„no one leaves home until home is a sweaty voice in your ear
saying-
leave,
run away from me now
i dont know what i’ve become
but i know that anywhere
is safer than here.“
Brot úr ljóðinu Home eftir Warsan Shire
Einstaklingar bera ábyrgð á ákvörðunum sínum. Til dæmis berð þú ábyrgð á öllum þeim þjáningum sem Mohammad, Abbas og allt flóttafólk sem þú hefur neitað um vernd mun upplifa héðan af. Kannski ekki þú ein/n/tt en ábyrgð þín er jafnmikil fyrir því. Ef þau deyja í aðstæðum, sem þau hefðu ekki lent í hefðu þau hlotið vernd, þá berð þú ábyrgð á dauða þeirra. Þetta er svona einfalt.
Kannski segist þú einungis vera að framfylgja lögum, en sú afsökun hefur aldrei dugað til að losa fólk undan þeirri ábyrgð sem fylgir vali okkar og athöfnum. Vegna þess að tilvist okkar fylgir frelsi og frelsi fylgir ábyrgð. Þú ert til, þú ert frjáls og þú átt ekki annað val en að axla ábyrgð á sjálfum þér og því sem þú gerir.
Og þetta er það sem þú gerir:
Þú ert einn af þeim aðilum sem tekur ákvörðun um að senda börn og fullorðna í aðstæður þar sem þau þurfa raunverulega að óttast um líf sitt. Þú ert einn af þeim aðilum sem tekur ákvarðanir um líf annarra sem þú myndir aldrei taka um þitt eigið líf eða um líf þeirra sem þér þykir vænt um.
Þú ert enn ein hindrunin á leið fólks til öruggara lífs: þú ert vélbyssan í höndum landamæravarðarins,
þú ert gaddavírsgirðingin,
kylfan,
vegtálminn,
jarðsprengjan.
Þú ert lögreglumaðurinn sem lemur fólk sem hleypur yfir ósýnileg mörk með aleiguna á bakinu og litla hönd í lófa. Þú ert stoðdeildin sem rekur hjartaveikt barn og fjölskyldu út af heimili þeirra hér, í land þar sem þau eiga nær enga möguleika á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.
Þú ert enn einn fulltrúi ríkjanna sem hafa skotið sprengjum í garða fólksins sem þú neitar um vernd. Þú ert enn einn fulltrúi fyrrum nýlenduherra sem þóttust eiga rétt á að draga ósýnilegar línur á jörðina, línur markaðar af peningum og olíu. Þú ert enn ein manneskjan sem þykist búa yfir réttmætu valdi til að taka ákvarðanir um líf annarra.
Það neyðir þig enginn til að gegna þessu starfi, það neyðir þig enginn til að taka þessar ákvarðanir. Þú berð ábyrgð, því er ekki hægt að neita sama hvaða regluverk eða stofnanir þú reynir að fela þig á bakvið til að réttlæta störf þín.
Hættu að vera tölva, rifjaðu upp hvað það þýðir að vilja lifa, að gleðjast, að syrgja, að finna fyrir von, að vera úrkula vonar, að hræðast, að syrgja.
Ég vona að þig skorti ekki samkennd og ég vona að þú sért fær um að setja þig í spor annarra. Stundum hugsa ég til Páls Skúlasonar og velti því fyrir mér hvort þú hafir einfaldlega aldrei sest niður og hugsað yfirvegað um hvað það þýðir að vera frjáls og axla ábyrgð. Og ef þú hefur aldrei gert það þá er tími til kominn. Ef þú hefur gert það, svaraðu þá núna af einlægni og frá eigin hjarta, einföldustu spurningunni, sem jafnframt er sú mikilvægasta: hvers vegna mega þau ekki vera hér?
Svaraðu án þess að vitna í lög og vegabréf. Svaraðu líkt og þú stæðir augliti til auglitis við manneskju sem grátbiður þig um að fá að vera.
Þú hefur engu að tapa en allt að vinna.
Viðbót: 3. júní 2018 fór höfundur ásamt vinkonu heim til dómsmálaráðherra, forsetisráðherra, formanns Útlendingastofnunar og flestra þeirra sem sitja í núverandi Kærunefnd útlendingamála og afhenti þeim bréf þetta persónulega. Með því að fara á heimili fólksins, en ekki skila bréfinu á skrifstofur þeirra, vill höfundur leggja áherslu á valdaójafnvagið sem felst í því að þau taka afgerandi ákvarðanir um líf fólks á milli 9-16 á virkum dögum, en fólkið þarf að bera afleiðingar þessarra ákvarðana neyðast til að gera svi allan sólarhringinn, alla daga, allt sitt líf. Einnig vitum við flest að nær ómögulegt er að tala um siðfræði og ábyrgð inni á skrifstofum, þar sem tölvustýrt skrifræði ræður ríkjum (í bókstaflegri merkingu). Manneskjan sem mætir á skrifstofuna er ekki önnur og ótengd þeirri sem fer heim til sín á kvöldin. Hún er ekki önnur og ótengd þeirri manneskju sem neitar öðru fólki um heimili.