Í ár fara fram borgarstjórnarkosningar þar sem kjósendum býðst að velja milli fulltrúa sem síðan eiga að ráða borginni í fjögur ár. Úrvalið er óvenju mikið í þetta sinn, heil sextán framboð, svo allir ættu að geta fundið sér fulltrúa við sitt hæfi sem þeir síðan afsala sínu umboði til. Sumir sjá eftir sínu atkvæði og finnst þau ekki hafa nein áhrif á það sem fer fram í borginni að kosningum loknum. Það er miður því það er hægt að taka ákvarðanir saman á mun lýðræðislegri máta.
Í Reykjavík höfum við stigið nokkur framfaraspor í átt að lýðræðislegri ákvarðanatöku. Á vefnum Betri Reykjavík fara reglulega fram kosningar þar sem íbúar úthluta fjármagni og forgangsraða framkvæmdum. Hugmyndirnar þar inni koma frá íbúum. Píratar hafa að auki haft frumkvæði að opnun bókhalds Reykjavíkur þannig að allir íbúar geta kynnt sér nákvæmlega í hvað sameiginlegir sjóðir okkar fara.
Að koma með hugmyndir og kjósa á milli þeirra beint án aðkomu kjörinna fulltrúa er spennandi og gaman, en þetta er þó ekki nema brotabrot af því valdi sem ætti að vera hjá íbúum borgarinnar. Vegna ólýðræðislegra takmarkanna hafa góðar hugmyndir því miður ekki alltaf náð fram að ganga.
Við ætlum að útvíkka verkefnið „Hverfið mitt“ þannig að íbúar geti haft bein áhrif á fleira en framkvæmdir og viðhald í sínu hverfi. Einnig ætlum við að taka til hliðar fast fjármagn fyrir opnar hugmyndir íbúa sem falla ekki undir verkefnið „Hverfið mitt“, heldur eru hluti af öðru verkefni sem heitir „Þín rödd í ráðum borgarinnar“. Síðustu fjögur ár hefur ekki verið sett fjármagn í þessi verkefni og því hefur nánast ekki ein einasta tillaga frá íbúum sem hefur komið þar inn verið verið samþykkt eða framkvæmd. Þessu ætlum við að breyta með að setja samanlagt 1500 milljónir í þessi verkefni.
Við ætlum að auka gagnsæi í verkefnum borgarinnar sem snúa að þátttökulýðræði og stefna að því að þau verði tekin saman í einni einfaldri þátttökugátt á vef borgarinnar. Við ætlum að auka möguleika íbúa á eftirfylgni með innsendum hugmyndum og auðvelda yfirsýn yfir stöðu þeirra í kerfum borgarinnar. Það er einnig mikilvægt að íbúar fái aðstoð við að koma hugmyndum sínum inn á vefinn og það verði meðal annars gert í gegnum opna íbúafundi.
Með upplýsingartækninni ætlum við að þróa verkfæri sem gera íbúum kleift að koma að gerð fjárhagsáætlunar á einfaldan hátt. Því mikilvæga vinnu eins og gerð fjárhagsáætlunar er hægt að bæta með því að fá fleiri að borðinu og taka þannig ákvarðanir saman á mun lýðræðislegri hátt.
Píratar leggja mikla á herslu á að búa til möguleikann á því að boða til ráðgefandi atkvæðagreiðslna á netinu meðal íbúa borgarinnar. Þessar atkvæðagreiðslur væru um veigamikil hagsmunamál sem skiptar skoðanir eru um. Einnig ætlum við að gefa íbúum skýr úrræði og leiðsögn frá borginni um það hvernig þeir geta sjálfir kallað eftir íbúakosningum um einstök mál skv. Núverandi sveitarstjórnarlögum. Við viljum að niðurstöður slíkrar kosninga verði bindandi fyrir borgarstjórn en ekki ráðgefandi.
Við viljum valdefla þig og styrkja beint lýðræði í borginni svo íbúar geti veitt kjörnum fulltrúum aðhald og þannig aukið traust borgarbúa á stjórnmálum og stofnunum borgarinnar. Píratar treysta íbúum til þess að koma að ákvarðanatöku í borginni og það traust endurspeglast í þessum áherslum. Settu x við þína eigin valdeflingu, x við P.
Höfundur skipar 2. sætið á lista Pírata í Reykjavík.