Þorbergur Steinn Leifsson, verkfræðingur, svaraði í gær, 25. maí, grein minni í Kjarnanum frá 20. maí sl. þar sem ég vændi hann um nokkrar rangfærslur vegna Hvalárvirkjunar. Hann var kurteis í skrifum sínum, en ákveðinn í að hafa ekki farið með neitt fleipur heldur hefði verið um misskilning að ræða hjá mér í tveimur tilvikum og ágreining um leiðir í hinum.
Hann svarar þó t.d. ekki þeirri ábendingu minni að flokkun virkjunarkosts í nýtingarflokk þýddi ekki að hann „bæri að nýta til orkuframleiðslu frekar en verndar“, eins og Þorbergur orðaði það. Flokkun í nýtingarflokk þýðir aðeins leyfi stjórnvalda til frekari skoðunar á tilteknum virkjunarkosti sem m.a. felur í sér rannsóknir og umhverfismat. Umhverfismatið er hinn endanlegi mælikvarði á hvort nýta eigi/beri tiltekin virkjunarkost til orkuframleiðslu. Þarna var því um klára rangfærslu að ræða hjá Þorbergi. Eitt stig fyrir mig.
Til að bæta raforkuöryggi Vestfjarða nefndi ég þá möguleika að leggja bilanagjörnustu loftlínur í jörð (sbr. skýrslu METSCO) og tengja þéttbýlið við utanvert Ísafjarðardjúp í báðar áttir með „t.d smávirkjun eða vindorkugarði í Ísafjarðardjúpi“. Þarna viðurkenni ég að hafa notað ónákvæmt orðalag í fyrra tilvikinu og e.t.v. óraunhæfan kost í því seinna (vindmyllur). Það sem ég átti við með „smávirkjun“ er réttara að kalla litla vatnsaflsvirkjun 10-25 MW eða þar um bil. Vesturverk er m.a. að skoða möguleika á þremur slíkum virkjunum í sunnanverðu Ísafjarðardjúpi í Hestfirði, Skötufirði og Ísafirði. Haft er eftir Gunnari Gauki Magnússyni, framkvæmdastjóri Vesturverks á RÚV (09.03.16) að það sé „ljóst að í Djúpinu séu miklir möguleikar á orkuöflun“. Það er ansi mikið styttri línuleið frá Hestfirði inn á Ísafjörð en alla leið frá Hvalá og því engin þörf á að fórna stórbrotinni náttúru Stranda. Segjum 0 stig fyrir þetta vegna ónákvæmni minnar en þó réttrar hugsunar.
Þorbergur segir mig líka hafa misskilið orð sín um að framkvæmdin sé ekki umdeild í mati á umhverfisáhrifum. Umhverfismat virkjunaraðilans reynir eðli máls samkvæmt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og umsagnir umsagnaraðila eru bara það, umsagnir sem Skipulagsstofnun hefur til hliðsjónar þegar hún birtir álit sitt á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Álit Skipulagsstofnunar, óháðrar ríkisstofnunar, er því hinn eini gildi mælikvarði á umhverfisáhrif tiltekinnar framkvæmdar. Það álit var áfellisdómur yfir Hvalárvirkjun eins og þegar hefur verið lýst. Eitt stig fyrir mig.
Þorbergur telur það kokhreysti að segja að „ekkert bendi til að Hvalárvirkjun muni hafa jákvæð áhrif í Árneshreppi til lengri tíma“. Sjálfur sagði hann „Erfitt er að sjá að það hafi verðið byggð, eða verði byggð virkjun á Íslandi sem gæti haft jafnmikil jákvæð áhrif á nærsamfélagið og heilan landshluta“. Ég læt lesandanum um að meta hvort er meiri kokhreysti. Hvalárvirkjun verður rekin án fastrar viðveru manna þannig að hún skapar engin langtímastörf. Hvalárvirkjun tryggir ekki raforkuöryggi Vestfirðinga, eins og margoft hefur verið bent á; raforkuöryggi Vestfirðinga má tryggja með mun minna raski ef vilji er fyrir hendi. Vegi og vegslóða má leggja vegna ferðamennsku án þess að til virkjunar komi og í því tilviki er auðveldara að fella þá að landi og landsháttum (hér er ég ekki að mæla með vegalagningu út og suður um Ófeigsheiði, bara að benda á að vegur og virkjun eru aðskilin fyrirbæri). Enn og aftur eitt stig fyrir mig.
Þorbergur segir að ég telji mig betri spámann en jafnvel mestu sérfræðinga á orkumarkaði því ég lauk fyrri grein minni með eftirfarandi fullyrðingu. „Þessir aðilar (HS-Orka) munu hagnast verulega á framkvæmdinni“. Þegar hann talar um sérfræðinga á hann væntanlega m.a. við Ketil Sigurjónsson sem hefur sagt að „Hvalárvirkjun virðist varla geta verið mjög hagkvæmur virkjunarkostur (Kjarninn 08.11.17). Þetta er vissulega spádómur hjá mér, en velta má fyrir sér af hverju einkafyrirtæki sækir svo fast að fá að virkja þarna ef það telur sér ekki hagnaðarvon í því? Spádómur og hagnaðarvon vegast á, 0 stig.
Lokaniðurstaðan í þessari „rangfærslurannsókn“ minni á skrifum Þorbergs er því 4:0 mér í hag.
Höfundur er stjórnarmaður í Landvernd.