Fiskeldi er umdeild atvinnugrein og trauðla mun nokkurn tímann nást um hana fullkomin sátt. Það er hins vegar skylda stjórnmálamanna að forðast ekki umdeild mál, heldur reyna að vinna öll mál þannig að sem best verði um þau búið, óháð því hvort það skapar sjálfum þeim óvinsældir.
Ég hef þá sýn að eftir ákveðið langan tíma verðum við ekki lengur með netapoka nema í þeim sé geldur lax. Frjór lax sé í lokuðum kvíum eða uppi á landi.
Farið hefur verið um víðan völl í þessum greinum, enda er af nógu að taka. Þar sem málið er umdeilt, ákvað ég að setja fram sýn mína á hvernig mér fyndist best að búa um fiskeldið. Ýmislegt af því sem ég hef komið inn á er þegar fyrir hendi, annað má finna í frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um fiskeldi, en hér er einnig margt sem ekki er þar að finna.
Allt of lengi hefur umræðan verið í skotgröfum og of mörg talað eins og það sé annað hvort eða; annað hvort ströngustu umhverfiskröfur eða uppbygging. Ekki bæði. Það er ágætt að hafa í huga að Norðmenn hyggjast fimmfalda laxeldi sitt á næstu áratugum, eftir að hafa gert mun strangari kröfur til umhverfismála en áður var gert. Þetta snýst því ekki um að annað hvort verði gerðar auknar kröfur og ekkert verði af uppbyggingu, eða að slakað verði á kröfum og uppbygging leyfð, heldur að uppbyggingin verði öll eftir ströngustu kröfum. Þar eigum við ekki að hika við að standa fast í lappirnar, setja reglur um besta búnað, beita hagrænum hvötum en um leið að greinin greiði fyrir afnot af sameiginlegri auðlind.
Málamiðlanir þykja ekki mjög sexí, en lífið og hversdagurinn eru full af málamiðlunum, misstórum. Ég set þessa sýn mína fram með þá von í brjósti að kannski takist að ná meiri sátt um uppbyggingu fiskeldis. Hættan er nefnilega sú að ef málið verður keyrt áfram í ósátt, þá verði niðurstaðan á endanum ekki nógu góð. Að önnur hliðin, ef svo má að orði komast, verði ofan á og of lítið verði hugað að málefnalegum athugasemdum.
Það á að vera leiðarstef í fiskeldi á Íslandi að það verði eins umhverfisvænt og kostur er. Hvað sumt varðar tekur tíma að komast þangað, en það á að vera skýr stefna stjórnvalda að þangað skuli stefnt. Annað á að vera skýlaus krafa frá upphafi. Það er allra hagur. Fyrst og fremst umhverfis og náttúru, en einnig gefur það kost á vistvænni framleiðslu með hærra afurðaverði og lægri rekstrarkostnaði.
Lykilatriði:
Hér hefur varið farið um víðan völl og enn er af nógu að taka. Mál er þó að linni, en að lokum vil ég taka saman þá punkta sem ég tel nauðsynlegt að verði í löggjöf um fiskeldi.
Auðlindagjald
Sjálfsagt er að horfa til gjalds við útgáfu leyfa, en eðlilegt er einnig að greinin greiði auðlindagjald. Með þessu næst fram sanngjörn greiðsla fyrir nýtingu auðlindar á öll fyrirtæki, ekki bara þau sem fá leyfi eftir gildistöku laganna.
Umhverfismál og besta fáanleg tækni
Gera þarf kröfu um að allur búnaður sé umhverfisvænn og eftir bestu fáanlegu tækni. Það þýðir að við stefnum á að allt eldi á frjóum fiski fari fram í lokuðum kvíum. Það þarf að gefa fyrirtæki í rekstri tíma til að uppfæra búnað sinn.
Hagrænir hvatar
Veita fyrirtækjum afslátt af auðlindagjaldi/sérstökum tekjuskatti þegar þau:
- Skipta yfir í umhverfisvænni búnað
- Fara í lokað eldi
- Fari í landeldi
- Nýta ófrjóan fisk í eldi
- Merkja alla fiska þannig að hægt sé að rekja til þá ef sleppi
- Framleiðslan er laus við lús og um leið þau fyrirtæki sem nota sem minnst af lyfjum
Með þessu er hægt að hvetja fyrirtæki til umhverfisvænni framleiðslu. Það þarf bæði að setja ákveðinn tímapunkt um hvenær framleiðslan á að vera orðin eftir ströngustu umhverfiskröfum og einnig veita afslátt á meðan fyrirtækin laga sig að því.
Lögfesta vísindagrunninn
Mikilvægt er að vísindalegt mat Hafró verði lögfest, því fiskeldi verður að byggja á vísindalegum grunni. Hins vegar verður að ríkja meiri sátt um áhættumatið og sjálfsagt er að setjast yfir athugasemdir sem fram hafa komið við það.
Eftirlit
Það er mikilvægt að jafn umdeild atvinnugrein og fiskeldi, þar sem umhverfisleg áhætta er mikil ef allt fer á versta veg, lúti skilvirku og gagnsæju eftirliti á meðan verið er að byggja upp og þangað til meira jafnvægi fæst í greinina.
- Sérstakur sjóður vegna mögulegra sleppinga
Nýsköpunarleyfi
Að norskri fyrirmynd á að veita leyfi til nýsköpunar í fiskeldi, bæði hvað varðar nýja tækni og einnig þar sem koma á upp nýrri starfsemi. Það brúar bilið á milli rannsókna og starfsemi og má svo breyta í starfsleyfi á auðveldan máta. Þar er hægt að gera kröfur um umhverfisvæna framleiðslu og tækni, t.d. tilraunir með lokað eldi/landeldi.
Að lokum vil ég ítreka það sem ég hef áður komið inn á í þessum greinaflokki. Hér er gerð tilraun til að finna sáttagrundvöll um fiskeldi. Kannski misheppnast hún og þá verður svo að vera. Umræðan er hins vegar alltaf til góðs og málið of mikilvægt til að stjórnmálamenn geti leyft sér að forðast umræðuna þó hún sé oft og tíðum erfið.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.