Það eru ekki allir svo lánsamir að geta sleppt því að fylgjast með fréttum, að standa ekki stuggur af gangi heimsmála og að fara frá degi til dags án þess að finnast pólitík koma sér við. Tilvera margra okkar er nefnilega hápólitísk og ákvarðanir stjórnmálamanna hafa drastísk áhrif á líf okkar og réttindi.
Þau sem fæddust í öðru landi velta vöngum yfir því hvenær komið er að þeim að vera send úr landi. Þau sem eru fötluð óttast í óvissu um hvort hægt verði að fá hjálpartæki og aðstoð. Þau sem búa við fátækt hafa áhyggjur af því hvort stjórnvöld taki upp enn fjandsamlegri stefnu gegn fátæku fólki. Þau sem upplifa kyn sitt annað en þeim var úthlutað við fæðingu velta því fyrir sér hvort áfram verði hægt að treysta á nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
Mörg okkar óttast uppgang haturs og ofbeldis og blóðugan niðurskurð stjórnvalda eins og gerst hefur í mörgum löndum í kringum okkur.
Þingmanni nokkrum finnst „réttlætisriddarar“, þau okkar sem berjast fyrir bættum heimi og auknum mannréttindum, vera meiri ógn við lýðræðið en Donald Trump forseti Bandaríkjanna. Maður sem rífur börn af foreldrum sínum vegna þess að þau eru „ólögleg“. Maður sem hefur stutt hópa sem ýta undir kynþáttafordóma, sem berjast gegn frelsi kvenna og hinsegin fólks. Maður sem skeytti því engu þó óeðlileg afskipti hafi verið höfð af kosningunum sem komu honum í embætti. Maður sem ítrekað hefur ráðist gegn frjálsri og faglegri fjölmiðlun.
Að telja okkur sem brýnum raust okkar vera ógn við lýðræðið getur bara verið afstaða þeirra sem njóta forréttinda í krafti efnahags síns, húðlitar, kynhneigðar og -gervis og líkamlegrar getu. Þetta eru forréttindi þeirra sem telja sig ekkert hafa að óttast. Við hin vitum að það er Donald Trump sem er ógn við lýðræðið og allir hans fylgismenn og skoðanabræður sem ýta undir hatur og ofbeldi.
Við höldum áfram að steita hnefann og krefjast þess að tilvera okkar, réttindi og þarfir séu teknar inn í myndina við alla ákvarðanatöku. Þó einhver kunni að uppnefna okkur og segja okkur ógn við lýðræðið þá höldum við áfram. Við höfum nefnilega ekki frelsi til að vera sama.
Höfundur er baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.