Í umræðum frambjóðenda fyrir sveitarstjórnarkosningarnar mátti oft heyra þá klisju að við þyrftum vitundarvakningu til þess að takast á við loftlagsröskunina. Staðhæfingar af slíku tagi virðast byggja á því að bara ef við skiljum hversu stórt vandamálið sé þá munum við hverfa frá villu okkar vegar.
Að kasta peningum í sjóinn
Niðurstöður í rannsóknum sýna að málið er ekki svona einfalt. Upplýsingarherferðir sem eiga að auka vitund okkar um vandamálin skila oftast litlum árangri. Þær breyta ekki hegðun okkar gagnvart umhverfinu svo nokkru nemi. Kynningarátök í loftslagsmálum geta skilað árangri að því gefnu að auðvelt sé að breyta hegðuninni og breytingunni fylgi margir kostir. Því miður er það svo að hegðun sem hefur neikvæð áhrif á umhverfið verður sjaldnast breytt án verulegrar fyrirhafnar. Þótt upplýsingaherferðir geti haft áhrif á þekkingu og viðhorf þá ná þær yfirleitt ekki til þeirra innri og ytri hvata sem stjórna hegðun okkar.
Loftlagsröskunin er svo risastór og alvarleg vá að nauðsynlegt er að grípa til sterkari aðgerða en þeirra sem í besta falli geta ýtt undir það sem okkur er þegar innan handar að breyta í hegðunarmynstri okkar. Ekki er endalaust hægt að halda áfram að berja hausnum við steininn og klifa á því að með aukinni þekkingu og vitundarvakningu þá sé hægt að leysa vandann.
Hvað er þá hægt að gera?
Góðu fréttirnar eru þessar: Þversumman af niðurstöðum 40 ára rannsókna í umhverfissálfræði er sú að það er hægt að breyta umhverfishegðun fólks. Rannsóknirnar sýna einnig að það skiptir máli hvernig farið er að. Það er mikilvægt að taka mið að samhenginu og skilja þær hindranir sem standa í vegi fyrir ábyrgri hegðun í loftslagsmálum. Eru þröskuldarnir sem þarf að yfirstíga fjárhagslegir eða félagslegir? Er um að ræða raunverulegar hindrandi aðstæður eða huglægar upplifanir. Til þess að fjarlæga hindranir verðum við að hafa skilning á því hverjar þær eru. Það er einnig nauðsynlegt að greina hvaða kostir og gallar fylgja hegðun sem veldur álagi á loftslag og umhverfi.
Fylgjum græna straumnum
Upplýsingar um hegðun annara getur haft mun meiri áhrif en upplýsingar um áhrif koltvísýrings á loftslagið þegar kemur að því að breyta hegðun. Í þeim tilfellum þar sem grænni hegðun fylgja fáir kostir fyrir einstaklinginn, en hún er engu að síður tiltöluleg auðveld í framkvæmd, er hægt að gera það sýnilegra hversu margir aðrir samt sem áður fylgja henni eftir. Dæmi úr rannsóknum sýna að þegar einstaklingar fengu að vita að nágrannar þeirra notuðu minna rafmagn en þeir sjálfir þá héldu þeir aftur að notkun sinni í auknum mæli. Þegar gestir á hótelherbergi fengu að vita að aðrir gestir endurnotuðu handklæðin sín þá voru þeir líklegri til að gera sjálfir hið sama. Þó að við viljum ekki alltaf viðurkenna það þá hneigjumst við flest til þess að hegða okkur eins og hinir.
Skuldbindum okkur við grænt
Stundum er viljinn fyrir hendi en við erum föst í gömlum vana. Þetta þekkja allir sem hafa einhvern tíma reynt að bæta mataræði sitt eða auka hreyfingu. Í þessum tilvikum er mikilvægt að setja sér skýr og skuldbindandi markmið til þess að ná árangri. Því áþreifanlegri og nákvæmari sem þau eru þeim mun betra. Líka er gott ef markmiðin eru gerð opinber um leið og maður nýtur góðs af vinum og vandamönnum til að hjálpa sér að fylgja þeim eftir. Gott og einfalt dæmi um svona skuldbindingar eru „kranamerktar“ stofnanir og fyrirtæki, sem hafa skuldbundið sig til að nota ekki plastglös eða plastflöskur hvort sem það er í daglegri vinnu, á fundum eða ráðstefnum.
Ýtum undir með aðgerðum
Í þeim tilfellum sem hegðunarbreyting er erfið viðureignar er höfuðskilyrðið að greiða götu fólks með því breyta aðstæðunum sem hegðunin á sér stað í. Svo tekin séu einföld dæmi úr rannsóknum: Þegar matardiskar í skólamötuneytum voru minnkaðir þá dró úr matarsóun. Þegar diskurinn er minni er nefnilega auðveldara að setja ekki of mikið á hann. Ef maður er enn svangur má alltaf fá sér meira! Þegar skólabörnum var gefinn matur fyrir frímínútur í staðinn fyrir eftir, þá dró einnig úr matarsóun því að börnin komu svöng inn eftir ærslin.
Það á að borga sig að velja grænt
Í vissum tilfellum fylgja hegðuninni fáir kostir og margar hindranir eru í vegi æskilegrar þróunar á henni. Þá er mikilvægt að breyta því með beinum hætti hvernig hvatar eru byggðir inn í ferli ákvarðana. Þegar umhverfisvænir valkostir eru dýrir, flóknir, leiðinlegir, óþægilegir og ógnvænlegir skilur það hver maður að þeir verða ekki fyrir valinu. Í þessum tilfellum er nauðsynlegt að gera umhverfisvæna hegðun eftirsóknarverða með því að skapa hvata. Þessi aðferð hefur meðal annars skilað árangri í Noregi þar sem skattaafsláttur við kaup á rafmagnsbílum stuðlaði að því að um þriðjungur nýrra bílakaupa eru kaup á rafmagnsbíl. Stjórnvöld geta líka latt til mengandi hegðunar með umhverfissköttum. Því meiri sem breytingin á hvötunum er þeim mun líklegri eru þeir til að skila árangri. Hér þarf til hugrekki, atorkusemi, eftirfylgni og fjármagn frá stjórnvöldum.
Pólitík og atvinnulíf greiði götu græns
Það að kalla sí og æ eftir vitundarvakningu og viðhorfsbreytingu er ekki bara ólíklegt til að skila árangri heldur leggur slík orðræða ábyrgðina á einstaklinginn. Hann á að breyta bæði hugsunum og gjörðum. En að halda að vandinn liggi fyrst og fremst í viðhorfum fólks tekur ekki mið að því í hvaða samhengi slæm umhverfishegðun á sér stað og hvaða valkostir eru raunverulega í boði. Ég tel að rannsóknir sýni að snúa þurfi dæminu við og kalla eftir því að stjórnvöld og framleiðendur vöru og þjónustu taki ábyrgðina á sig. Pólitíkin og atvinnulífið þurfa að skuldbinda sig við grænt, greiða götu græns og gera það raunverulega hagkvæmt að velja grænt.
Höfundur er doktorsnemi í félags- og umhverfissálfræði.
Heimild: Schultz, P.W. (2014). Strategies for promoting proenvironmental behavior: Lots of tools but few instructions. European Psychologist, 19, 107–117. DOI: 10.1027/1016-9040/a000163