Þeim fjölgar stöðugt sem vilja stytta vinnuvikuna á Íslandi og það er ekki að ástæðulausu. Meginmarkmiðið með því að stytta vinnuvikuna er að stuðla að fjölskylduvænum vinnumarkaði enda er samvera barna með foreldrum og fjölskyldum sínum gríðarlega mikilvæg. Ef vinnustaðir geta með tiltekinni aðgerð dregið úr álagi og veikindum starfsmanna án þess að það bitni á afköstum er augljóst að skoða verður þá aðgerð betur.
Samþætting vinnu og einkalífs
Íslendingar vinna meira en fólk í nágrannalöndunum. Hér á landi er hlutfall þeirra sem vinna meira en 50 klukkustundir á viku hvað mest allra í Evrópu en hlutfallið er mun minna annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta sýna meðal annars gögn frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD. Þrátt fyrir langan vinnutíma afköstum við ekki meira en aðrar þjóðir. Landsframleiðsla Íslendinga er þannig talsvert minni en Svía, Norðmanna, Dana og Finna.
Þessi langi vinnudagur gerir mörgum erfitt að samþætta vinnu og einkalíf. Þetta þekkja ansi margir of vel. Enda sýna tölur OECD að Ísland er í 33. sæti af 38 löndum í samanburði um jafnvægi milli vinnu- og einkalífs. Þessu verðum við að breyta.
Tilraunin í Reykjavík
Vorið 2015 hófst tilraunaverkefni í Reykjavík um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar. Tilraunin náði þá til tveggja starfsstaða og síðan bættust sex aðrir starfsstaðir við haustið 2016. Niðurstöður úr þessum 1. áfanga sýna jákvæð áhrif styttingar á líkamlega og andlega líðan starfsfólks, starfsánægja eykst og þá dregur úr skammtímaveikindum. Að auki sýna mælingar fram á sömu eða aukin afköst starfsmanna. Þess vegna var ákveðið að útvíkka tilraunaverkefnið og í febrúar hófst 2. áfangi þess. Starfsstaðirnir eru núna um 100 talsins og verkefnið nær til 2200 starfsmanna af um 8500 starfsmönnum Reykjavíkurborgar.
Betri lífsgæði
Margvísleg rök eru fyrir því að stytta vinnuvikuna. Fyrir utan góðan árangur í 1. áfangi tilraunverkefnsins í Reykjavík er hægt að nefna fleiri atriði. Ísland er eins og áður sagði í 33. sæti í samanburði þegar kemur að því að samræma vinnu og einkalíf. Núverandi módel gengur einfaldlega ekki upp. Styttri vinnuvika dregur úr líkum á streitu, kulnun í starfi og ennfremur veikindum. Fyrir vikið aukast líkur á því að fólk endist lengur á vinnumarkaði. Um leið minnkar þörfin á starfsendurhæfingu.
Styttri vinnuvika er líka ein leið til jafnréttis sem eykur jafnvægi á heimilum. Einnig þegar kemur að ólaunaðri vinnu, en í dag eru konur líklegri til að vera í hlutastörfum til að hafa svigrúm til að sinna fjölskyldum sínum, börnum eða öldruðum ættingjum. Fullyrt hefur verið að styttri vinnuvika muni draga úr þessum mun milli karla og kvenna. Að auki er ljóst að þegar við getum ekki sinnt því sem veitir okkur lífsfyllingu þá kemur það á endanum niður okkur öllum. Styttri vinnuvika hefur þannig mikið forvarnargildi. Fleiri atriði er hægt að nefna en í raun snýst þetta fyrst og fremst um lífsgæði, samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og tækifæri til að rækta vinagarðinn. Þannig vinna allir þegar við vinnum minna.
Fyrir utan þá augljósu staðreynt að lög um 40 klukkustunda vinnuviku voru sett árið 1971. Síðan þá hafa orðið gríðarlegar samfélagsbreytingar og það er alls ekki þannig að eitthvað sem var ákveðið að gera fyrir tæpum 50 árum eigi að gilda um aldur og ævi. Þetta er ekki meitlað í stein eins og ýmsir vilja meina.
Höldum áfram
Um stórt hagsmunamál er að ræða sem sífellt fleiri tengja við. Stytting vinnuvikunnar er mikilvægur þáttur í því að fjölga samverustundum fjölskyldna og auka þannig lífsánægju fólks. Slík breyting gerist hins vegar ekki að sjálfu sér og þarf trausta pólitíska forystu til að halda áfram á sömu braut.
Höfundur er varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður stýrihóps Reykjavíkurborgar um styttri vinnuviku.