Bráðum eru 100 ár síðan athafnamaðurinn Thor Jensen setti upp myndarlegt mjólkurbú á Korpúlfsstöðum. Starfsemin stóð frá 1929 til 1934 með um 300 kýr í fjósinu. Mjólkin var unnin á býlinu af stakri fagmennsku og dreift beint til viðskiptavina í Reykjavík á glerflöskum, það er „beint frá býli“ og sá meirihluta bæjarbúa fyrir mjólk.
Margir óttuðust afleiðingar þessa stórbúskapar í nágrenni þéttbýlis og 1934 stöðvaði Alþingi tilraunina með mjólkursölulögum og lögfesti þar með smáan fjölskyldubúskap um allt land.
Síðasta áratug hafa mjólkurbú verið að stækka og þeim að fækka með tilkomu mjaltaþjóna. Nokkur bú slaga nú orðið upp í Korpúlfsstaðabúið að stærð. Mjólkursölulögin gerðu ekki annað en tefja framþróunina um 100 ár eða svo.
En nú er komin ný ógn frá „ríkum útlendingum“. Þeir eru nefnilega „að kaupa upp heilu landshlutana“. Margir óttast að hefðbundinn búskapur leggist af á stórum landsvæðum og sumir heimta lög sem stöðva uppkaupin. Rökin eru vel þekkt. Tryggja þarf: fullveldi þjóðarinnar; auðlindirnar áfram í eigu þjóðarinnar; næga matvælaframleiðslu í landinu og; byggðafestu.
Norður Kórea hvað?
Breytinga er þörf
Á næstu áratugum mun mjólkurbúum halda áfram að fækka úr nú um 600 í trúlega um 200 með áframhaldandi mjaltaþjónavæðingu og vinnan verður fjölskylduvænni og nútímalegri.
Sauðfjárbúum þarf líka að fækka verulega. Þau eru nú um 2000, mest smábúskapur með annarri vinnu. Lambakjötsframleiðslan er um 35% umfram innanlandsþörf og mismunurinn seldur til útlanda á verðum sem ekki duga fyrir framleiðslukostnaði. Neysla lambakjöts á mann fer minnkandi og lausaganga búfjár veldur umhverfisskaða og slysahættu.
Í sjávarútvegi verða einnig miklar breytingar á næstu árum kenndar við fjórðu iðnbyltinguna og framleiðslustörfum mun fækka en störfum við tæknina fjölga eitthvað á móti.
Til matvælaöflunar þurfti um 90% af vinnuaflsins fyrir 100 árum, en nú framleiða um 10% mun meiri mat en þörf er á. Útlit er fyrir áframhaldandi fækkun næstu áratugi samhliða tæknivæðingu.
Hvað tekur þá við? Við þurfum virkilega að spá í það.
Nýsköpun á landsbyggðinni
Það sem tekur við eru auðvitað störf sem byggja á menntun, sköpun, vilja og kjarki til að gera það sem gera þarf.
Uppfært landbúnaðarkerfi þarf að styðja virka bændur óháð búgreinum og magni framleiðslu, að vissum skilyrðum uppfylltum. Fyrirmyndin í Evrópu kallast CAP, Sameiginlega landbúnaðarstefnan. Nýja stefnan nýtir markaðsöflin neytendum og bændum í hag og er umhverfisvæn en það hljóta að vera meginmarkmið endurskoðunar búvörusamninga sem nú unnið er að.
Svo undarlegt sem það nú er þá er matur eina varan sem er tolluð inn í landið! Niðurfelling matartollanna mun lækka verð kjöts, eggja og mjólkurvara um 35% eða svo. Lækkunin nemur um 100.000kr. á mann á ári eða 400.000kr. á fjögurra manna fjölskyldu. Hátt matvælaverð er stóralvarlegt fyrir fátækt barnafólk og tekjulága bótaþega. Svo hamlar það vexti ferðaþjónustunnar um land allt því ferðamenn eru líka neytendur. Í Evrópu er almennt opinn markaður með matvæli og verð mikið lægri en hér og svo hefur verið lengi.
Annað stórmál er lækkun vaxta með alþjóðlegum gjaldmiðli sem einnig mun koma landsbyggðinni vel.
Tökum vel á móti framtíðinni
Síðustu 100 ár sýna að þeir sem standa gegn þróuninni tapa. Opinn markaður með jarðir stuðlar að sanngjörnu verði. Gott verð nýtist seljendum í nýjum verkefnum og stuðlar að greiðari þróun atvinnulífs og mannlífs. Erlendir kaupendur færa með sér fleira en fjármagn. Þeir auðga mannlífið í einsleitu fámenninu, eins og dæmin sanna.
Verum hugrökk og tökum vel á móti framtíðinni.
Guðjón Sigurbjartsson, viðskiptafræðingur, í framboði til formanns Neytendasamtakanna, sem kosið verður til í október 2018. Að þessu sinni verður netkosning. Þeim sem hafa hug á að taka þátt í vali stjórnar og formanns er bent á að ganga í samtökin á ns.is og greiða þarf félagsgjöld vel í tíma fyrir Landsþingið.