Það jafnast fátt við tilfinninguna að koma inn í leikhús og heyra skvaldrið í áhorfendum. Svo myrkvar skyndilega í salnum, áhorfendurnir í salnum taka andköf, símunum er troðið ofan í vasa eða töskur og töfrarnir brjótast fram á sviðið.
Við förum í leikhús til að láta hreyfa við einhverju í okkur. Stundum er upplifunin hressandi og skemmtileg og við hlæjum okkur máttlaus, stundum sitjum við eftir með sorg í hjarta yfir hvað veröldin getur verið grimm og stundum býr kvöldið í leikhúsinu til óteljandi spurningar sem við veltum fyrir okkur lengi á eftir. Svo er það allra besta – að upplifa leikhús með litlu barni. Þá fyrst skiljum við töfrana.
Að fara í leikhús er sennilega ekki kvíðavaldandi tilhugsun hjá flestum. En það eru stórir hópar fólks á Íslandi sem geta ekki notið töfranna. Og þá er ég ekki að tala um fólk sem býr við fjárhagslega bága stöðu, það er efni í annan pistil. Hvað ef barnið þitt er á einhverfurófi og þú óttast að það geti ekki setið rólegt alla sýninguna? Hvað ef þú þjáist af tourette og óttast viðbrögð leikhússins og annarra gesta við kækjunum þínum? Hvað ef skyndilegur byssuhvellur eða strobe ljós geta gert það að verkum að þú færð flogakast? Hvað ef þú ert heyrnarlaus? Eða með skerta sjón? Hvað þá?
Flest hugsum við ekki út í það að leikhús getur verið þvingandi upplifun og erfið fyrir marga. Og þessa hugrenninga má auðveldlega færa yfir á annars konar menningarupplifanir en leikhús.
Ég hélt að einu aðgangsskerðingarnar gætu verið lélegt hjólastólaaðgengi og dýr aðgöngumiði. En á leiklistarskólaárunum mínum í Englandi starfaði ég sem sætavísa og komst að öðru. Þar bauð leikhúsið sem ég vann hjá upp á að sýningar þess væru reglulega textaðar og táknmálstúlkaðar fyrir heyrnarlausa, að sjónskertum var boðið að koma fyrr í leikhúsið og fá að fara upp á svið og snerta leikmuni, búninga, sviðsmyndina og allt sem gat hjálpað þeim við að njóta sýningarinnar og var einnig boðið upp á heyrnartól þar sem auk talaðs texta af sviðinu voru lesnar lýsingar á ýmsu sem fram fór á sviðinu.
Reglulega voru haldnar svokallaðar ,,afslappaðar sýningar“ (e. relaxed performance) þar sem ekki var algert myrkur í salnum, öll hljóðmynd var lækkuð og það var bara hjartanlega velkomið að standa upp, hlaupa svolítið eftir göngunum, láta frá sér hljóð og klappa nákvæmlega þegar hverjum og einum áhorfanda hentaði.
Þetta er ein af þeim ástæðum sem eru fyrir því að ég er nú í framboði og langar til að komast í borgarstjórn. Reykjavík er stórkostleg menningarborg og hún á að vera fyrir alla. Ég vil taka þátt í því starfi að aðstoða menningarstofnanir borgarinnar við að bjóða upp á aðgengilegar upplifanir fyrir fólk á öllum aldri. Þegar einhver getur ekki af einhverri ástæðu notið töfranna sem menningin okkar hefur upp á að bjóða er nefnilega vandamálið ekki manneskjunnar að leysa, heldur okkar sem að menningunni stöndum.
Höfundur er leikkona og frambjóðandi í fjórða sæti Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík.