Einhverjir hafa gagnrýnt Facebook-auglýsingar Reykjavíkurborgar að undanförnu. Ég hef ekki tölurnar til að fullyrða að þær hafi verið óeðlilega miklar. En spurningin að ofan er fullkomlega eðlileg og allir ættu að geta spurt hennar og fengið svar við henni án þess að í henni fælist aðdróttun um að óeðlilegt sé að borgin kaupi Facebook-auglýsingar til að auglýsa starfsemi sína eða að þær séu nú úr hófi fram.
En fyrst að búið er að opna fjármál Reykjavíkurborgar þá ætti ég að geta komist að þessu, ekki satt? Slóðin sem ég enda á eftir google-leit og röð tilvísana er þessi:
https://opingogn.is/dataset/fjarmal-reykjavikurborgar
Þar má sjá eftirfarandi gagnasett:
Hér sjáum við stöðuna eins og hún er þegar þetta er skrifað þann 18. maí. Nýjustu upplýsingarnar er sem sagt að finna í níu mánaða uppgjöri 2017 sem eru þá upplýsingar frá september 2017. Við höfum enn sem komið er ekki neinar upplýsingar um reikninga borgarinnar fyrir tímabilið frá október 2017. Bráðum fara raunar að líða fimm mánuðir frá því að gögnin voru uppfærð síðast.
[adpsot]Því miður er heldur ekki nein auðveld leið til að forskoða gögnin og leita í þeim án þess að hlaða þeim öllum niður og vinna með þau í reikniforriti. En það er þó hægt að gera það, hreinsa gögnin og flokka þau. Það hefur verið gert hér, að einhverju leyti.
Þannig má komast að því að árið 2017 voru Facebook-útgjöld Reykjavíkurborgar, skipt eftir ársfjórðungum, eftirfarandi:
Ársfjörðungur | Upphæð |
1 | 261.555 |
2 | 648.820 |
3 | 609.036 |
Heildarsumma: | 1.519.411 |
Út frá þessum gögnum má sjá að Reykjavíkurborg eyðir að meðaltali 200 þúsund á mánuði í Facebook-auglýsingar.
Mér er sagt að þetta eru ekki óeðlilegar upphæðir fyrir aðila eins og Reykjavíkurborg. Borgin þarf að auglýsa störf, kynna viðburði og vekja athygli á þjónustu sinni, og Facebook er sá fjölmiðill sem hvað flestir Íslendingar lesa.
Gegnsæi dregur úr tortryggni. En til að markmiðin um opin gögn náist að fullu þarf ákveðna lagfæringar á því kerfi sem Reykjavíkurborg hefur sett upp.
Í fyrsta lagi þarf að koma upp vinalegra viðmóti til viðbótar við þann möguleika að hlaða niður hráum gögnum og vinna með þau í Excel. Venjulegt fólk verður að geta flett upp upplýsingum án djúprar kunnáttu í gagnavinnslu.
Í öðru lagi þurfa gögnin að birtast miklu fyrr. Sex til sjö mánaða biðtími er ekki góður. Á opnirreikningar.is, vef sem settur var upp í ráðherratíð Benedikts Jóhannessonar, fyrrum formanns Viðreisnar, eru gögnin að jafnaði mánaðargömul. Eðlilegt væri ef Reykvíkingar gætu líka fylgst með öllum útgjöldum sveitarfélagsins jafnóðum og til þeirra er stofnað.
Best væri ef þeir sem stjórna í Reykjavík myndu einfaldlega bregðast við þeirri gagnrýni sem sums staðar hefur komið fram með því að birta lista yfir allan kostnað vegna Facebook-auglýsinga frá október 2017 og til dagsins í dag. Það ætti ekki að vera mikið mál.
Höfundur er í 2. sæti á framboðslista Viðreisnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.
Viðbót höfundar
Höfundi hefur verið bent á að vinalegt viðmót á framsetningu reikninga megi finna hér.
Athugasemdin í pistlinum leiðréttist hér með um leið og slóðinni er komið á framfæri.