Árið er 1973. Vor er í lofti í Lúxemborg þar sem halda á söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og bjóða nýja keppnisþjóð velkomna. Nei, það land tilheyrir ekki Evrópu en fellur landfræðilega innan útvörpunarsvæðis heimsálfunnar eins og Samband evrópskra sjónvarpsstöðva skilgreinir það. Þess vegna fær sjónvarpsstöðin IBA aðild að sambandinu og nýja þjóðin hefur leika með því að bjóða upp á gospel-skotna grúvballöðu með rómantískum texta og keim af Motown-sál. Áhugasömum kemur það mörgum á óvart að nýliðinn stökkvi beint í fjórða sætið í fyrstu tilraun með laginu Ey Sham. Færri undrast það þó að fáeinum mánuðum síðar sé þetta ríki komið í stríð við nágranna sína.
Ríkið heitir nefnilega Ísrael.
Í apríl 1973 hefur hernám Ísraela á landsvæðum nágranna þeirra staðið yfir í tæp sex ár og aðeins fáeinum mánuðum fyrir keppnina – í september 1972 – horfir heimsbyggðin á eftirköst þess hernáms í beinni útsendingu, þegar samtökin Svarti september ræna ísraelskum íþróttamönnum og þýska lögreglan klúðrar björgunartilrauninni með þeim afleiðingum að gíslarnir eru drepnir. Almenningsálitið á Vesturlöndum er almennt Ísraels megin á þessum tíma og þær raddir sem mótmæla þátttöku þessarar þjóðar í söngvakeppninni eru flestar í arabalöndunum. Það tekur Ísrael ekki nema fimm tilraunir að ná að vinna keppnina en þegar það gerist sendir það höggbylgju inn í Mið-Austurlönd. Jórdanskri útsendingu frá keppninni árið 1978 er slitið þegar í það stefnir að ísraelska lagið A-Ba-Ni-Bi beri sigur úr býtum. Jórdanski sjónvarpsþulurinn staðhæfir meira að segja í lok kvölds að silfurlag Belga hafi unnið.
Fjörutíu og fimm árum síðar
Ísrael tekur enn þátt í söngvakeppninni en margt hefur breyst frá árinu 1973. Fyrir það fyrsta er fólk á Vesturlöndum nú meðvitaðra um þá mannvonsku sem er fylgifiskur hernáms Ísraela. Fimm áratugir hafa liðið og fólk þekkir orðið staðarheiti sem Ísraelsher myndi vilja láta falla í gleymsku, svo sem Sabra, Shatila, Jenín og Shahayiah. Þjáningar Palestínumanna eru ekki akademískar og fjarlægar lengur. Við höfum séð of mikið til að líta undan.
Annað sem breyttist var að hægristjórn Benjamins Nethanyahu lagði niður sjónvarpsstöðina IBA sem var aðili að Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva. Þetta gerði stjórnin að sögn Nethanyahu vegna óráðsíu í fjármálum stöðvarinnar en þar sem hann hefur ítrekað fullyrt að miðillinn sé rekinn af óþarflega gagnrýnum vinstrimönnum er kannski ástæða til að taka yfirlýstu ástæðunni með nokkrum fyrirvara. Sérstaklega í ljósi þess að staðgengill IBA – sem heitir IBC – á í nokkrum erfiðleikum með að hljóta aðild að Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva vegna þess að nýi miðillinn uppfyllir ekki eitt helsta inngönguskilyrðið; nefnilega það að vera með fréttaflutning.
Umsóknin er enn óafgreidd.
Ekkert leikfang
Netta kemur sem sagt inn í keppnina árið 2018 á sérstakri undanþágu á meðan verið er að ákveða hvort hleypa eigi fréttalausum ríkismiðli inn í Samband evrópskra sjónvarpsstöðva. Og hún vinnur.
Flott hjá henni.
Ég viðurkenni fúslega að hafa ekki íhugað að veita Nettu atkvæði mitt, en það var af þeirri einföldu ástæðu að mér fannst lagið Toy ekkert voðalega spennandi. Svona lög eru þannig smíðuð að stuðið þurfi ekki að flækjast í flóknum hljómagangi, lúmskri viðlagsbrú eða mikilfenglegri hækkun heldur hitti mann beint í danstaugina. Annað hvort nær lagið manni eða ekki. Það náði mér ekki. En Netta gerði ekkert af sér. Hún sýndi mikla hæfileika, hugmyndaauðgi og útgeislun. Gullkisurnar, augnmálningin og tryllingslegur flutningurinn voru aukinheldur skemmtileg vísun í japanska poppmenningu og boðskapurinn var jákvæður: menn eiga ekki að koma fram við konur sem dót.
En þeir eiga ekki heldur að koma fram við palestínskt fólk sem meindýr.
Eftir stendur að keppnin verður í Ísrael á næsta ári. Á að sniðganga hana? Áður en við svörum því þurfum við að taka aðeins til í umræðunni. Hún er orðin… tja, hvað skal segja? Hún er svolítið bla.
Til hvers að sniðganga?
Í fyrsta lagi vil ég slá strax út af borðinu allt tal um að söngkonan skuldi Japönum afsökunarbeiðni fyrir það að atriði hennar skuli hafa verið sett saman undir sterkum áhrifum af japanskri menningu. Ég mun ekki eyða fleiri orðum í það aukaatriði enda grunar mig að fáir leggi mikið upp úr því. Það er altjent allt önnur umræða.
Í öðru lagi vil ég enn og aftur taka það fram að Netta er ekki sek um neitt annað en að gera ógeðslega flott atriði. Hún er tónlistarmanneskja og gerði vel það sem tónlistarfólk á að gera. Hún skemmti fólki. Það þýðir samt ekki að sniðganga sé óhugsandi. Þeir sem beita fyrir sig þeim rökum að ekki eigi að sniðganga Júróvisjón af því að Netta hafi ekki drepið Palestínumann á sviðinu misskilja algjörlega út á hvað slíkar mótmælaaðgerðir ganga.
Það að halda stóra alþjóðlega söngvakeppni eins og Júróvisjón hefur í för með sér heilmikla fjárhagslega innspýtingu í ríkiskassa gestgjafanna, auk jákvæðra áhrifa á alþjóðlega ímynd þeirra. En ef nógu margar sjónvarpsstöðvar í SES setja þann fyrirvara við þátttöku sína á næsta ári að hernáminu ljúki eða t.a.m. að landnemabyggðum fjölgi ekki þá myndast félagslegur og efnahagslegur þrýstingur sem getur haft veruleg áhrif á utanríkisstefnu Ísraelsmanna. Þeir sem ranghvolfa augum yfir þessari fullyrðingu ættu að kynna sér söguna á bak við lagið Sun City, sem tugir frægra tónlistarmanna gáfu út árið 1985 til að senda þau skilaboð til stjórnvalda í Suður Afríku að aðskilnaðarstefnan þar á bæ væri óásættanleg (I ain’t gonna play Sun City).
Gildi þess að standa í afturlappirnar
Listamenn hafa menningarkapítal. Áhrifamátt. Hið sama á við um menningarveitur eins og Rúv. Og hörð afstaða sem byggir á réttsýni veitir öðrum innblástur til að slást í hópinn. Stevie Van Zandt og félagar lögðu ekki aðskilnaðarstefnuna að velli með laginu Sun City. En yfirlýsingin skipti máli. Íslenska utanríkisráðuneytið lagði ekki heldur Sovétríkin af velli með því að viðurkenna sjálfstæði Litháens árið 1991. En yfirlýsingin skipti máli. Sniðganga Rúv á Júróvisjón 2019 myndi ekki neyða Ísrael út af herteknu svæðunum. En yfirlýsingin myndi skipta máli. Breytingar eru eins og hafalda sem byggist upp smám saman áður en hún skellur á ströndinni.
Í þriðja lagi þurfum við að sópa öllum whatabout-isma út í sandkassa þar sem hann á heima. Engin hræsni felst í því að sniðganga ísraelskar vörur (efnislegar eða menningarlegar) þrátt fyrir að aðrar þjóðir fremji voðaverk án þess að vera refsað á sama hátt fyrir það. Það er engin vörn fyrir Ísrael að segja t.d. að Sádí-Arabía sé verri. Illgjörðastærðfræði er aðferð siðblindingja til að grugga umræðu. Sniðgönguaðgerðir gegn ríkjum sem traðka á fólki byggja ekki á altækum mórölskum útreikningi heldur herkænsku. Þær virka á suma og aðra ekki. Þá kemur það ekki heldur málinu við þótt árásaraðilinn sé lýðræðisríki eða að trúaröfgamenn sé að finna á meðal þolendaþjóðarinnar. Stjórnarform ríkis gefur því ekki leyfi til að skjóta óvopnaða mótmælendur og kalla það sjálfsvörn.
Ekki hægt að halda og sleppa
Í fjórða lagi þýðir ekkert að tjalda því til að sniðganga sé slæm af því að Netta sé svo jákvæð fyrirmynd fyrir lesbíur eða að textinn sé svo gott innlegg í umræðuna um #metoo. Þetta eru auðvitað sannindi en hitt er líka satt að Ísrael fremur stríðsglæpi. Við þurfum að vaxa upp úr þeim barnaskap að halda að allt sé annaðhvort/eða. Hæfileikaríkt listafólk með skarpa jafnréttissýn getur alist upp í landi þar sem viss hópur fólks nýtur engra mannréttinda. Við getum sniðgengið Júróvisjón í Ísrael þrátt fyrir að fíla Nettu.
Þess utan felst viss mótsögn í því að bera boðskap Nettu fyrir sig sem rök gegn sniðgöngu. Ef tónlist og pólitík eru svo aðskilin fyrirbæri að það megi ekki tala um Palestínu í tengslum við Júróvisjón þá hlýtur það sama að gilda um Nettu; að það megi ekkert tala um boðskap lags hennar í tengslum við sniðgönguna. Við getum ekki bæði haldið og sleppt pólitísku víddinni.
Í fimmta og síðasta lagi eru það ekki rök gegn sniðgöngu að sú leið hafi ekki verið farin áður. Að þessar raddir hafi ekki verið uppi þegar Selma fór til Jerúsalem 1999. Eða að enginn hafi talað um sniðgöngu fyrr en Netta hafi unnið. Það þýðir bara að hafaldan hafi stækkað með tímanum. Að heimsbyggðin sé loksins reiðubúin að senda Ísraelum þau skilaboð að hernámið sé ekki í boði lengur.
Stöndum saman
Ég hef sjálfur ekki verið algjörlega sjálfum mér samkvæmur í þessum efnum. Ég kaupi ekki vörur sem ég veit til þess að hafi verið framleiddar á Vesturbakkanum en ég fór í bíó á kvikmyndina Wonder Woman þrátt fyrir að vita af stuðningsyfirlýsingum leikkonunnar Gal Gadot til fyrrum félaga sinna í ísraelska hernum á meðan innrásin í Gaza stóð yfir um sumarið 2014. Metingur um það hver sé með næmustu samfélagssamviskuna er álíka kjánalegur og reðurmælingakeppni. Ég fikra mig áfram í þessum efnum eins og allir aðrir og stundum næ ég ekki að vera 100% samkvæmur sjálfum mér.
En eigum við ekki að standa öll saman í þetta sinn? Mér myndi þykja það geysisterk skilaboð í þágu mannréttinda ef Rúv myndi sniðganga Júróvisjón 2019. Mér finnst það ekki einu sinni flókin ákvörðun þegar búið er að sía alla botnleðjuna úr samtalinu.