Flest höfum við hin síðari ár haft trú á að frjálslynt og opið lýðræði mundi festast í sessi og breiðast út um heimsbyggðina. Að gervilýðræði og ógnarstjórnir mundu undan síga. Samt gæti sagan kennt okkur að sókn í völd, græðgi og tilhneigingin til að skara eld að eigin kökum er býsna seig. Nú stendur mörgum beygur af tilraunum valdamannna til að gera lítið úr lýðræðinu, grafa undan því með því að sá falsfréttum, hagræða staðreyndum í þágu eigin orðræðu, einfalda umræðuna niður á slagorðaplan og afla sér fylgis með óheiðarlegum hætti. Gera lítið úr fjölmiðlum og persónum, koma taglhnýtingum sínum í óverðskuldaðar valdastöður og að kjötkötlum og hefta framgang annara skoðana og viðhorfa. Þetta eru lönd eins og Bandaríkin, Pólland, Ungverjaland, Rússland, Kína. Í öðrum löndum er fólk með svipaðar skoðanir og aðferðir lýðskrumsins áberandi, svo sem í Svíþjóð, Danmörku, Austurríki, Hollandi, Frakklandi. Partur af því er að ala á ótta, þar á meðal við það sem menn þekkja ekki eða aðeins með takmörkuðum hætti. Jafnvel hér á landi má verða var við skoðanasystkin slíkra manna. Siðmenningin, sem er áunnin afurð hugmynda um frelsi, jafnrétti, jöfnuð og bræðralag, er í þeirri stöðu að þurfa að verjast þegar hún ætti að vera í sókn.
Þá getur verið gott að hugleiða hvar og hvernig mannréttindi og mannleg reisn fór illa forgörðum fyrir ekki svo löngu síðan. Þegar siðmenning sem þróuð hafði verið gegnum nokkur hundruð ár var misnotuð og svo látin hverfa fyrir falshugmyndum um yfirburði sumra og rétt hins sterka, á kostnað þeirra sem illa eða ekki gátu varið sig. Þetta ræddi Christine Nöstlinger, þekktur austurrískur rithöfundur sem lést í lok júni sl.. Hún var þekktust sem barnabókahöfundur. Nokkrar bóka hennar hafa verið þýddar á íslensku. Á árinu 2015 var henni boðið að ávarpa fund til minningar um að 70 ár voru frá því að fangabúðakerfi nasistastjórnarinnar í Austurríki, sem kennt var við bæinn Mauthausen í norðurhluta landsins, höfðu verið yfirtekin af bandamönnum og þeir sem lifðu þar enn fengu frelsi sitt. Í erindi sínu í aðalsal austurríska þingsins aðvaraði þessi lífsreyndi og merki rithöfundur umheiminn við rasisma og kynþáttastefnu og við því að óttast aðkomufólk sem þá streymdi inn í Austurríki. Ræða hennar er þannig að tímanum til að lesa hana er vel varið, hvort sem menn óttast hið óþekkta, - stundum skiljanlega, - eða ekki.
Þegar fangabúðirnar Mauthausen voru reistar var ég nær tveggja ára að aldri, en þegar síðasta fólkið sem lifði af dvöl þar var frelsað af bandaríska hernum, var ég nær átta ára. Það mætti þannig ætla að í minningu minni væru þessar fangabúðir varla til staðar. Það er samt ekki svo.
Ég þekkti að vísu ekki orðið Mauthausen, en hinsvegar var orðið fangabúðir mér vel kunnugt (Konzentationslager, skammstafað KZ á þýzku, þýð.). Ótal sinnum heyrði ég skammstöfun þessa þegar amma mín skammaðist út í nazista við mjólkursölukonuna eða búðarmanninn á horninu. Þá var svarað í aðvörunartón annaðhvort „Ekki hætta höfðinu með svona tali“ eða „Þér gætuð lent í fangabúðum með því að tala svona“.
Og minningin er skýrt innprentuð í huga mér um það þegar frændi minn, „litli“ bróðir hennar mömmu, var í heimsókn. Hann stendur þarna, stór og herðabreiður, í SS-einkennisbúningi við hliðina á mömmu sem var lítil vexti og segir: „Ella, júðarnir fara allir upp gegnum reykháfinn!“, Og litla mamma mín verður dreyrrauð í andlitinu af reiði og rekur stóra litlabróður sinum kinnhest. Ég held það hafi verið eini löðrungurinn sem friðelskandi móðir mín nokkrun tíma veitti annari manneskju.
Hvað það þýddi að „fara upp gegnum reykháfinn“ var mér auðvitað ekki ljóst. Ég vissi bara að í því hlyti að felast einhver hræðileg vonska. Og frá þeim degi var líka á hreinu að Herra Fischl fór upp um reykháfinn. Herra Fischl hafði haft skósmíðaverkstæði í strætinu okkar, hafði smíðað nýjan skó ef annan vantaði, gerði nýja hæla og lengdi skósóla og tásvæðin, sem þá var ódýr lausn fyrir fátækar fjölskyldur og hratt vaxandi barnafætur.
Á árinu 1938, rétt eftir „innlimunina“ (þegar Austurríki var sameinað Þýskalandi, þýð.), sá mamma, sem var að ganga heim úr vinnunni, hrollvekjandi atburð: SA-menn höfðu dregið Herra Fischl út af vinnustofu sinni og þvinguðu hann til að skrúbba með tannbursta burt þrjár hvítar pílur sem andstæðingar nasistastjórnarinnar höfðu málað á stéttina. Úti á götunni stóð vörubíll með glottandi SA-mönnum á pallinum. Og allt í kringum Herra Fischl sem var á hnjánum við þetta, stóðu nágrannar og horfðu á með kátinu í fasinu. Mamma mín gekk með bankandi hjartslátt framhjá á gagnstæðu gangstéttinni. Seinna heyrði hún að Herra Fischl hefði loks verið fluttur á brott með vörubílnum.
Nokkrum dögum síðar yfirtók „arískur“ skósmiður vinnustofu og íbúð Herra Fischl. Og enginn minntist lengur á Herra Fischl. Nema mamma mín!. Hún sagði mér og systur minni aftur og aftur hvað hafði verið gert á hlut Herra Fischl. Hún gat ekki sætt sig við að hafa ekki sjálf gripið inn í atburðarásina og réttlætti sig sjálfa ætíð með þeirri skýringu að „hefði ég ekki haft ykkur börnin heima, þá hefði ég rokið yfir götuna og hefði rekið pakkið í burtu!“
Miðað við aldur minn á þessum tíma, þá verður maður að líta á mömmu sína sem stóra og sterka, eiginlega máttuga, ekki síst þegar pabbi hafði þá þegar verið lengi og langt í burtu með hernum í Rússlandi. Og að fullorðnir ljúgi stundum að sjálfum sér hafði ég enn ekki gert mér grein fyrir. Það var því sannfæring mín að mamma hefði bjargað Herra Fischl ef ég hefði ekki verið til. Og þar sem svarið við spurningu minni um hvert hefði nú eiginlega verið farið með Herra Fischl var bara stuttlegt „nú í fangabúðir“, þá trúði ég því að sjálf hefði ég átt einhvern þátt í dauða Herra Fischl.
Þessi fáránlega tilfinning um mína eigin sök hvarf ekki fyrr en ég gerði mér grein fyrir að mamma mín var hvorki sterk eða máttug, heldur var hún lítil og hefði reynst talsvert hjálparvana og ekki mátt sín mikils gagnvart „pakkinu“.
Að vera laus við sekt þýðir samt ekki það að vera ábyrgðarlaus! Margt fólk hefur reynt að standa undir ábyrgðinni og hafa sem samtíma vitni reynt að segja nýjum kynslóðum frá því til hvers kynþáttafordómar geta leitt, eða hafa tekið til máls með skýrum rómi þegar enn einu sinni var verið að sveigja almenning gegn þeim sem eru í minnihlutahópum.
Þeim hinum sömu andmælendum var svo sem ekki gert auðvelt að stíga fram. Mörgum fannst þetta einfaldlega óþægilegt. Andmælendur trufluðu mann í því að gleyma, við að halda því fram að maður hefði ekki haft hugmynd um hvað fram fór, við að kvarta yfir því hvað maður hefði sjálfur mátt þola og hverju maður tapaði í stríðinu. Ekki síst truflaði þetta sjálfsánægjuna yfir hinni „nýju byrjun“ eftir stríðið og ógnarstjórnina.
Í takt við þessa „nýju byrjun“ voru margar af ríkistjórnum okkar eftir aðra heimstyrjöldina ekki sérlega áfjáðar í að reyna að hafa upp á þeim sem höfðu unnið ódæði með nasistastjórninni. Þeir voru, - ef litið er kalt á málin, - einfaldlega alltof margir til þess að hægt væri að reka starfhæft ríkisbákn án starfskrafta þeirra. Hvaðan hefði átt að fá að loknu stríðinu nægilega marga kennara eða embættismenn án forsögu?
Tilraunir til að fá heim til Austurríkis gyðinga og and-fasista sem hafði tekist að flýja úr landi skiluðu líka litlum árangri. Og að velta vöngum yfir því hvernig hægt væri að fá fólk af sígauna-ætterni sem hafði lifað af, til að aðlagast betur, - það hafði alls enga þýðingu. Mín kynslóð og barna minna lifði því og óx úr grasi í landi þar sem kynþáttafordómar voru alls ekki tengdir við slæmar minningar, heldur voru þeir rétt eins og áður fyrr viðhorf mjög margra, hefðbundin hugsun í mörgum fjölskyldum.
Jákvæðar breytingar hafa þó fram til dagsins í dag ekki verið alltof miklar. Nú koma kynþáttafordómar bara fram undir öðrum kápufaldi. Hugtök eins og herraþjóð, úrhrök, erfðaskömm og lokalausn þorir enginn að nefna lengur og varla hugsa. Þetta er nokkuð sem ekki má segja.
Kynþáttafordómar nútímans hafna bara öllu sem er útlent, líta á eigin þjóð sem verandi í hættu vegna útlendinga sem vaða yfir heimamenn, grunar auk þess að verið sé að taka útlendinga fram yfir þjóðina sjálfa og þegar allt komi til alls „vilji þeir bara lifa á okkur, taka frá okkur það sem okkur tilheyrir“!
Þeir sem hugsa svona og tala svona meðal sinna skoðanabræðra og –systra, þeir eru auðvitað ekki að krota slagorð með kynþáttahatri á veggi, þeir velta ekki um koll legsteinum gyðinga, veita konum ekki aðkast ef þær eru með höfuðklút, lemja ekki fólk sem er dökkt á hörund og þetta er ekki fólkið sem kveikir í heimilum fyrir hælisleitendur. Þeir veita hins vegar þeim mönnum sem svoleiðis gera fullvissu um að slík fólskuverk séu unnin í þágu fleiri en þeirra sjálfra, heldur líka í þágu annars fólks. Þar er jarðvegurinn sem ofbeldið vex upp úr.
Fjöldi og samsetning minnihlutahópa sem maður í besta falli, hefur „eitthvað á móti“ og, í versta falli „lætur til skarar skríða gegn“, eru nú mun fleiri en áður. Við hefðbundnar ímyndir sem mátti hafna og snúast gegn koma nú til viðbótar hælisleitendur og flóttafólk, sama hvaðan það kemur, - farandfólk án tillits til þess hvort um er að ræða austurríska borgara eða ekki. Að ekki sé nú talað um fólk með annan húðlit en maður sjálfur.
Að vísu er nú til vörn gegn beinum fjandskap nasistatímans. Hún felst í orðinu „einsleitni“. Ég óttast að flestir landsmenn meini einsleitni þegar þeir krefjast meiri „aðlögunar“. Menn vilja ekki kynna sér það sem þeir ekki þekkja, heldur óska sér þess að þeir sem hingað hafa fluttst aðlagist og taki upp hérlenda og vanabundna lífshætti. Það verður þó sjaldnast að fullu. Þess vegna verða til vandamál við það að lifa við hlið fólks úr fjarlægum menningarheimum.
Að bíða eftir því að þessi vandamál minnki með tímanum með vaxandi umburðarlyndi hinna gamalgrónu sem fyrir voru og með síaukinni aðlögum þeirra sem fluttu hingað, var augsýnilega lengi megin lausnin fyrir marga af stjórnmálamönnum okkar. Oft hefur þetta viðhorf reyndar gefist vel, en að minnsta kosti jafnoft hefur sú ekki verið reyndin.
Það sem var látið undir höfuð leggjast verður nú að reyna að bæta fyrir, til dæmis með skylduviðvist í leikskólum og með heilsdagskóla, með leikskólakennurum sem í raun og veru hafa hlotið menntun til að kenna börnum, sem hafa þýsku ekki að móðurmáli, hið nýja mál svo vel að þegar þau koma í barna- og unglingaskóla hafi þau sömu málgetu og þar með nokkurnvegin sömu tækifæri til menntunar og aðrir. Aðeins með því móti er unnt að koma í veg fyrir að það myndist samhliða samfélög með töluverðum mun.
Með sama hætti er betri menntun eina nothæfa meðalið til að mýkja harðan skráp kynþáttafordóma í meirihlutasamfélaginu. Því sá sem ekkert veit, neyðist til að trúa öllu. Líka mestu firrum og skammarlegustu viðsnúningum staðreynda. Það er auðvitað spurning hvers vegna svo margir trúa heldur rasistum en þeim sem segja að friðsamleg tilvera hlið við hlið sé möguleiki, að ekki sé talað um sambúð.
Kannski er málið þetta: Yfir hinum velþekktu sjö frumulögum húðarinnar hefur mannskepnan sem áttunda lag það sem kalla mætti siðmenningarlagið. Maður fæðist ekki með það lag. Það byrjar að vaxa eftir fæðinguna. Þykkt eða þunnt lag, allt eftir því hvernig hugsað er um yfirborð húðarinnar og hvernig þetta lag er nært. Ef næringin er ekki góð verður lagið þunnt og rifnar auðveldlega. Það sem þá vellur fram úr rifunum gæti haft afleiðingar sem svo yrði sagt um í fyllingu tímans: „Auðvitað vildi enginn að þetta hefði gerst“!
Formáli og þýðing: Reynir Tómas Geirsson, fyrrverandi prófessor og yfirlæknir.