Þann 26. maí verður bæjarbúum boðið upp á val. Þar verðum við í Garðabæjarlistanum raunverulegur valkostur, listi með einstaklega öflugu og frambærilegu fólki. Fólki sem er tilbúið að leggja mikið á sig til að gera bæinn okkar að betri bæ, sem er tilbúið að hlusta á bæjarbúa og veita þeim alvöru valfrelsi. Síðustu ár höfum við séð hvernig peningum okkar bæjarbúa er varið í hluti sem að okkar mati eru ekki til þess að auka gæði eða þjónustu við bæjarbúa, hluti sem hreinlega tilheyra ekki skyldum sveitarfélaga á nokkurn hátt. Við vitum að það er hægt að gera betur, það er hægt að forgangsraða í þágu íbúa Garðabæjar. Ekki bara stundum, heldur alltaf.
Jeppabifreið eða hækkun hvatapeninga
Fljótlega eftir kosningar vorið 2014 fóru bæjarfulltrúar meirihlutans að ræða það í óformlegu spjalli að bæjarstjórinn þyrfti að fá nýjan bíl til afnota. Á mörgum vinnustöðum er sjálfsagt mál að skaffa bíl til afnota ef starfsmenn þurfa að fara langar leiðir vegna vinnu sinnar. Hvernig forgangsröðunin gat legið í 8 strokka jeppa í stað t.d. rafmagnsbíls, mengunar í stað umhverfisvænnar ákvörðunar er ekki hægt að skilja. Fyrir mismuninn á verði, rekstrarkostnaði jeppa og rafmagnsbíls hefði verið hægt að hækka hvatapeninga eða jafnvel koma á fót lýðheilsustyrk fyrir eldri borgara í Garðabæ. Því öll viljum við fara vel með fjármuni sveitarfélagsins um leið og við viljum bjóða íbúum upp á eins góða þjónustu og kostur er á.
Fjölnota fundarsalur eða lækkun leikskólagjalda
Eftir að meirihlutinn keypti húsnæði á Garðatorgi, sem var einkennileg ákvörðun á sínum tíma, var lengi erfitt að finna not fyrir það. Eftir miklar vangaveltur var ákveðið að breyta þessu húsnæði í fjölnota fundarsal. Húsnæðið er ekki í tengingu við skrifstofur Garðabæjar en samt sem áður þarf að nýta fjárfestinguna og því var ákveðið að breyta rýminu með tilheyrandi kostnaði fyrir okkur bæjarbúa. Að okkar mati hefði þessum 140 milljónum sem nú þegar hefur verið varið í verkefnið verið betur varið til að lækka leikskólagjöld barna í bænum. Því það er ekki þannig að aukin þjónusta í þágu velferðar eða barna og ungmenna kalli endilega á aukin fjárútlát heldur miklu frekar á forgangsröðun fjármuna í þágu allra í stað sumra.
Ofurlaun bæjarstjóra eða gjaldfrjáls tómstundabíll
Í upphafi kjörtímabils ákvað meirihlutinn að hækka laun bæjarstjóra langt umfram sambærileg laun. Þessi ákvörðun hefur kostað okkur bæjarbúa í kringum 50 milljónir yfir kjörtímabilið. Fyrir okkur er þetta sjálftaka á skattpeningum bæjarbúa og með ólíkindum að slíkt skuli viðgangast. Að okkar mati hefði mátt verja þessum fjármunum í þágu bæjarbúa t.d. með því að hafa gjaldfrjálsan tómstundabíl. Við í Garðabæjarlistanum finnst einfaldlega ofangreindar ákvarðanir allar bera vott um það að hér starfar meirihluti sem er orðinn svo vanur því að hafa völdin að hann telur sig geta sóað fjármunum bæjarins óáreittur.
Forgangsröðum í þágu íbúa
Það er á höndum þeirra sem eru í pólitík að forgangsraða, og það er skýlaus krafa að stjórnmálamenn forgangsraði fyrst og fremst í þágu íbúa. Við í Garðabæjarlistanum ætlum svo sannarlega að gera það. Virkjum lýðræðið og setjum G fyrir Garðabæjarlistann á kjördag.
Höfundar eru frambjóðendur Garðabæjarlistans.