Vinstri græn og Píratar hafa átt mjög gott samstarf í Borgarstjórn Reykjavíkur þar sem flokkarnir starfa með Samfylkingu og Bjartri framtíð í meirihluta. Saman hafa þessir flokkar komið mörgu góðu til leiðar, og ég vona að við munum halda því áfram að kosningum loknum ef við fáum til þess umboð kjósenda.
Það er því mjög leiðinlegt að þurfa að bregðast við og leiðrétta grein Valgerðar Árnadóttur, sem skipar sjötta sæti á framboðslista Pírata til borgarstjórnarkosningnna. Í greininni, sem fjallar að vísu að uppistöðu um landsmálin og stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, frekar en borgarstjórnarkosningarnar, er farið mjög skrautlega með staðreyndir. Ég sé mig því knúinn til að leiðrétta nokkur atriði í greininni og árétta stefnu og árangur okkar Vinstri grænna í umhverfismálum.
Hækkun kolefnisgjalds
Það sem fyrst stingur í augu er sú fullyrðing Valgerðar að aðeins eigi að hækka kolefnisgjaldið um 10%. Hið rétta er að ríkisstjórnin hækkaði kolefnisgjaldið um 50% þann 1. janúar 2018. Það mun svo hækka um 10% til viðbótar ÞANN DAGS og svo önnur 10% árið eftir. Það er einnig einkennilegt að tala um „lækkun kolefnisgjaldsins“ í tíð ríkisstjórnarinnar, með vísan til fjárlaga Benedikts Jóhannssonar. Þau fjárlög voru aldrei samþykkt, sem betur fer, og því hefur kolefnisgjaldið ekki verið lækkað. Hið rétta er að það hækkar ívið hægar en gert hafði verið ráð fyrir.
Ástæða þess var að skörp hækkun hefði komið mjög þungt við margt tekjulagt landsbyggðarfólki, sem þarf að keyra langar leiðir. Á landsbyggðinni eru lengri fjarlægðir, til skóla, til vinnu og að sækja þjónustu.
Við í Vinstri grænum erum eindregið fylgjandi grænum sköttum á borð við kolefnisgjald. En slíkir skattar þurfa að grundvallast á bestu fáanlegri þekkingu og taka með í reikninginn efnahagslega og samfélagslega þætti.
Kolefnishlutlaus Reykjavík og kolefnishlutlaust Ísland
Stefna okkar í Vinstri grænum er að Ísland vinni að því markmiði að gera landið kolefnishlutlaust árið 2040, og er kveðið á um það markmið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Er það ein metnaðarfyllsta stefna sem nokkurt land hefur sett sér í loftslagsmálum, en þar er borgin engu að síður að feta í fótspor Reykjavíkurborgar.
Í tíð núverandi meirihluta í Reykjavík var samin metnaðarfull stefna í loftslagsmálum sem kveður á um að Reykjavíkurborg verði kolefnishlutlaus árið 2040. Sú stefna var unnin af fulltrúum Vinstri grænna og Pírata, ásamt samstarfsflokkum þeirra í meirihluta. Við í Vinstri grænum erum mjög stolt af þessari stefnu, en teljum að borgin geti gert enn betur, og við vonum að við getum átt gott samstarf við Pírata og hina samstarfsflokkana um að knýja á um að borgin setji sér enn metnaðarfyllri markmið og bretti upp ermarnar til að ná þeim.
Áhersla á umhverfismál og aukin úttgjöld til málaflokksins
Í núverandi meirihluta í borgarstjórn höfum við í Vinstri grænum lagt áherslu á umhverfismál og náttúruvernd. Við höfum þannig beitt okkur fyrir því að efla náttúruvernd í borgarlandinu og að framlög til umhverfismála væru aukin, og erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð í samvinnu við samstarfsflokka okkar, ekki síst Pírata. Umhverfismálin eru einn af þeim málaflokkum þar sem við höfum átt samleið með Pírötum. Lýðræðismálin er annar slíkur málaflokkur.
Ég er líka mjög ánægður að sjá að ríkisstjórnin stefni á að auka útgjöld til náttúruverndar og umhverfismála aukast um 35% á næstu fimm árum. Framlög til málaflokksins hafa aldrei áður verið aukin jafn hratt. Vinstri græn aldeilis ekki skilað auðu í umhverfismálum, hvorki í landsmálunum né í höfuðborginni. Að bera ábyrgð á stjórn landsins og borgarinnar þýðir að sækja fram á öllum sviðum samtímis og að vinna með ólíkum flokkum sem oft hafa gerólíka sýn í grundvallaratriðum að því að ná markmiðum sem skipta máli.
Stefna og skraut
Valgerður nefnir að lokum að loftslagsstefna Pírata hafi fengið hæstu einkunn í samantekt loftslag.is fyrir síðustu Alþingiskosningar, en bætir svo við, að vísu ranglega, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft næst bestu stefnuna samkvæmt þessu mati. Hið rétta er að loftslag.is mat það svo að Sjálfstæðisflokkurinn félli á prófinu, en að ekki væri marktækur munur á þeim fjórum flokkum sem starfa saman í meirihluta í borgarstjórn:
„Í toppi rýnisins eru svo VG, Samfylkingin, Björt Framtíð og Píratar sem teljast sigurvegarar rýnisins. Á milli þessara fjögurra efstu flokka er vart hægt að tala um marktækan mun út frá aðferðafræðinni og eru þeir á svipuðum nótum en með misjafnlega útfærð svör og stefnur sem veldur muninum á flokkunum.“
En eins og Valgerður bendir sjálf á skiptir einkunnagjöf á netinu í raun litlu í stóra samhenginu, því það sem skiptir máli er hvaða verk standa eftir. Við í Vinstri grænum höfum sýnt það og sannað að þegar við vinnum með öðrum flokkum þá leggjum við höfuðáherslu á loftslagsmál og umhverfismál, og við munum gera það hér eftir sem hingað til.
Áherslan sem við leggjum á loftslagsmál í stefnu okkar er ekki upp á skraut, heldur er hún beinlínis ein helsta þungamiðja hennar. Eitt brýnasta verkefni okkar næstu ár og áratugi er að berjast gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Það verkefni er alvarlegra en svo að pláss sé fyrir meting milli flokka sem eru þegar allt kemur til alls sammála um mikilvægi aðgerða.
Reykjavík verði leiðandi í loftslagsmálum
Við í VG viljum að Reykjavíkurborg verði leiðandi í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og skorum á aðra flokka að leggja okkur lið í þerri baráttu. Meðal þeirra aðgerða sem við teljum að ráðast verði í á næsta körtímabili er:
- Reykjavík á að vera leiðandi meðal íslenskra sveitarfélaga í því að minnka losun frá mengandi starfsemi og að binda kolefni með ýmsum mótvægisaðgerðum.
- Reykjavik á að halda áfram að tryggja að almenningssamgöngur, hjólreiðar og ganga verði raunhæfir valkostir í öllum hverfum borgarinnar. Beita þarf hagrænum hvötum og ívilnunum til að græn samgöngutæki verði hagkvæmasti kosturinn.
- Reykjavík á að styðja við orkuskipti í samgöngum með því að greiða fyrir uppbygginu innviða fyrir vistvæn faratæki. Reykjavík á að beita sér fyrir því að mengun frá skipum sé minnkuð m.a. með að hefja rafvæðingu Faxaflóahafna.
- Reykjavíkurborg á að móta sér metnaðarfulla stefnu um kolefnisbindingu.
- Reykjavíkurborg á að meta allar meiriháttar framkvæmdir með tillit til áhrifa þeirra á þróun loftslags, t.d. með því að koma á fót loftslagsráði í stíl við það sem samþykkt var á Alþingi í þingsályktunartillögu árið 2016.
Þessi listi er engan veginn tæmandi, og auk aðgerða í loftslagsmálum höfum við í VG með ítarlegar aðgerðaáætlunir um náttúruvernd, plastmengun, vatnsvernd og verndun vatnsbola, um fráveitumál, um loftgæði, svo fátt sé nefnd.
Ég vona að við í Vinstri grænum getum áfram unnið með Pírötum á næsta kjörtímabili að því að koma þessum góðu málum í framkvæmd, og vona að kosningabaráttan verði málefnaleg.
Umhverfismálin og loftslagsmálin eru alvarlegri en svo að flokkar sem hafa unnið náið saman í þeim málu, og deila sýn í málaflokknum, séu að eyða orku í að deila hvor við annan.
Höfundur er sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun og í fimmta sæti á lista fyrir VG í Reykjavík.