Karlalistinn er eini flokkurinn sem hefur það á stefnuskrá sinni að breyta málaflokki barnaverndar börnum til heilla. Flokkurinn vill fagfólk til að taka á málefnum skilnaðarbarna og barna sem beitt eru ofbeldi, andlegu sem líkamlegu. Í dag er pólitískt skipað í barnaverndarnefndir víða um land og má með sanni segja að misjafn sauður er í mörgu fé. Tel það virðingarvert að feður (að mestum hluta) skuli rísa upp á afturfæturna og krefjast úrbóta í málaflokknum enda vita allir sem það vilja vita að hann er í molum, um allt land.
Dönum bar gæfa til að breyta verkferlum í tengslum við skilnað foreldra, með fókus á börnin. Þeir hafa sett þarfir og réttindi barna í fyrsta sæti, eitthvað sem margir íslenskir foreldrar mættu taka sér til fyrirmyndar, svo ekki sé talað um kerfið hér á landi. Ekki síður ættu þingmenn landsins að horfa til frænda vorra Dana og taka núverandi kerfi til gagngerrar endurskoðunar. Nýtt kerfi í Danmörku tekur gildi á vordögum 2019 því svona kerfisbreytingar eru seinvirkar.
Danir skipta nýja kerfinu upp í fimm leiðir. Fjölskylduréttarhúsið, þar hefja allir ferlið. Fjölskylduréttur, en hér afgreiðir dómari í málum sem ósætti eru um. Barna-eining, hér er um nýja deild að ræða sem hugsar eingöngu um velferð barns. Þá má finna Endurgjöf til foreldris sem er með barnið og að lokum, Jafngild staða foreldra.
Fjölskylduréttarhúsið
Hér byrja öll pör en um nýtt úrræði er að ræða. Á þessum stað er málið skoðað. Eftir það er hægt að vísa úrræðinu í þrjár ólíkar leiðir sem Danir kalla, græn, gul og rauð leið rétt eins og umferðarljósin. Segja má að það virki eins, áfram á grænu, stoppa og doka við á gulu og svo stöðva á rauðu.
Græna leiðin er fyrir auðveld mál þar sem par/fjölskylda þarf litla sem enga hjálp.
Gula leiðin er fyrir fjölskyldu sem þarf hjálp með ráðgjöf og leysa vandamál sem eru ekki komin í hnút og ef það tekst ekki fer málið áfram.
Rauða leiðin fer fyrir fjölskylduréttinn þar sem fjölskylda þarf veruleg afskipti frá yfirvöldum til að tryggja velferð barns.
Skoða og ígrunda þarf hvert mál til að mæta þörf hverrar fjölskyldu fyrir sig og skoðunin gerist sjálfkrafa þegar fólk sækir um skilnað þar sem hluti spurninganna sem þau svara sýna fram á hver vandinn er og þörf fjölskyldunnar. Skoðunin er grundvöllur heimsóknar starfsmanna stofnunarinnar.
Danir áætla að í grænu leiðin fari um 60.000 mál, í gulu leiðina um 30.000 og um 7000 mál þurfa á rauðu leiðinni að halda.
Erfiðustu málin, þar sem sveitarfélaginu er blandað inni í, á að vinna með þverfaglegum og heilstæðum hætti. Þess vegna á að styrkja samvinnu á milli stofnanna meðal annars með skjótvirkari upplýsingagjöf og íhlutun. Sveitarfélagi er heimilt að vísa máli inn í Fjölskylduréttarhúsið í sérstökum tilfellum telji þeir þörf á frekari íhlutun.
Fjölskylduréttur
Annar hluti í nýja kerfinu er fjölskylduréttur. Hann hefur aðsetur hjá héraðsdómi og dómari tekur ákvörðun í erfiðum málum. Hér eru vandamálin mikil, m.a. ofbeldi og misnotkun vímugjafa. Fjölskyldurétturinn afgreiðir líka þau mál sem Fjölskylduhúsið ræður ekki við. Hægt er að áfrýja öllum málunum til dómstólsins.
Fjölskyldurétturinn á framvegis að meðhöndla þau mál þar sem annað foreldrið fer ekki eftir úrskurði yfirvalda, t.d. umgengni eða foreldri notar foreldraútilokun/tálmun. Rétturinn fær verkfæri til að vinna með til að tryggja barninu umgengni við báða foreldra og hann getur sent mál aftur til Fjölskylduréttarhússins.
Rétturinn fær fleiri og fjölbreyttari verkfæri í hendur til að finna lausn á máli og ljóst að dagsektir, m.t.t. tekna tálmunarforeldris, verða notaðar þannig að viðkomandi finni fyrir því. Hægt verður að fjarlægja foreldri sem betir tálmun til að tryggja að hitt foreldrið geti sótt barn sitt í eðlilegri aðstæðum en foreldrar hafa skapað.
Barna-eining
Skilnaður getur verið barni mjög erfiður og því verður að tryggja stöðu þess við skilnað foreldra. Ný grein í lögum um foreldraábyrgð kveður á um að barn vegi þyngra en nokkuð annað. Fókus á líðan barns er í öllu ferlinu og því verður nokkurs konar barna-eining sem passar upp á barn og tryggir að það hafi alltaf einhvern fullorðinn til að tala við og spyrja, allt eftir líðan þess. Á þessum stað kemur talsmaður barns inn í myndina sem gætir þess að íhlutun komi snemma en hlífi barni eins og hægt er.
Tími endurgjafar
Skilaður hefur áhrif á líðan og hversdagsleika allra sem að honum koma. Innleiða á þriggja mánaða tímabil þar sem barn er hjá hvoru foreldri fyrir sig hafi þau ákveðið að skilja. Á þessum tíma gefst foreldrum kostur að íhuga stöðuna. Á þessu þremur mánuðum býðst foreldrum og barni ráðgjöf. Foreldrum verður líka boðin ráðgjöf þar sem þeim er gerð grein fyrir áhrifum skilnaðar á barnið og á hvern hátt þau geta hagað málum þannig að það komi því best og hvernig þau geta stutt barnið á erfiðri stundu.
Jafnir foreldrar
Þetta nýja kerfi er til að jafna stöðu foreldra þegar kemur að skilnaði. Því eiga foreldrar sem eru sammála að geta skipt lögheimili barns á milli sín. Samtímis verður fjárhagur beggja skoðaður og foreldrar deila barnabótum og öðrum greiðslum frá ríkinu.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þegar Danir innleiða nýtt kerfi. Þegar lesið er í gegnum breytingarnar er rauði þráðurinn velferð barns, réttarstaða þess að hafa aðgengi að báðum foreldrum og afleiðingar af tálmun. Gætu íslensk börn óskað sér einhvers meira en að þau komist í fókus í skilnaðarmálum, held varla.
Höfundur er grunnskólakennari, móðir og amma.