Samtökin CLF á Íslandi hafa fjármagnað starfsemi verkmenntaskóla rétt fyrir utan Kampala í Úganda frá árinu 2004 en samtökin hétu áður Alnæmisbörn. Í fyrstu var menntunin hugsuð fyrir stúlkur sem áttu erfitt uppdráttar í samfélaginu vegna alnæmisfaraldurs í Úganda. Starfsemin hefur síðan þá nýst breiðari hópi stúlkna sem standa höllum fæti í samfélaginu og hafa ekki haft tök á að klára hefðbundið nám vegna erfiðra aðstæðna, t.a.m. vegna foreldramissis, fátæktar eða annarra félagslegra erfiðleika. Þrátt fyrir að meginhlutverk verkmenntaskóla Candle Light Foundation (CLF) í Úganda sé að veita verkmenntun sem komi til með að skapa stúlkum aukin tækifæri á atvinnumöguleikum og sjálfstæðu lífi, gegnir menntunin einnig stærra hlutverki.
Nýlega var birt grein á heimasíðu samtakanna ABC á Íslandi þar sem fram kemur að í dag er ein af hverjum fjórum unglingsstúlkum í Vestur – og Mið – Afríku í hjónabandi. Í Úganda hafa 10% stúlkna undir 15 ára aldri gengið í hjónaband og 40% stúlkna undir 18 ára aldri. Foreldrar ungra stúlkna telja hjónaband oft á tíðum vera eina möguleikann fyrir dætur þeirra. Telja þeir stúlkurnar vera betur varðar fyrir kynferðisofbeldi og að fjárhagslegt öryggi þeirra sé meira þegar þær eru í hjónabandi. Upplifun ungra stúlkna af hjónabandi skarast hins vegar oft á við þessar ríkjandi hugmyndir foreldranna um aukið öryggi þeirra innan hjónabandsins. Þær upplifa oft á tíðum mikið ofbeldi sem kann að vera líkamlegt, andlegt og kynferðislegt.
Samtökin Girls Not Brides berjast gegn barnahjónaböndum og á heimasíðu samtakanna er þar fjallað um menntun sem einn af lykilþáttunum í því að sporna gegn barnahjónaböndum. Menntun er því ekki aðeins mikilvæg til þess að sporna gegn fátækt og auka sjálfstæði einstaklinga heldur er hún einnig afar mikilvæg til þess að draga út tíðni barnahjónabanda, en þegar talað er um barnahjónabönd er í langflestum tilfellum um að ræða hjónabönd milli stúlkna undir 18 ára aldri og eldri karlmanna.
Þegar ungar stúlkur hafa gengið í hjónaband er oftast ætlast til þess af þeim að þær hætti námi og helgi sig barneignum, heimilislífi og húsverkum. Þetta getur leitt til hringrásar fátæktar þar sem kynslóð eftir kynslóð stúlkna hafa ekki þau tæki og tól sem til þarf til að vinna sig upp úr fátækt og erfiðum aðstæðum. Að útvega stúlkum þekkingu og skapa þeim færni sem nýtist þeim í lífinu er eitt það helsta sem hægt er að gera til þess að draga úr líkum á því að þær giftist ungar. Með því að sýna fram á gildi menntunar má svo smám saman breyta þeim viðhorfum sem oft eru ríkjandi gagnvart menntun stúlkna.
Í verkmenntaskóla CLF fá stúlkurnar menntun í hannyrðum, tölvunotkun, matreiðslu og hárgreiðslu. Nýlega fengu stúlkurnar þar að auki námskeið um kynheilbrigði frá samtökunum WoMena. Stefnt er að því að allar stúlkur sem stunda nám við verkmenntaskólann komi til með fá slík námskeið í framtíðinni meðfram annarri kennslu, þar sem slík fræðsla er gríðarlega mikilvæg fyrir ungar konur.
Á laugardaginn fer fram Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka þar sem hlauparar á vegum CLF á Íslandi munu hlaupa til styrktar verkmenntaskóla CLF í Úganda. Öll framlög munu renna óskipt til starfsemi skólans þar sem samtökin eru rekin í sjálfboðastarfi. Framundan hjá samtökunum er að stuðla að aukinni sjálfbærni í rekstri skólans og koma á hænsnarækt og kertagerð auk þess sem frekari áhersla verður lögð á kennslu í handmennt. Þessi verkefni munu hafa mikið fræðslugildi fyrir stúlkurnar í verkmenntaskólanum auk þess sem þau munu skapa skólanum mikilvægar tekjur. Vörur sem stúlkurnar vinna hafa t.d. verið seldar á mörkuðum, bæði í Íslandi og Úganda, en þær verða jafnframt til sölu í gegnum heimasíðu CLF á Íslandi. Þar má t.d. nefna fjölnotapoka, svuntur, skartgripi, kerti o.fl.
Hér má heita á hlaupara CLF á Íslandi í Reykjavíkurmaraþoninu og um leið gefa stúlkum í Úganda aukin tækifæri til þess að lifa frjálsu og sjálfstæðu lífi.
Heimildir:
https://www.abc.is/33-000-barnahjonabond-a-dag/
https://www.girlsnotbrides.org/how-can-we-end-child-marriage/
Jensen, R. og Thornton, R. (2003). Early female marriage in the developing world. Gender and Development, 11(2).
Otoo-Oyortey, N. og Pobi, S. (2003). Early marriage and poverty: Exploring links and key policy issues. Gender and development, 11(2).