Orðið starfsgetumat hljómar ágætlega og stjórnvöld eru mjög spennt fyrir því. Það beinist að öryrkjum og markmiðið er að meta hversu mikið þeir geta starfað á vinnumarkaði. En starfsgetumat á Íslandi er úlfur í sauðagæru þegar farið ofan í saumana á málinu.
Og afhverju það! Í fyrsta lagi vegna þessa að íslenskur vinnumarkaður er langt frá því tilbúinn fyrir breytingu af þessu tagi og í öðru lagi vegna þess að fótunum verður kippt undan öryrkjanum ef hann veikist aftur og verður að vera frá vinnu, ef hann fær þá starf. Ef hann svo missir vinnuna þá bíður ekkert annað en atvinnuleysisbætur. Síðan verður hann að stóla á aðstoð sveitafélaganna ef hann fær ekki aftur vinnu eða getur ekki unnið vegna veikinda.
Það skal ekki gleymast að bætur öryrkjans skerðast við starfsgetumat. Ef öryrki er metinn þannig að hann geti verið í hálfu starfi þá skerðast bæturnar hans sem því nemur. Þá stendur hann uppi slippur og snauður ef hann fær svo ekki vinnu og eða missir hana síðan. Það getur tekið hann langan tíma að fá metna fulla örorku á ný. Á hverju á hann að lifa á meðan? Þá verður hann að leita á sveitina og éta það sem úti frýs.
Það velur enginn að verða veikur. Heilsan er það dýrmætasta sem maður á. Að fara á örorku er algjört neyðarúrræði fyrir þann sem veikist. Við tekur langt og strangt matsferli og það fer enginn á örorku án þess að fara í gegnum það mat. Hungurlúsin sem fólk þarf síðan að lifa af í formi örorkubóta er líka til skammar. Hver velur sér að lifa á örorkubótum? Ég þekki engan.
Sjúkdómar öryrkja eru að sjálfsögðu mismunandi. Fólk getur átt góða daga og vonda. Stundum geta öryrkjar átt marga góða daga, vikur, mánuði og jafnvel ár. Á svona góðum dögun fyllast öryrkjar von um að ná heilsu á ný og komast af örorku. Ef öryrki á fullum bótum fer í starfsgetumat á góðum degi, fullur bjartsýni, gæti hann t.d. verið metinn með 50 prósenta starfsgetu. Bætur hans skerðast sem því nemur eins og áður segir.
Hvað gerist næst? Öryrkinn fer að leita sér að vinnu. Vinnumarkaðurinn er óvæginn og engan veginn hannaður til að huga að þörfum öryrkja. Allt snýst um hagkvæmni og hagræðingu. Vinnuálag hefur verið að aukast mikið á undanförnum árum. Það er meðal annars þess vegna sem menn verða veikir. Þeir sem vinna láglaunastörf þurfa oft að vinna 2-3 vinnur til að komast af. Það er enginn miskunn. Menn er reknir sem ekki þykja standa sig og hafa engan rétt til að malda í móinn. Opinberir starfsmenn eru ögn betur settir í þessu efni en opinberar stofnanir hafa getað skautað fram hjá þeim rétti t.d. með því að vísa í skipulagsbreytingar.
Hver er staða öryrkjans í þessu umhverfi? Segjum að hann fái hálft starf og allt gangi vel þar til allt í einu hann veikist aftur, þannig að hann geti ekki unnið. Atvinnurekandanum er í sjálfsvald sett að reka hann. Það er svakalegt álag fyrir veikan mann. Og hvað tekur svo við? Jú gjörðu svo vel þú verður að fara á atvinnuleysisbætur. Enn bætist við álagið. Síðan blasir við að leita þurfi á náðir sveitafélaganna eins og fyrr segir. Hvernig á öryrkinn að komast af? Hann er búinn að missa helminginn af bótunum og allt þetta ferli hefur líklega afdrifaríkar afleiðingar á heilsu hans.
Það er ljóst að stjórnvöld vilja koma á starfsgetumati og hafa unnið að því leynt og ljóst lengi. Núverandi stjórnarandstaða virðist líka á þeirri skoðun og skilaði t.d. minnihluti í fjárlaganefnd nefndaráliti undirritað þann 5. júní síðastliðinn þar sem segir orðrétt: “Það er jákvætt að ráðast eigi í innleiðingu starfsgetumats og einföldun bótakerfis almannatrygginga.” Í nefndarálitinu fylgja engin rök fyrir því afhverju á að innleiða starfsgetumat. Aðeins þessi eina setning. Punktur. Og engin skilgreining á starfsgetumati. Það er nefnilega svo að fólk í stjórnkerfinu hampar hugtakinu án þess að vita nokkuð hvað í því felst. Þá hefur þetta kerfi reynst mjög illa í nágrannalöndunum og oft haft skelfilegar afleiðingar í för með sér. Samt ætla stjórnvöld að apa það eftir. Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar hefur þó gagnrýnt hugmyndir um starfsgetumat á Alþingi og sagst vera á móti því nema að vinnumarkaðurinn sé undir það búinn.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur skipað 9 manna samráðshóp um breytt framfærslukerfi almannatrygginga sem styður við starfsgetumat. Skila á fullbúnum tillögum þann 1. október næstkomandi.
Formaður samráðshópsins er Guðmundur Páll Jónsson, tilnefndur af Framsóknarflokki. Sú skipan lýsir svo vel hvernig stjórnkerfið vinnur. Guðmundur Páll var um langt árabil starfsmannastjóri hjá auðfyrirtækjum eins og HB Granda og Haraldi Böðvarssyni hf. á Akranesi. Hann hefur verið í stjórnum stofnana, bæjarstjóri á Akranesi og var árið 2006 skipaður aðstoðarmaður þáverandi félagsmálaráðherra sem að sjálfsögðu var framsóknarmaður. Af hverju er hann þarna? Hvaða innsýn hefur hann í raunveruleg kjör öryrkja, hvernig er að lifa af örorkubótum? Er líklegt að Guðmundur þurfi að fara í starfsgetumat? Farsælast hefði auðvita verið að skipa hérna formann sem hefur verulega innsýn inn í aðstæður öryrkja, upplifað á eigin skinni að vera öryrki og hefur kynnt sér starfsgetumat frá sjónarhóli öryrkjans.
Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er líka í þessum hópi? Það eina á hans ferilskrá sem tengja má við örorku stendur í næstneðstu línu á vef Alþingis eða að hann sé formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum. Það skal ekki gera lítið úr því en hann er í fullu starfi sem þingmaður og er í allslags nefndum og ráðum innan þings og utan og er því upptekinn við annað en hagsmunamál öryrkja. Vonandi þarf hann aldrei að fara í starfsgetumat.
Henný Hinz hagfræðingur ASÍ er skipuð af samtökum launafólks á vinnumarkaði. Hefði ekki verði eðlilegra að skipa þarna einhvern sem er í beinum tengslum við launafólk á vinnumarkaði, t.d. starfsmann hjá stéttarfélagi eða trúnaðarmann á vinnustað. Það stendur hvort sem er til að samráðshópurinn kalli til sín sérfræðinga og hefði Henný getað komið þannig inn.
Af níu meðlimum samstarfshópsins eru aðeins tveir sem hafa atvinnu af því að starfa fyrir öryrkja, eða þau Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands og Friðrik Sigurðsson verkefnastjóri hjá Landssamtökunum Þroskahjálp.
Hér er mjög alvarlegt og stórt hagsmunamál á ferðinni sem varðar afkomu gríðarlega margra öryrkja. Stjórnvöldum er ekki treystandi án þess að skaða lífsskilyrði öryrkja verulega.
Verkalýðsfélögin ættu tvímælalaust að taka málið að sér og berjast fyrir öryrkja, sem mjög oft verða öryrkjar vegna álags á vinnumarkaði, lágra launa, illra framkomu atvinnurekenda og réttleysis. Ef grant er skoðað hefur atvinnurekandinn allan rétt sín megin. Ég skora á verkalýðsfélögin að taka málið til sín og verja sína félagsmenn hvort sem þeir eru orðnir öryrkjar eða ekki. Eins og þetta liggur fyrir núna er starfsgetumat ekkert annað en helber mannvonska gagnvart fólki sem hefur hröklast af vinnumarkaði vegna veikinda.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og MA í atvinnulífsfræðum frá Háskóla Íslands.