraelsmanna 1948 og 1967. Líbanir flúðu undan borgarastríði yfir til Jórdaníu 1975-1990 og 1991 flúðu Írakar til Jórdaníu í Íraksstríðinu. En þrátt fyrir mikla reynslu Jórdana af móttöku flóttamanna, og mun opnari faðm en flestir evrópskir stjórnmálaleiðtogar gagnvart Sýrlendingum sem leita eftir alþjóðlegri vernd, lýstu ráðherrar og hæstu yfirmenn jórdanska stjórnkerfisins á fundi með flóttamannanefnd Evrópuráðsþingsins sem undirrituð sat í Amman, Jórdaníu í síðustu viku, Sýrlandsstríðinu sem algjörum hamförum: flóðbylgju sem drekkir jórdönsku samfélagi ef ekki er gætt að.
Sýrlandsstríðið hefur ekki bara haft gríðarleg félagsleg áhrif á jórdanskt samfélag, og önnur nágrannalönd, heldur mikil efnahagsleg áhrif. Hagvöxtur hefur minnkað og atvinnuleysi aukist í Jórdaníu frá því að nágrannalandið varð borgarastríði að bráð. Við bætist svokölluð „mannúðarþreyta“ eða „human-aid fatique“ á svæðinu og víðar, sem dregur úr áhuga fólks á að láta stríðið í Sýrlandi sig varða eins og áður. En ef sterkt land með góðan vilja stjórnvalda á borð við Jórdaníu kiknar undan álaginu, hvaða áhrif getur það haft þá á Miðausturlönd og önnur lönd í leiðinni ?
Hvað getum við Íslendingar gert?
Þar til pólitísk lausn finnst á stríðinu í Sýrlandi – sem er því miður ekki í sjónmáli - þarf að leysa stöðuna í mannúðarmálum. Og það gerum við öll saman og öllum ríkjum ber að deila þeirri ábyrgð jafnt. Evrópuríki, og þar með Ísland, verða að axla meiri ábyrgð með nágrannaríkjunum Sýrlands.
Ísland sem herlaus þjóð á ávallt að beita sér með virkum hætti á alþjóðavettvangi fyrir friðarumleitunum og tala skýrt gegn stríðsátökum. Við eigum að sýna að við virðum vopnaviðskiptasamning S.Þ. og alþjóðleg mannúðarlög og að við förum eftir þeim í hvívetna. Íslandi ber siðferðisleg skylda að auka framlag sitt í þróunar – og mannúðarmál, sérstaklega til stríðssvæða á borð við Sýrland. Ísland á að beita sér alþjóðlega fyrir efnahagslegum jöfnuði á milli fólks sem dregur úr líkum á því að átök brjótist út. Íslendingar þurfa að halda úti feminískri utanríkisstefnu. Leggja áfram áherslu á kynja – og jafnréttismál á alþjóðavettvangi, auka okkar framlag til jafnréttismála í alþjóðlegu samhengi og breikka okkar aðkomu enn frekar í þeim málum.
Við eigum að taka á móti fleiri flóttamönnum en við gerum nú, búa til alvöru stefnu í málefnum flóttamanna og byggja upp reynslu og faglega þekkingu á því sviði. Mennta börn og unglinga í fjölmenningu og menningarlæsi í því skyni að auka umburðarlyndi og skilning gagnvart öðrum trúar- og menningarsvæðum.
En umfram allt, þá eigum við að halda af öllu afli í mannúðina. Það er mannúðin sem gerir okkur að manneskjum, það er hún sem drífur áfram samkenndina sem tengir okkur öll saman svo við getum leyst okkar erfiðustu vandamál á borð við skelfileg stríð, hörmungar og fátækt.
Höfundur er varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis.