Stórslys hafa orðið erlendis þegar kviknað hefur í eldsneyti fyrir flugvélar, heilu hverfin hafa verið jöfnuð við jörðu við sprengingar af þessu tagi og því spyr maður sig, hvers vegna er þessi áhætta tekin í Helguvík þar sem málmbræðsluiðnaði og olíubirgðastöð er skellt saman? Píratar í Reykjanesbæ ætla að beita sér fyrir því í bæjarstjórn að stórslysanefnd verði kölluð saman svo gera megi heildstætt mat á viðbrögðum og áhættu vegna mistaka fyrri bæjarstjórna við skipulagningu svæðisins.
Öll ættum við að geta verið sammála um að olíubirgðastöð stappfull af flugvélaeldsneyti og málmbræðsluiðnaður fara ekkert sérstaklega vel saman. Þetta virðist þó ekki hafa verið skipulagsyfirvöldum í Reykjanesbæ ofarlega í huga þegar skipulagsmál í Helguvík voru til umfjöllunar. Þar var eldhættu og eldsmat hrúgað saman án umhugsunar. Ekkert óháð mat hefur farið fram um samverkandi þætti og áhættu frá þessum iðnaði sem fyrirhugað er að rísi í Helguvík og ef tekið er mið af verstu mögulegu útkomu um stórslys í Helguvík þá er nánast allur bærinn í stórhættu.
Helguvíkurhöfn var hönnuð fyrir herinn á sínum tíma til þess að geyma og flytja eldsneyti fyrir Keflavíkurflugvöll og er einnig notuð fyrir Reykjavíkurflugvöll. Áður hafði eldsneyti fyrir Reykjavíkurflugvöll verið geymt í Örfirisey. Eldsvoðinn í Buncefield olíubirgðastöð í Bretlandi árið 2005 varð til þess að hér á landi kviknaði mikil umræða um ágæti þess að geyma mikið magn eldsneytis svo nálægt íbúðabyggð. Í kjölfarið var svo gerði breyting á og olíubirgðir Reykjavíkurflugvallar færðar til Helguvíkur. Þetta virðist þó alveg hafa farið fram hjá bæjarstjórnarfulltrúum Reykjanesbæjar þegar þau settust niður og skipulögðu málmbræðslu eftir málmbræðslu í næsta nágrenni við olíubirgðastöð.
Punkturinn yfir i-ið; ekkert heildstætt óháð áhættumat hefur verið gert þar sem litið er til samspils þessara mála. „Þrjú málmbræðslu fyrirtæki hefja störf við hliðina á olíubirgðastöð flugvallarins.“ Þessi fyrirsögn hefði kannski átt að vera í fréttamiðlum þegar áætlanir um tvö stærstu kísilver í heiminum og álver voru teiknuð hliðin á olíubirgðastöð. Vanhugsuð skipulagstilraun er það fyrsta sem manni dettur í hug. Ólýsanlegt ábyrgðarleysi.
Í áhættumati birgðastöðvarinnar í Helguvík sem gert er 2015, segir að það sé fátítt að stórbrunar verði í olíubirgðastöðvum á friðartímum en aðal áhættan á friðartímum sé yfirfyllingar eða leki við dælingu eldsneytis, áhætta af neista myndandi vinnu, bilun í búnaði, blossar út frá eldingum eða utanaðkomandi eldur frá skipum sem eru að lesta eða losa.
Í aðgerðaráætlun stöðvarinnar frá árinu 2014 er eftirfarandi að finna um viðbrögð vegna sprengingar: „Ef sprenging yrði í stóru gufuskýi við verstu aðstæður er það hættulegt nágrenninu og getur valdið skaða á talsverðu svæði. Líkur á slíku atviki eru afar litlar, bæði vegna öryggisráðstafana í stöðinni og vegna veðurfars þar sem oftast er nægur vindur sem kemur í veg fyrir að slíkar aðstæður geti skapast. Allur rafbúnaður á sprengihættusvæðum er neista frír og verklag við allar aðgerðir miða að því að lágmarka líkur á sprengingu.”
Á öllu svæðinu er fyrirhugað að reisa 8 málmbræðsluofna, þá veltir maður fyrir sér hvað gæti hugsanlega farið úrskeiðis?
Í áhættumati frá Thorsill segir að ef búnaður bilar þá gæti í versta tilfelli 1,6 tonn af 500 gráðu heitri ösku á klukkutíma fresti borist frá kísilverinu ef búnaður bilar. Þarna er greinilega ekki gert ráð fyrir olíubirgðastöð, því ofnarnir ná margfalt því hitastigi sem þarf til þess að kveikja í þeim gufum sem gætu myndast ef leiðsla rofnar og það þarf ekki að spyrja að leikslokum ef það gerist á stað þar sem margir bræðsluofnar eru starfræktir. Fyrir utan kísilverin sjálft er einnig gríðarlegur eldsmatur í formi viðarkurls og kola sem geymt er óvarið við hliðina á verksmiðjunni. Þar er hætta á sjálfsíkveikju allnokkur og með réttu ætti að fjarlæga hana hið fyrsta því augljóslega er verið að bjóða upp á mikla áhættu.
Með allt þetta í huga og samspil þessara þátta þá er ekki laust við að draga þá ályktun að um stórt skipulagsslys sé að ræða. Raunar stórkostlegt hirðuleysi. Píratar á Suðurnesjum krefjast þess að Bæjarstjórn Reykjanesbæjar kalli saman Stórslysanefnd og óski eftir að gert verði heildstætt mat í Helguvík um áhættu þætti áður en farið verður í frekari framkvæmdir á svæðinu.
Höfundur er oddviti Pírata í Reykjanesbæ.
Heimildir og ítarefni:
http://www.vinnueftirlit.is/media/oryggisskyrslur/Oryggisskyrsla_Helguvik_2014.pdf
Heimildarmynd um Buncefield Brunan https://www.youtube.com/watch?v=tEy5GU7Pt4E&t=