Einu sinni var lítill drengur sem var lítill í hjartanu og smár. Freku karlarnir í kringum hann (með stór egó) mættu honum með yfirlæti og hroka sem lét honum líða eins og hann væri minni.
Svo fór litli maðurinn í skóla og sankaði að sér háskólagráðum og svo metorðum og naut veraldlegar velgengni sem steig honum mjög til höfuðs.
Ennfremur til að bregðast við minnimáttarkenndinni sem var að hluta til komin vegna yfirlætis annarra tók hann sjálfur að líta á sig stórmenni (og þar með stærri en einhverjir ónefndir) og varð sjálfur hinn mesti egóisti og ofurmenni. Þannig mætti kannski segja að yfirlæti og egóismi í einum geti ýtt undir yfirlæti og egóisma í öðrum.
Og metorðin fóðruðu stórmennskukenndina og lífið varð einn slagur í að vinna slagi við aðra, hafa betur og stefna „hærra“ sem steig honum ennþá meira til höfuðs. Í öllum asanum og slagsmálunum varð hann að tilfinningalausu vélmenni sem stýrðist nær eingöngu á eigin rökhugsun og kennisetningunni að láta ENGAN vaða yfir sig en varð í þessu ferli nær tifinningalaus og var óviss um hvað orðið tilfinningar þýddi í raun og veru.
Svo þegar hann var orðinn bæði forseti og forsætisráðherra þá hóf hann að fangelsa blaðamenn sem áttu til að gagnrýna hann og reka dómara sem voru honum ekki hliðhollir. Að lokum fór hann svo í stríð af því að það skildi ENGINN vaða yfir hann.
Kannski er best að líta á sig sem hvorki óæðri eða æðri en aðrir?