Nú 9.-13. apríl munu sjóðfélagar í Lífsverki fá tækifæri til að kjósa í tvö laus stjórnarsæti í lífeyrissjóðnum sínum. Lífsverk býr vel að sjóðfélagalýðræðinu og tel ég það einn helsta og ótvíræða kost sjóðsins. Engir duldir valdaþræðir liggja um sjóðinn, eingöngu lýðræðislegur vilji sjóðfélaga ræður.
Gagnsæi
Byggja ætti enn frekar á gildum lýðræðislegra stjórnarhátta í störfum sjóðsins og veita sjóðfélögum fullan aðgang að upplýsingum um eignir sjóðsins frá degi til dags. Fólk er vant því að geta komist til botns í sínum málum í tölvugáttum hjá stofnunum og fyrirtækjum, lífeyrissjóðir ættu ekki að vera nein undantekning þar á. Gagnsæi eflir sjálfkrafa tiltrú fólks á því sem gert er og eykur sjálfsgagnrýni í ákvarðanatöku.
Eignamyndun erlendis
Með afnámi gjaldeyrishafta hafa skapast tækifæri til fjárfestinga erlendis sem ætti að nýta að fullu. Almenningur hefur undanfarin ár mátt neyðast til að binda fé sitt í litlu hagkerfi og óstöðugum gjaldmiðli. Þeir sem aðstöðu hafa haft til hafa hins vegar bundið auð sinn í erlendum gjaldeyri. Nú er lag fyrir íslenska sparifjáreigendur og lífeyrisjóði að styrkja stöðu sína, dreifa áhættu mun betur með erlendum eignum og eignast kröfur í stöðugri gjaldmiðli en íslensku krónunni.
Taumhald á kostnaði
Stjórnendur lífeyrissjóða vilja almennt ekki gera of mikið úr kostnaði við stjórnun þeirra og telja hann vel samanburðarhæfan við erlenda sjóði. Þá sé talið æskilegra að einblína á ávöxtunina. En ekki verður komist hjá að benda á að kostnaður safnast upp líkt og vaxtavextir, litlar breytingar verða miklar með tímanum. Fjárfestingarkostnaður vísitölusjóða vestanhafs eru ekki nema 0,09% en sambærilegur kostnaður íslenskra lífeyrissjóða er tæplega þrefalt meiri. Þjónustan er vitanlega ekki sambærileg en það er alltaf vert að spyrja sig hvort gæðin séu réttu verði keypt.
Þetta eru þau áherslumál sem ég mun vinna að í stjórn Lífsverks hljóti ég stuðning til. Ég hef setið í varastjórn undanfarin tvö ár og gef nú kost á mér til að halda samfellu í þekkingu og störfum stjórnarinnar. Kosning fer fram á vef Lífsverks.