Á síðustu þremur árum hefur LÍN – Lánasjóður íslenskra námsmanna höfðað fjölmörg dómsmál gegn lántakendum eða ábyrgðarmönnum námslána. Í svari við fyrirspurn minni til mennta- og menningarmálaráðuneytis um fjölda dómsmála LÍN kom fram að stofnunin höfðaði – 1.172 mál fyrir héraðsdómi og 15 fyrir hæstarétti – á síðustu þremur árum. Heildar lögfræðikostnaður LÍN fyrir sama tímabil telur rúmlega 150 milljónir og þá er ótalinn kostnaður þeirra sem LÍN hefur stefnt fyrir dómi.
LÍN starfar á grundvelli laga frá 1992. Í fyrstu grein þeirra laga segir: „Hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna er að tryggja þeim sem falla undir lög þessi tækifæri til náms án tillits til efnahags“. Í því felst að helsta hlutverk LÍN sé að tryggja tækifæri til náms óháð efnahag en því miður er staða námsmanna allt önnur. Búið er að bæta inn gríðarlega þyngjandi skerðingamörkum sem hindrar námsfólk til lágmarks tekjuöflunar.
Samkvæmt úthlutunarreglum LÍN skerðast námslán fyrsta námsárs umfram 2.790 þúsund um 45%. Ef t.d. ófaglærður leikskólastarfsmaður ákveður að hefja sig til náms mun lágmarksframfærsla frá LÍN skerðast verulega fyrsta námsárið. Þannig getur skerðing á námslánum vegna lágmarkslauna – numið um hálfri milljón á fyrsta námsári. Slík skerðing á framfærslu vegna lágmarkslauna er í raun ekkert nema hindrun á námstækifærum. En hverjir er líklegastir til að vinna með námi? Eðli málsins samkvæmt eru það þeir sem þurfa mest á því að halda. Draga má stórlega í efa að núverandi úthlutunarreglur LÍN standist þau lög sem stofnunin starfar á ef litið er til tækifæra til náms óháð efnahag.
Á meðan námi stendur eiga námsmenn svo ekki kost á því að bæta kjör sín sem neinu nemur. Þannig má námsmaður aðeins hafa um 930 þúsund í árstekjur á meðan námi stendur og skerðir LÍN framfærsluna um 45% af tekjum umfram þau mörk. Viðmiðið dugar minnihluta námsmanna með sumarvinnu og hvað þá þeim sem vilja vinna jól, páska eða aðra frídaga. Með tekjuskatti skerðast því laun umfram skerðingamörkin upp á tæp 82%. Námsmaður sem vinnur sér inn 100 þúsund í jólavinnu og fer yfir tekjumörk LÍN fær í sinn vasa rúmar 18 þúsund krónur. Við það svo bætast mögulega fleiri skerðingar t.d. vaxta/húsaleigubætur og svo barnabætur. Fyrir löngu er sannað að óhóflegar skerðingar launa ýta undir svarta atvinnustarfsemi og þar verður ríkið af verulegum fjármunum. Þá má geta þess að langt frá því allir námsmenn hafa tækifæri til búsetu í stúdentagörðum (með lægstu mögulegu leigukjörum) og geta því engan vegin haft tækifæri til náms óháð efnahag.
Undanfarin misseri hafa fjölmörg hagsmunasamtök námsmanna ítrekað óskað eftir endurskoðun á núverandi námslánakerfi. Í ljósi gríðarlegs fjölda dómsmála LÍN, óhóflegra skerðingarmarka og bið eftir húsnæði er þarft að breyta núverandi námslánakerfi. Þar er nærtækasta lausnin svokallað hvata- eða styrkjakerfi að norrænni fyrirmynd. Slík breyting hefur þann kost að geta betur stutt við nýja menntastefnu en núverandi námslánakerfi og tryggja möguleika til náms óháð efnahag. Í fjórðu iðnbyltingunni geta réttir hvatar til námsmanna einnig betur þjónað þörfum atvinnulífsins og sérstaklega í iðn- og tækninámi. Breytinga er þörf strax í vetur því grundvöllur laga um rétt til náms óháð efnahag með núverandi námslánakerfi er mölbrotinn.
Heimildir:
„Dómsmál hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna“
„Lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna“
Höfundur er varaþingmaður og formaður SIGRÚNAR – félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík.