Sveitarfélög landsins hafa með sér samráð um marga málaflokka. Samráð sveitarfélaga er yfirleitt gert undir yfirskini „jafnræðis“. Að það skuli vera jafnræði á milli fólks og að hvar sem það búi á landinu skuli það eiga kost á sambærilegri þjónustu og/eða launum.
Þetta er falleg hugsun en er þetta svona í raun?
Í fyrsta lagi má velta fyrir sér að ef sveitarfélögin taka við verkefnum en ætli svo að samræma aðgerðir sínar þannig að þau komi fram sem einn aðili, væri þá ekki alveg eins gott að einn aðili, Ríkið, myndi bara sjá um þessa þjónustu?
Nú er ég ekki að mæla með því að þjónusta sveitarfélaganna sé færð til ríkisins heldur einvörðungu að benda á þversögnina sem í þessu flest.
Jafnræðið er lægsti samnefnarinn
Sveitarfélögin eru mis vel í stakk búin til að takast á við verkefnin og í þessu svokallaða samráði hefur það því miður gerst að yfirleitt er miðað við það sem verst stöddu sveitarfélögin ráða við.
Jafnræðið felst þá ekki lengur í því að allir hafi það jafn gott, heldur því að allir hafi það jafn slæmt. Á þessu tvennu er grundvallarmunur.
Þetta veldur því að Reykjavík gerir ekki eins vel við öryrkja og eldri borgara því í nafni jafnræðis mega þeir ekki „hafa það betra“ en í öðrum sveitarfélögum.
Við hjá Framsókn Reykjavík bendum á að staða öryrkja eða eldri borgara utan Reykjavíkur versnar ekki við það að Reykjavík geri eins vel og hún getur. Reyndar má leiða líkum að því að staða þeirra sem þjónustuna þurfa í öðrum sveitarfélögum myndi batna við það að viðmiðin hækki.
Samráð þetta heldur líka stórum (kvenna)stéttum niðri í launum. Þetta sést einna skýrast í samningum við kennarastéttir sveitarfélaganna, en laun þeirra og kjör eru allt önnur og verri en þeirra kennara sem starfa hjá ríkinu.
Við hjá Framsókn Reykjavík viljum að Reykjavík segi sig úr þessu heftandi samráði sveitarfélaga. Við viljum að Reykjavík taki forystu í því að gera eins vel og hægt er á öllum sviðum. Reykjavík á að hækka viðmiðin þannig að hið svokallaða jafnræði snúist um að allir hafi það jafn gott í stað þess að allir hafi það jafn slæmt.
Reykjavík til forystu – XB fyrir betri Reykjavík.
Höfundur er kennari og skipar 3. sæti Framsóknar í Reykjavík.