1. Á hverjum degi er okkur sagt að ekki séu til nægir peningar til að mæta þeim grunnkröfum sem við gerum til sameiginlegra stoða eins og heilbrigðis- og menntakerfa. Ellilífeyrisþegar eru svívirtir á sömu forsemdu.
2. Á sama degi auðgast útvaldir aðilar stórkostlega á einkarétti til nýtinga á náttúruauðlindum sem ættu að tilheyra þjóðinni.
3. Baráttan um Ísland snýst um að breyta þessu, en það er auðvelt af afvegaleiða bæði þingmenn og kjósendur. Skyndilega erum við öll farin að rífast um rafrettur. Við verðum að staldra við og ná fókus. Eiga gæði landins að renna til fárra eða eigum við að skipta þeim með réttlátum hætti svo þau nýtist samfélaginu, þeim sem höllum fæti standa og komandi kynslóðum sem best?
4. Eigum við að tryggja rétt náttúrunnar eða horfa upp á hana eyðilagða í gullgrafaraæði ferðamennsku og stóriðju?
5. Við þurfum nýju stjórnarskrána því það er eini lagatextinn sem talar um „fullt verð“ fyrir afnot af aðlindum Íslands og rétt náttúrunnar og komandi kynslóða.
Á náttúru Íslands og auðlindir er hvergi minnst í núgildandi stjórnarskrá en sú nýja þegir ekki um þessu grundvallarmál. Hér að neðan fylgja tvær greinar nýju stjórnarskrárinnar sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 að skyldi lögð til grundvallar sem stjórnarskrá Íslands:
33. gr. Náttúra Íslands og umhverfi
Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.
Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.
Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.
Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.
34. gr. Náttúruauðlindir
Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.
Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.
Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.
Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
Ég skora á alla sem þetta lesa að beita sér í baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá og betra samfélagi á Íslandi.
Höfundur er formaður Stjórnarskrárfélagsins.