Við, Vinstriheyfingin - grænt framboð í Hafnarfirði, leggjum áherslu á það í þessum kosningum að á næsta kjörtímabili verði stofnað ofbeldisvarnarráð í Hafnarfirði. Með ofbeldisvarnarráði er brugðist við útbreiddu kynbundnu ofbeldi sem virðist eiga sér stað alls staðar í okkar samfélagi. Hafnarfjarðarbær myndi þannig leggja sitt af mörkum til þess að uppræta kynbundið ofbeldi og þá margþættu kynbundnu mismunun sem viðgengst í samfélaginu.
#MeToo byltingin hefur sýnt okkur svo ekki verður um villst að víða viðgengst kynbundið áreiti og ofbeldi og að því miður er enn langt í land með að uppræta það. Mjög brýnt er að bregðast við af fullri alvöru með skilvirkum hætti.
Öllum má vera ljóst að allt samfélagið þarf að taka ábyrgð á að breyta þeirri samfélagsgerð sem við búum í. Sveitarfélagið á að taka forystu í þessum efnum og búa til vettvang þar sem hægt er að vinna að þeim nauðsynlegu þjóðfélagbreytingum sem kallað er eftir. Sveitarfélaginu ber að sporna gegn kynbundnu ofbeldi, klámvæðingu, mansali og vændi og taka forystu í að vinna gegn skaðlegum áhrifum staðalímynda t.d. með fræðslu í skólum og góðu fordæmi. Bærinn á líka að taka aukin þátt í rekstri þeirra félagasamtaka sem nú þegar vinna á þessum vettvangi s.s. eins og Bjarkarhlíð, Drekaslóð, Kvennaathvarf og Stígamót. Íbúar Hafnarfjarðar líkt og aðrir íbúar landsins leita aðstoðar hjá þessum samtökum. Hafnarfjörður, sem þriðja stærsta sveitarfélag landsins, á að sjálfsögðu að aðstoða sína íbúa með því að taka þátt í rekstri slíkra úrræða og tryggja með því að slík úrræði standi þeim til boða. Fjárframlög til slíkar samtaka ætti að vera fastur liður í fjárhagsáætlun hvers árs. Það er auk þess nauðsynlegt fyrir slík úrræði að búa við öryggi og fyrirsjáanleika í sínum rekstri til þess að geta þjónustað umbjóðendur sína sem best. Við leggjum einnig áherslu á að bærinn taki mið af Istanbúl-samningnum (samning Evrópuráðsins um forvarnir gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi) í starfi sínu.
Vinna þarf gegn kynbundnum launamun og stuðla að auknum jöfnuði kynja þegar kemur að náms- og starfsvali, aðgengi að fjármagni og ákvarðanatöku. Það munum við t.d. gera með kynjaðri fjárhagsáætlunargerð.
Við Vinstri Græn viljum einnig setja á stofn embætti umboðsmanns Hafnfirðinga að fyrirmynd Umboðsmanns borgarbúa í Reykjavík. Á síðasta kjörtímabili lögðum við fram tillögu þess efnis sem ekki fékk framgöngu í stjórnartíð meirihluta sjálfstæðismanna og fulltrúa Bjartrar framtíðar.
Umboðsmaður Hafnfirðinga er sjálfstætt embætti sem bæjarbúar og fyrirtæki geta leitað til um leiðbeiningar í samskiptum við sveitarfélagið og fengið upplýsingar um stjórnkerfið og ráðgjöf vegna einstakra mála.
Þannig myndum við styrkja tengsl milli bæjarbúa og stjórnkerfis Hafnarfjarðar og stuðla að auknu réttaröryggi íbúa í tengslum við stjórnsýsluframkvæmd og þjónustu Hafnarfjarðarbæjar.
Hægt verður einnig að fá álit umboðsmanns ef íbúar eða fyrirtæki eru ósátt við málsmeðferð og ákvarðanatöku bæjarins í málum þeirra. Hlutverk umboðsmanns Hafnfirðinga væri að leiðbeina um mögulegar kæruleiðir og leiðbeina um möguleika og heimildir til að mál verði tekin til endurskoðunar. Hlutverk umboðsmanns væri líka að útskýra og aðstoða við túlkun á efnislegu innihaldi ákvarðanatöku Hafnarfjarðarbæjar og jafnvel að bjóða sáttamiðlun í þeim tilvikum sem líkur eru á að ágreining megi sætta með slíkri aðkomu. Umboðsmaður myndi líka rannsaka einstök mál og skila áliti um lögmæti þeirra og gæti tekið mál til athugunar að eigin frumkvæði.
Jafnframt væri mikilvægt að umboðsmaður Hafnfirðinga gæti tekið á móti, rannsakað og komið á framfæri upplýsingum frá starfsfólki, viðsemjendum bæjarins og öðrum um réttarbrot, vanrækslu eða mistök eða óeðlileg afskipti kjörinna fulltrúa af málum í stjórnsýslu og/eða þjónustu Hafnarfjarðarbæjar.
Gerum betur í Hafnarfirði.
Höfundar sitja í tveimur efstu sætum VG í Hafnarfirði.