Það er nánast óumdeilt, að góður aðbúnaður í bernsku sé börnum hollt veganesti á lífsleiðinni. Það er affarasælt sérhverju barni að eiga náið foreldri af báðum kynjum. Þannig læra þau best um karla og konur. Sál okkar er ofin bæði kvenlegum og karlægum þráðum. Í upphafi gelgjuskeiðs varðar geysimiklu hinn unga einstakling, hvort vel hafi til tekist að skapa honum skýra kynímynd og kynsamsemd, þ.e.a.s. að hann hafi öðlast vissu um kynferði sitt. Það er raun að þekkja ekki sjálfan sig að þessu leyti, en eiga þó samt að finna sér leið í lífinu. Sjálfsvíg, afrot, hegðunartruflanir, átvandkvæði, fíkniefnaneysla og depurð, eru meðal teikna um, að pottur sé brotinn.
Væntanlega er það nú orðið alkunna, að upplausn fjölskyldna hefur aukist umtalsvert síðustu áratugi. Venjulega lyktar þeirri upplausn þannig, að samband barna við föðurinn minnkar eða jafnvel slitnar, þar sem yfirgnæfandi hluti þeirra býr áfram í móðurranni. Síðustu áratugi hefur í nokkrum mæli verið rannsakað, hver séu áhrif „föðurleysis“ á börn og þó sér í lagi á drengi. Hvorki er efnið rannsakað til hlítar, né eru niðurstöður óyggjandi. Þó virðist bera að sama brunni.
Fjarlægð föður, hvort heldur sem er óeiginleg eða eiginleg, getur verið býsna afdrifarík fyrir þroska og heilbrigði barna. Rannsóknir á íslenskum föngum karlkyns (en það eru þeir langflestir) á áttunda áratugi síðustu aldar gáfu til kynna meinsemdir í tengslum við föður í bernsku. Norskar rannsóknir á sjómannssonum benda til, að þeim hætti til að ruglast öðrum drengjum fremur í ríminu um kynímynd sína og kynhlutverk. Bandarískar rannsóknir sýna, að langflestir þeirra ungu karlmanna, sem bíða fullnustu dauðadóms, hafa enga átt föðurfyrirmynd eða hana ófullnægjandi.
Athuganir á stúlkubörnum, er basla með ýmiss konar átvanda, sýna, að fjarlægð föður á viðkvæmustu mótunarárunum geti að einhverju leyti skýrt vandræði þeirra. Andstætt því, sem oft er talið, gefa rannsóknir vísbendingar um, að stúlkur eigi jafnvel erfiðara uppdráttar en drengir í sambúð við stjúpa eða fósturföður við „föðurmissi.“ Færa má rök fyrir því, að stúlkubörn, sem ekki njóta góðra samvista við föður sinn, séu giska fákunnandi í samskiptum við hitt kynið. Í ákveðnum tilvikum gerast þær ósparar á blíðu sína í örvæntingarfullri leit að umhyggju karlmanns (les föður). Aðrar leggja fæð á föður sinn vegna „svikanna.“ Fæðin verður stundum að karlahatri. Það er ekki síður sorglegt, þegar ólánsamir piltar sjá ekki annan kost betri í sambúð með móðurinni, en að „afneita“ kyni sínu til að hlífa sjálfum sér við karl- eða föðurhatri hennar. Kynsamsemdin, þ.e. vissan um eigið kynferði, ruglast, og kynímyndin verður óskýr eða brengluð, reiðin ólgar. Þeir eru manna líklegastir til að vinna stúlkum og konum tjón fyrr eða síðar. En bæði piltar og stúlkur eiga það sammerkt, jafnvel þótt tengsl við brottfluttan föður séu bærileg, að finna til söknuðar vegna „föðurmissisins.“ Föðurhungrið er sárt. Svo segja vandaðar, bandarískar langtímarannsóknir og löng reynsla.
Höfundur er ellilífeyrisþegi.