Algengt er að sprotafyrirtæki á Seattle svæðinu miði við að það kosti um eina milljón Bandaríkjadala á ári að mynda hefðbundið teymi tæknifólks, sem vinnur að hugbúnaðargerð með skölun og markaðssetningu fyrir heimsmarkað sem endamarkmið.
Teymið telur oft um sjö til 10, og ef það á að fara nokkuð metnaðarfulla leið við ráðningar þá er algengt að laun séu á bilinu 120 til 140 þúsund Bandaríkjadalir á ári.
Í fyrstu er peningabruni algengur, áður en réttur tímapunktur er valinn til að hefja markaðssókn.
Eitt foreldrið í skólanum hjá syni mínum, hér á Seattle svæðinu, fræddi mig um þetta um daginn, en það vinnur hjá fyrirtækinu SalesForce, og þekkir tæknigeirann á svæðinu vel af langri reynslu.
Mikil reynsla hefur myndast á þessu ótrúlega efnahagssvæði, við að byggja upp tæknisprota, stækka þá og leiða síðan fram vörur og þjónustu fyrir heimsmarkað. Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid heimsóttu það á dögunum, og fengu innsýn í þennan frjóa alþjóðlega mannauðspott.
Fá svæði í veröldinni hafa aðrar eins árangurssögur fram að færa, og það má læra ýmislegt af því hvernig þetta er gert.
Á Íslandi vantar ekki metnaðarfullt og vel menntað fólk, sem hefur líklega svipaða eiginleika fram að færa.
En ytra umhverfið sem í boði er á Íslandi er með ólíkindum.
Sprotinn ehf.
Tökum dæmi.
Fyrir þremur árum, í apríl árið 2015, var Sprotinn ehf. með 140 milljónir í árstekjur á ári (1 m. USD, á þáverandi gengi, 140 ISK á hvern 1 USD). Launakostnaður var að meðaltali um 10 milljónir króna (íslenskir starfskraftar, ISK) á ári á hvern starfsmann (9 starfsmenn). Það er fremur lágt, en samkeppnin er ekki eins hörð eins og á helstu tæknisvæðunum í heiminum.
Árið 2018, þremur árum síðar, voru árstekjur í Bandaríkjadal búnar að vaxa um 20 prósent, sem telst nú nokkuð gott. Árlegar tekjur voru þá 1,2 m. USD. Í krónum talið (nú, 99 ISK á hvern 1 USD) voru tekjurnar því búnar að minnka um 22 milljónir, og komnar í 118 milljónir.
Á sama tíma hafði næstum fordæmalaust launaskrið á Íslandi átt sér stað, og voru meðallaun á hvern starfsmann farnar úr 10 milljónum á ári í um 13 milljónir. Kostnaðurinn við það nam 118 milljónum á ári.
Allur hagnaðurinn sem var hjá þessum efnilega sprota var farinn, og lífsbarátta uppi, þar sem gjöld dugðu ekki fyrir kostnaði, þegar laun og annar kostnaður var tekinn með í reikninginn.
Þetta gerðist þrátt fyrir að Sprotinn ehf. hafi staðið frammi fyrir einstöku tækifæri, með góðan tekjugrunn á fyrstu stigum og úthald frá fjárfestum sem höfðu trú á verkefninu. Erfitt samtal við þá er nú framundan.
Þeir sprotar sem voru í samkeppni við Sprotann ehf., og ákváðu að sleppa gengisáhættunni, - t.d. í Seattle - eru líklegri til að ná árangri.
Gerum betur
Mikið hefur verið rætt um að þennan ótrúlega veruleika á Íslandi, þar sem gengissveiflur stuðla að bæði erfiðleikum og góðæri með tiltölulega stuttu millibili.
Því miður sér maður ekki skýrt, hvernig það á að vera kostur fyrir Ísland í alþjóðavæddum heimi, að halda sig við einangraða peningastefnu með eigin mynt, á 200 þúsund manna vinnumarkaði. Þeir sem halda þessu fram, skulda betri skýringar og rök.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, er þar fremstur í flokki, en hann fullyrti að krónan væri það sem best væri fyrir Íslandi á landsfundi fyrir skömmu, þó hann hefði verið á allt annarri skoðun fyrir áratug. Vonandi hafa neyðarlögin og höftin ekki haft þau áhrif á fólk, að það eigi að ganga að því vísu, að við þurfum að beita slíkum meðölum reglulega til að rétta stöðuna af. Með þeim sósíalísku inngripum má jú skapa góðæri.
Tilfinningarök amatörsins
Utan frá séð virðast vera komin fram nokkur einkenni, sem benda til þess að gengisfall sé framundan og þá enn ein aðlögunin að nýjum veruleika.
Amatör eins og ég, byggir þetta nú á tilfinningu og alls konar samtölum við fólk, en ég man að sérfræðingur eins og Robert Aliber gerði það nú að (líklega litlum) hluta líka, þegar hann heimsótti Ísland fyrir hrunið. Honum leist ekki á krana-útsýnið. (Hvað ætli hann segði núna?).
1. Flestir virðast gera ráð fyrir því í sínum spám, að nær allir sem hafa flutt til Íslands til að vinna að undanförnu (þúsundir erlendra starfsmanna á ári) muni verða hér áfram. Þetta hefur síðan áhrif á eftirspurn á fasteignamarkaði, osvfrv. Þetta held ég að sé umdeilt, því flestir koma til að vinna í byggingageiranum og ferðaþjónustu. Þetta eru sveiflugeirar, samkvæmt bókinni. Margt af þessu fólki, sem hefur lagt gott eitt til á Íslandi, mun vafalítið flytja aftur heim þegar um hægist, alveg eins og Íslendingar gera oft sjálfir.
2. Útgerðin hefur verið dugleg við að hagræða og endurnýja flotann. Enginn geiri á Íslandi þekkir sveiflur íslensku krónunnar betur en útgerðin. Þegar hún er að fjárfesta fyrir tugi milljarða í nýjum tækjum, sameina fyrirtæki, styrkja landvinnslu, segja upp fólki, og styrkja samvinnufleti í sölu - þá er líklega gengisfall í kortunum.
3. Ótrúlegur fjöldi fólks hefur heimsótt Ísland undanfarin misseri, og hafa flestir sem ég hef hitt haft sömu sögu að segja. Landið er með ólíkindum fallegt og gaman að heimsækja það. En það er alveg fáranlega dýrt! Ferðaþjónustan þarf að takast á við þetta, hagræða og styrkja þjónustuna og laga hana að réttum verðum.
En þetta eru nú einmitt kostir krónunnar (samkvæmt hennar helstu fylgismönnum) að hún lagar Ísland reglulega að nýjum veruleika. Það tapa oft margir á því (almenningur, einkum í gegnum fasteignirnar, og líklega frumkvöðlar, í gegnum töpuð tækifæri sem aldrei sjást) á meðan aðrir græða.