Hreyfing og fræðsla er án nokkurs vafa nauðsynlegur hluti af uppeldi barnanna okkar og starf íþróttahreyfingarinnar spilar þar mikilvægt hlutverk. En ekki eru þó öll börn sem finna sig í starfinu og brotfall er töluvert, sérstaklega þegar unglingsárin færast yfir.
Það er því ekki að ástæðulausu að færst hefur í aukana að foreldrar kalli eftir annarskonar valmöguleikum í íþróttastarfi. Einhverskonar starfi þar sem áherslan er ekki keppni og afreksstefna, heldur starf þar sem æfingarálag er minna og börn geti prófað sig áfram í hinum ýmsu greinum.
Tökum sem dæmi unga stúlku sem langar að hætta í fimleikum sem hún hefur stundað af krafti frá unga aldri. Henni langar að byrja í boltaíþrótt, en þar sem stelpur á hennar aldri í boltaíþróttum eru mun lengra komnar þá treystir hún sér ekki til þess að byrja.
Hvaða valmöguleikar eru fyrir þessa stúlku að komast í skipulagt hópastarf? Því miður eru valkostir hennar af skornum skammti. Í raun er ekkert starf þar sem hún gæti prófað sig áfram og fundið eitthvað við sitt hæfi er í boði án verulegra fárhagslegra skuldbindinga.
Að mínu mati þarf að veita grasrótarstarfi brautargengi hjá íþróttafélögunum, grasrótarstarfi þar sem áherslan yrði á fjölbreytt starf þar sem allir fengju tækifæri til þess að finna sig í íþrótt sem hentar. Ekki yrði lögð áhersla á keppni, heldur skemmtanagildi og góðan félagsanda. Jafnframt yrði æfingatímum stillt í hóf og kostnaði haldið í algjöru lágmarki.
Með framboði mínu til bæjarstjórnar í Kópavogi vill ég stuðla að því að bæjarfélagið veiti öllum börnum í Kópavogi tækifæri til að finna sig í íþróttastarfi án þrýstings um keppni, aukaæfingar og ótæpileg fjárútlát af hendi foreldra.
Höfundur er verkfræðingur og þriggja barna faðir sem skipar 5. sæti á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar