Á síðustu dögum hafa tvö álfyrirtæki í Noregi gert stóra samninga um raforkukaup frá vindmyllugörðum. Þetta er til marks um hvernig lækkandi kostnaður í vindorkutækninni er að valda verulegum breytingum á raforkumörkuðum. Í þessari grein er fjallað um þessi umfangsmiklu vindorkuviðskipti stóriðju við norræna vindmyllugarða. Með þessum viðskiptum nær stóriðjan að tryggja betur samkeppnishæfni sína til framtíðar og festa þennan atvinnurekstur betur í sessi í þessu annars nokkuð dýra samkeppnisumhverfi Norðurlandanna. Þannig er norræn vindorka að hafa ýmis jákvæð áhrif, svo sem bæði að stækka raforkumarkaðinn og viðhalda hagvexti.
Frá skyndiviðskiptum til langtímasamninga
Aukningin á nýtingu vindorku í Evrópu og víðar hefur haft veruleg áhrif á raforkuverð og þróun raforkuviðskipta. Fyrir nokkrum árum byggðist viðskiptamódel slíkra verkefna einkum á því að selja alla raforkuna inn á frjálsan raforkumarkað, s.k. skyndimarkað, hvernig sem vindurinn blés. Þetta var mjög gott fyrirkomulag fyrir vindorkufyrirtæki meðan þau nutu opinberra reglna (ívilnana) sem tryggðu þeim forgang að slíkum raforkukauphöllum.
Nú er þróunin í viðskiptum vindorkufyrirtækja fremur sú að gera langtímasamninga svipað og við þekkjum í raforkusamningum íslensku stóriðjunnar. Þessi þróun er t.a.m. orðin áberandi í viðskiptum raforkufyrirtækja og stóriðju á hinum Norðurlöndunum (og víðar). Í dag eru sem sagt stóriðjufyrirtæki farin að kaupa rafmagn í stórum stíl frá vindorkufyrirtækjum í langtímasamningum. Þetta er til marks um það hversu vindorka er orðin ódýr og samkeppnishæf.
Vindmyllugarðar eru ódýrasta leiðin til meiri raforkuframleiðslu
Hvatinn að baki svona samningum er ekki bara sá að komast hjá hinu sveiflukennda markaðsverði á norræna raforkumarkaðnum. Hér skiptir ekki síður máli að kostnaður nýjustu vindmyllanna hefur lækkað svo mikið að nýir vindmyllugarðar geta boðið mikið magn raforku ódýrara en t.a.m. nýjar vatnsaflsvirkjanir. Fyrir vikið geta vindorkufyrirtæki nú boðið stórnotendum, líkt og álverum, hagkvæma samninga sem festa þennan gróna atvinnurekstur enn betur í sessi, t.a.m. í Noregi.
Jákvæð efnahagsleg áhrif vindmyllugarða
Þessi þróun er sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að fyrir nokkrum árum voru margir farnir að búast við því að umfang stóriðjunnar í Noregi myndi brátt minnka, vegna þess að orkufyrirtækin voru í auknum mæli farin að selja raforkuna inn á raforkumarkaði í nágrannalöndunum (svo sem um sæstrengi). Vindmyllur virtust fyrst og fremst vera nokkuð dýr orkuframleiðsla sem réttlætt var með lágu kolefnisspori. Nú eru vindmyllugarðarnir aftur á móti ekki bara að auka framboð grænnar orku, heldur orðnir svo hagkvæmir að með framleiðslu sinni styðja þeir beinlínis við atvinnulífið og hagvöxt. Enda nánast slæst nú stóriðjan í Noregi um að fá svona samninga við vindorkufyrirtæki.
Kaup Norsk Hydro á norrænni vindorku nálgast 3,4 TWst
Dæmi um slíka samninga milli norrænnar stóriðju og vindorkufyrirtækja eru nýlegir samningar álfyrirtækjanna Alcoa og Norsk Hydro í Noregi. Nýverið samdi Hydro um kaup á um 1.000 GWst frá fyrirhuguðum vindmyllugarði norska vindorkufyrirtækisins Fosen Vind, en Fosen Vind er að meirihluta í eigu norska ríkisfyrirtækisins Statkraft. Einnig samdi Hydro um kaup á 1.650 GWst frá vindmyllugarði sænska fyrirtækisins Svevind. Og rétt í þessu var svo Hydro að semja við franska orkufyrirtækið Engie um kaup á um 700 GWst frá fyrirhuguðum nýjum vindmyllugarði í sunnanverðu Noregi.
Samtals er Norsk Hydro því búið að semja um árleg kaup á hátt í 3.400 GWst af rafmagni frá vindmyllugörðum. Það magn nemur rúmlega þrefaldri raforkunotkun járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga, sem er fjórði stærsti raforkunotandi á Íslandi. Til samanburðar má líka nefna að þetta vindorkumagn Hydro samsvarar u.þ.b. allri raforkunotkun álversins í Straumsvík, en, Norsk Hydro er einmitt að kaupa þetta álver Rio Tinto ef ekkert óvænt kemur upp á.
Alcoa í Noregi nálgast 3 TWst
Álver Alcoa í Noregi eru líka byrjuð að nýta sér ódýra vindorku og er norski armur Alcoa þegar búinn að gera þrjá stóra samninga þar að lútandi. Þar er fyrst að nefna samning um kaup Alcoa á raforku frá nýjum vindmyllugarði Norsk Miljøkraft við Tromsø. Í öðru lagi er samningur um kaup Alcoa á raforku frá vindmyllugarði sænska vindorkufyrirtækisins Eulus Vind á Øyfjellet í Noregi. Og loks glænýr samningur Alcoa við Zephyr, sem er stærsta vindorkufyrirtækið í Noregi. Samtals hljóða þessir þrír samningar Alcoa í Noregi upp á hátt í þrjú þúsund GWst og allt eru þetta langtímasamningar; gilda á bilinu 15-20 ár.
Íslensk vindorka er framtíðin
Í dag hafa norsk stóriðjufyrirtæki sem sagt samið um langtímakaup á vindorku sem jafngildir meira en samanlagðri raforkunotkun álversins í Straumsvík og járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Vegna einangrunar íslenska raforkukerfisins er erfiðara að gera slíka samninga hér á landi; sveiflukennd vindorkan krefst aðgangs að varaafli. En þessi þróun á norska raforkumarkaðnum er skýr vísbending um að samkeppnishæfni vindorku er orðin svo sterk að það er farið að hafa mikil áhrif á raforkuviðskipti- og markaði. Og líklegt að íslensk vindorka muni í framtíðinni verða talsvert mikilvægur hluti orkumarkaðarins hér.
Höfundur vinnur að vindorkuverkefnum í samstarfi við evrópskt orkufyrirtæki.