Ástandið á íslenskum húsnæðismarkaði er ólíðandi og óferjandi og hefur þegar náð því stigi að vera neyðarástand. Það eru einkum fjórar ástæður sem valda því að ungt fólk, tekjulægra fólk og millitekjufólk með mörg börn á í erfiðleikum með að eignast húsnæði eða að borga húsaleigu. Það er mikill skortur á húsnæði til sölu og leigu, risaleigufélög með ofsagróða að leiðarljósi gína yfir leigumarkaðnum, stór hluti íbúða er leigður út til ferðamanna og stjórnvöld hafa verið algjörlega verklaus hvað þennan málaflokk varðar mörg undanfarin ár. Það eykur líka á vandann á Íslandi að lántakendur búa við mun hærri vexti en þekkjast í nágrannalöndunum og svo eru lánin verðtryggð í þokkabót. Það er erfitt að útskýra fyrir útlendingum hvers vegna vextir á húsnæðislánum á Íslandi eru svo háir sem raun ber vitni og þeim er gjörsamlega fyrirmunað að skilja hvernig hægt sé að taka lán sem séu þannig að ekki sé vitað hvað maður þarf á endanum að borga til baka.
Allir flokkar á hinu háa Alþingi eru sammála um að grípa þurfi til aðgerða. Þingmenn og ráðherrar eru sammála um að svona geti þetta ekki gengið lengur. En ekkert gerist samt. En þeir þurfa ekki að finna upp hjólið. Í nágrannalöndum okkar eru til kerfi sem virka vel og auðvelda fólki að komast undir þak. Í Hollandi eru húsnæðislán með lágum vöxtum fyrir þá sem kaupa húsnæði til eigin nota en sé ætlunin að leigja íbúðina út eru kjörin önnur. Í Skandinavíu eru líka ýmsir möguleikar sem auðvelda fólki að eignast húsnæði eða að vera á leigumarkaði, s.s. húsnæðisfélög og leigufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Þýska ríkisstjórnin hyggst nú greiða fjölskyldum með lágar og millitekjur svokallaða húsnæðis-barnapeninga eða „Baukindergeld" til íbúðarkaupa, afturvirkt til 1. janúar 2018. Upphæðin nemur 1.200 evrum á ári með hverju barni í 10 ár. Fjölskyldur með heimilistekjur upp á 75.000 evrur á ári plús 15.000 evrur fyrir hvert barn eiga rétt á þessum greiðslum í 10 ár þannig að fjölskylda með þrjú börn getur haft tekjur allt að 120.000 evrur á ári til að eiga rétt á þessum greiðslum og fær þá 3.600 evrur á ári í 10 ár eða samtals 36.000 evrur.
Þess má geta að nú þegar eru í Þýskalandi greiddir barnapeningar með hverju barni, óháð tekjum foreldra, með fyrsta og öðru barni 194 evrur á mánuði með hverju barni, 200 evrur fyrir þriðja barn og 225 evrur fyrir fjórða barn og hvert barn umfram það. Þannig að fjölskylda með þrjú börn fær 588 evrur á mánuði. Barnapeningar eru greiddir með öllum börnum til 18 ára aldurs en til 26 ára aldurs séu börnin í námi og svo lengur með fötluðum börnum. Í Neðra-Saxlandi og Hessen mun þegar á þessu ári, leikskóli verða gjaldfrjáls fyrir öll börn þriggja til sex ára. Að sjálfsögðu er heilbrigðisþjónusta, lyf þjónusta tannlækna gjaldfrjáls. Í þýsku skattakerfi eru svo sex skattþrep þar sem tekið er tillit til fjölskyldustöðu og fjölskyldustærðar. Almennt gildir að hærri laun bera hærri skattprósentu og skattar lækka með auknum fjölda barna í fjölskyldu.
Til viðbótar þessu verður verulega hert á leiguverðsbremsunni sem komið var á 2015, til að koma í veg fyrir óeðlilegar hækkanir á leiguverði á svæðum þar sem eftirspurn eftir leiguhúsnæði er mikil. Leiguverðsbremsan á að skapa jafnvægi á milli hagsmuna leigusala og leigjenda. Sá sem vill fjárfesta á áfram að geta haft arð af sinni fjárfestingu en íbúðir eru ekki vara heldur heimili fólks. Þegar nýr leigusamningur er gerður getur hækkun á leiguverði mest farið 10 % fram úr meðalleiguverði á viðkomandi svæði. Láti leigusali gera umtalsverðar endurbætur á íbúðinni getur hann hækkað ársleigu um sem nemur 8 % af kostnaði við endurbæturnar.
Einnig mun þýska ríkið að leggja allt að tvo milljarða evra til byggingar félagslegra íbúða og skulu allt að 1,5 milljón nýrra íbúða verða byggðar í félagslega kerfinu til 2021.
Það eru til ýmsar leiðir til að greiða götu fólks að öruggu húsnæði til kaups eða leigu og við hljótum öll að geta verið sammála um að aðgerða er þörf. Það er búið að tala nóg, gera greiningar og skrifa skýrslur. Horfum til þess sem vel er gert í öðrum löndum, veljum úr það besta og sjáum til þess að allir hafi öruggt þak yfir höfuðið.