Hinn 20. maí skrifaði Þorbergur Steinn Leifsson verkfræðingur hjá Verkís grein í Kjarnann um Hvalárvirkjun. Í grein Þorbergs eru margar rangfærslur sem oft hafa verið leiðréttar áður, sbr. skrif Bergsteins Birgissonar, Péturs Húna Björnssonar, Snorra Baldurssonar, Tómasar Guðbjartssonar o.fl. Hér verða nokkur atriði endurtekin til þess að íbúar Árneshrepps hafi það sem sannara reynist á kjördag.
Þorbergur segir: „Hvalárvirkjun er þannig lykilinn að viðunandi raforkuöryggi heils landshluta. “ Hið rétta er að raforkuöryggi á Vestfjörðum er á engan hátt háð stórri virkjun í Árneshreppi enda er á Íslandi framleitt rafmagn sem dugir öllum rafmagnsnotendum utan stóriðju fjórfalt. Raforkuöryggi er fólgið í öruggum línum og tryggri tengingu við fleiri en eina virkjun og því má koma við t.d. með smávirkjun eða vindorkugarði í Ísafjarðardjúpi. Það er engin ástæða til að fórna stórkostlegri náttúru Árnesshrepps og víðernum Ófeigsfjarðarheiðar, byggja tengivirki og leggja í gríðarlegar línu- og sæstrengslagnir fyrir raforkuöryggi Vestfirðinga. Í skýrslu sem kanadíska ráðgjafafyrirtækið METSCO vann fyrir Landvernd kemur fram að Hvalárvirkjun bæti raforkuöryggi Vestfirðinga svo til ekki neitt. Aftur á móti má tífalda raforkuöryggið með lagningu jarðstrengja á erfiðustu línuleiðunum.
Þorbergur segir um ósnortin víðerni: „Það er þó erfitt að skilja að það sé mikilvægt markmið að halda slíkum jaðarvíðernum sem aldrei hafa verið nýtt til neins sem stærstum. Hefur slík fermetratalning eitthvert raunverulegt gildi? Skerðingin á víðernum er auk þess mjög mild, og fæstir myndu, eftir virkjun, upplifa þetta svæði öðruvísi en sem óskert víðerni.“
Skipulagsstofnun telur aftur á móti að helstu umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar felist m.a. í „umfangsmikilli skerðingu óbyggðs víðernis og breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess, þar sem náttúrulegt umhverfi verður manngert á stóru svæði. ..... Samlegð með áhrifum fyrirhugaðrar háspennulínu yfir Ófeigsfjarðarheiði og mögulegrar Austurgilsvirkjunar á Langadalsströnd eykur enn á áhrif Hvalárvirkjunar á landslag og víðerni.“ Samkvæmt frummatsskýrslu Verkís minnka víðerni Vestfjarða við þessar framkvæmdir um 21%. Fara úr 1635 km2 í 1290 km2. Minnkun um fimmtung eru mild áhrif að mati Þorbergs. Mundu ekki flestir finna fyrir því að missa fimmtunga af eigum sínum?
Flestum er nú orðið ljóst að mjög mikil verðmæti eru fólgin í óspilltri náttúru og eins og fram kom á fjölsóttri ráðstefnu "Verndarsvæði og þróun byggðar" sem haldin var í lok síðasta mánaðar geta friðuð svæði skilað margföldum tekjum á við röskuð. Hver króna sem lögð er í verndarsvæði skilar sér tífalt til baka í Finnlandi og eindregin niðurstaða mastersritgerðar Jukka Siltanen er að náttúruvernd og náttúrumiðuð ferðaþjónusta séu efnahagslega afar sterkir valkostir við nýtingu náttúruauðlinda. Hver króna sem farið hefur í Þjóðgarðinn Snæfellsjökul hefur skilar sér fimmtugfalt til baka, samkvæmt rannsókninni.
Tímarnir eru breyttir, verðmæti ósnortinna víðerna eru meiri villt en virkjuð. Ósnortin víðerni eru verðmæt einmitt af því að þau eru ósnortin og víð. Virði þeirra eykst með stærð ekki með minnkun. Ef grípa má til orða Bergsveins Birgissonar (Stundin 16.05). „Málið er að það land sem er verið að gefa erlendu auðvaldi, mun verða dýrmætara með hverju árinu sem líður samkvæmt skýrslu frá OECD sem gefin var út í fyrra um víðerni Evrópu – þar sem kallað er eftir því að lönd Evrópu geri sitt ítrasta til að varðveita slík svæði sem eftir eru. Ef af virkjun verður mun 1600 ferkílómetra svæði af ósnortnum víðernum verða rofið – tengingin frábæra milli Stranda og þjóðgarðsins á Hornströndum.“
Þorbergur segir að virkjunin hafi farið eðlilega leið í stjórnkerfinu og svo: „Nefnd sérfræðinga í Rammaáætlun 2 og 3 mat Hvalárvirkjun einu vatnsaflsvirkjunina á nýju óvirkjuðu svæði sem bæri að nýta til orkuframleiðslu frekar en verndar [undirstrikun höfundar]. Við lögformlegt umhverfismat sumarið 2016 barst aðeins ein athugasemd og var hún frá Landvernd. Engir lögbundnir umsagnaraðilar sem Skipulagsstofnun lét vinna álit á matinu, sérfræðingar hver á sínu sviði, gerðu athugasemdir við mat virkjunaraðila, um tiltölulega lítil umhverfisáhrif virkjunarinnar.“
Hið undirstrikaða í tilvitnuninni hér að ofan er alrangt eins og oft hefur verið bent á, m.a. af Pétri Húna Björnssyni á vef Rjúkanda (rjúkandi.is). Flokkun virkjanakosts í nýtingarflokk þýðir ekki hann megi nýta skilyrðislaust, heldur aðeins að halda megi áfram vinnu við undirbúning mögulegrar virkjunar. Hluti af þeim undirbúningi er að láta fara fram umhverfismat sem er hinn eiginlegi prófsteinn á því hvort forsvaranlegt sé að virkja.
Á þetta var bent m.a. af virkjunaraðilum þegar þáverandi ríkisstjórn hugðist færa nokkra svokallaða virkjunarkosti í orkunýtingarflokk með handafli. Þá var haft eftir Gústaf Adolf Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samorku: „Að lokinni röðun í nýtingarflokk tekur við vandað, faglegt og lýðræðislegt stjórnsýsluferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, auk skipulagsferla og ferla leyfisveitinga. Út úr þeim ferlum getur hæglega komið sú niðurstaða að ekkert verði af umræddum framkvæmdum”. Niðurstaða Skipulagsstofnunar um áhrif Hvalárvirkjunar á umhverfi og samfélag er eins og fyrr er rakið nánast samfelldur áfellisdómur yfir framkvæmdinni og því ber að hætta við hana. Orð Þorbergs um til „tölulega lítil umhverfisáhrif virkjunarinnar“ eru röng.
Þorbergur segir „Erfitt er að sjá að það hafi verðið byggð, eða verði byggð virkjun á Íslandi sem gæti haft jafnmikil jákvæð áhrif á nærsamfélagið og heilan landshluta.“ Þetta er líka alrangt. Það er ekkert sem bendir til að Hvalárvirkjun muni hafa jákvæð áhrif á byggð í Árneshreppi til lengri tíma. Vissulega verða aukin umsvif í hreppnum á 2-3 ár virkjunartíma, en eftir að búkollurnar eru horfnar og hamarshöggin hljóðnuð, stendur eftir mannlaus virkjun og Strandir, sem áður voru eitt magnaðasta svæði landsins, í sárum. Aftur á móti gæti þjóðgarður eða álíka verndarsvæði haft veruleg jákvæð áhrif eins og bent var á hér að framan.
Margt fleira mætti tína til, en hér verður staðar numið. Þó má að lokum halda því til haga að "virkjunaraðilinn" sem Þorbergur talar um í greininni er HS orka, einakfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila. Þessir aðilar munu hagnast verulega á framkvæmdinni.
Höfundur er stjórnarmaður í Landvernd.