Þrátt fyrir vanmátt þjóðríkjanna að glíma við samtvinnaðar flækjur hnattvæddra markaða og strauma flóttamanna, þá má ekki kenna þjóðernishyggjunni um allt það neikvæða sem flæðir yfir hinn vestræna heim um þessar mundir. Þjóðernishyggjan hefur ekki náð pólitískum undirtökum í álfunni. Hún skemmir vissulega út frá sér, en ræður ekki ferð.
Evrópusambandið er bólvirkið gegn þjóðernisrembingi og hamlar gegn því að þjóðir álfunnar fari aftur að troða illsakir hver við aðra. Þetta merkilega ESB-samstarf hefur dregið vígtennurnar úr stórbokkaskap og hroka þjóðríkjanna. Stórveldi Evrópu, sem áður beittu smærri þjóðir ofríki, eru nú bundin á bás gagnkvæmra, skuldbindandi samninga.
Meðlimaríki ESB eru svokölluð póstklassísk þjóðríki, sem með velyfirvegaða eigin hagsmuni að leiðarljósi, hafa ákveðið að deila einum hluta fullveldis síns með öðrum meðlimaríkjum. Annan hluta þess hafa þau afhent yfir- eða samþjóðlegum stofnunum s.s. Framkvæmdastjórn ESB og Evrópska Seðlabankanum. En stærsti hluti fullveldis þeirra er þó áfram heima í þjóðþingum hvers ríkis.
Lýðræðislega kosin þjóðþing eru sá pólitíski vettvangur þessara samtengdu ESB þjóða, þar sem lýðræðið er skýrast. Þjóðþingin ein gera ríkisstjórnir lögmætar. Aðild að ESB breytir þessu ekki. Þrátt fyrir marga ófullkomleika og misbresti, þá eru þjóðríkin enn þær stofnanir sem raungera og standa vörð um grunnreglur réttarríkisins, lýðræðisins og að mestu leyti því sem við köllum velferðarríki.
Víða blása þeir vindar sem vilja afbaka og umsnúa þessum grunnreglum hins vestræna þjóðríkis. Í tveimur ESB löndum Ungverjalendi og Póllandi hefur þeim orðið nokkuð ágengt.
Þjóðræði og annars konar lýðræði
Umræðan um vestræna þjóðríkið snýst einkum um tvenns konar sjónarmið. Innan Evrópu er í fyrsta lagi um að ræða viðhorf, sem lengst eru til hægri og vilja færa fullveldi þjóðríkisins aftur til þess tíma, þegar ekkert framsal var á fullveldisþáttum til yfirþjóðlegra stofnana. Stuðningsfólk þeirra vill ganga úr ESB og endurheimta gamla þjóðveldið án nokkurra samnningsbundinna takmarkana á fullveldi þess.Hér heima heyrast raddir sem harma fullveldisskerðingu, sem þeir segja afleiðingu EES samningsins og hvetja til þess að honum verði sagt upp. Innan Bandaríkjanna eru stjórnmálaöfl sem telja ótæka þá takmörkun fullveldis sem felst í skuldbindandi alþjóðlegum samningum og krefjast uppsagnar þeirra samninga sem takmarka fullt forræði ríkisins til sjálfstæðra athafna á alþjóðavettvangi, óháð þeim afleiðingum sem það kann að hafa. Þarna eru róttækir lýðskrumarar áberandi en þjóðernissinnar úr öðrum áttum hafa slegist í för með þeim.
Í öðru lagi eru þeir sem vilja breyta einni af stoðum vestræns þjóðríkis í það horf að koma sterkari pólitískum sjónarmiðum til áhrifa innan dóms- og fjölmiðlakerfisins. Þeir vilja láta ríkisstjórnir hafa afgerandi áhrif á skipun dómara. Það dregur úr sjálfstæði þeirra og veikir þrískiptingu valdsins. Þessi tilhneiging er vel þekkt hér heima og hefur lengi viðgengist. Svipaðrar ættar er sú stefna sem temja vill fjölmiðla til hlýðni og undirgefni. Þetta leiðir að lokum til þess að lýðræðið verður einnar víddar.