„Mér líkar ekki lengur við þig,” eða „Þú talar oft hátt í síma,” eða „Þú ert ekki nógu smart klædd,” eða „Þú ert of áhugasamur,” eða „Þú ert ekki nógu hress,” eða „Þú ert alltof hress”, eða bara hvað sem er gefur atvinnurekanda leyfi til að segja starfsmanni upp störfum. Launafólk hefur engan rétt þegar kemur að uppsögnum.
Það er algerlega háð duttlungum atvinnurekenda eða yfirmanna hvenær og á hvaða forsendum starfsmanni er sagt upp. Ef yfirmaður mætir eitthvað önungur í vinnuna einn daginn og finnur hvöt hjá sér til að segja einhverjum upp, þá getur hann bara gert það og ef starfsmaðurinn spyr afhverju, þarf hann ekki að segja neitt nema „af því bara”.
Niðurbrotinn starfsmaður getur leitað til síns stéttarfélags eftir uppsögn og beðið um aðstoð en eina hjálpin sem stéttarfélögin geta veitt er að fara fram á að starfsmaðurinn fái frekari rök fyrir uppsögninni. En í sjálfu sér breytir það engu, vinnan er töpuð og farin og starfsmaðurinn atvinnulaus. Opinberir starfsmenn hafa ögn meiri rétt, því skylt er að veita þeim áminningu áður en til uppsagnar kemur en á undanförnum árum hefur alltof oft verið skautað framhjá þessu með ýmiskonar trixum eins og að vísa í skipulagsbreytingar eða til hagræðingarkröfu og niðurskurðar. Þá hefur það verið mjög mikið í tísku undanfarið hjá atvinnurekendum, bæði á hinum almenna og opinbera markaði, að hafa lögfræðing viðstaddan uppsögn og vísa síðan starfsmanninum út í beinu framhaldi svona eins og hann hafi framið lögbrot.
Yfirburðarstaða atvinnurekenda hvað varðar uppsagnar er samþykkt í þjóðfélaginu eins og náttúrulögmál. Það segir enginn neitt. Verkalýðshreyfingin hefur ekkert gert til að reyna að breyta þessu. Það er hægt að eyðileggja líf, afkomumöguleika og heilsu launafólks með því að segja eingöngu, „af því bara”. Þetta er auðvitað þyngra en tárum taki og í raun stórfurðulegt að verkalýðshreyfingin skuli samþykkja þetta.
Á vinnumarkaði eru atvinnurekendur annars vegar og launamenn hins vegar sem gera með sér samning um verkefni. Atvinnurekandi kemst ekkert ef hann fær ekki til liðs við sig starfsfólk. Hvers vegna í ósköpunum er það viðurkennt og samþykkt að annar aðilinn hafi fullan rétt á að valta yfir hinn, ráða hann og reka að vild. Hvað er að? Hvers vegna hafa stéttarfélög launafólks ekki barist fyrir því að þessu verði breytt með lögum? Vinnulöggjöfin er að mestu hundgömul. Til dæmis eru lögin um stéttarfélög og vinnudeilur síðan 1938. Þetta er með öllu óskiljanlegt.
Þau eru ófá skiptin sem launamenn koma hágrátandi inn á skrifstofur stéttarfélagana vegna þess að þeim hefur verið sagt upp. Stafsmenn búast við því að stéttarfélögin geti gert eitthvað til að hjálpa þeim þannig að uppsögnin verði dregin til baka. Auðvitað eru til einhver dæmi um það en almenna reglan er sú að stéttarfélögin hafa engar heimildir til að gera nokkurn skapaðan hlut. Vinnan er glötuð.
Það er sorglegt hvernig farið er með launafólk. Fólk sem hefur lagt sig fram um að vinna vel, mæta á réttum tíma, sýnt hollustu og jafnvel starfað hjá sama atvinnurekanda í tugi ára. Eitt „af því bara”, getur umturnað lífi þessa fólks. Fótunum er kippt undan því efnahagslega sem getur haft mjög skaðleg áhrif á afkomu fjölskyldunnar í heild, maka og börn. Oft leiðir þetta til alvarlegra veikinda og síðan örorku. Alls óvíst er að fólk fái aftur vinnu sérstakalega ekki þeir sem komnir eru að fimmtugu. Og þá einkum konur.
Þau örfáu réttindi sem launamenn hafa þegar kemur að uppsögnum eru til dæmis að ekki má segja upp trúnaðarmönnum á vinnustað. Þessi lög eru oft brotin af atvinnurekendum. Þá má ekki segja upp barnshafandi konum og konum í fæðingarorlofi nema gildar ástæður séu til þess. Því miður eru oft dæmi um að þessi lög séu brotin eða að konum sé sagt upp strax eftir fæðingarorlof. Þá má samkvæmt lögum ekki segja upp fólki sem ber einhverja fjölskylduábyrgð, t.d ef veik börn búa á heimilinu.
Uppsagnarfrestur er oftast 3 mánuðir en getur farið upp í 6 mánuði eftir 10 ára samfellt starf. Eins og fyrr segir hefur það verið vinsælt undanfarin ár að hafa lögfræðing viðstaddan uppsagnarviðtal og starfsmanni síðan hent út með skít og skömm í beinu framhaldi jafnvel eftir áratuga starf. Fyrirtækinu eða stofnuninni ber þó að borga uppsagnarfrestinn. Og það er allt og sumt! Ef atvinnurekendur standa ekki við að borga lögboðinn uppsagnarfrest geta stéttarfélögin stótt það fyrir starfsmanninn.
Að sjálfsögðu geta verið góðar og gildar ástæður fyrir uppsögnum. En málið er að atvinnurekandinn hefur allan rétt sín megin til að meta það. Valdið er alfarið hans. Starfsmaðurinn situr uppi með niðurlæginguna og fær ekki rönd við reist. Verkalýðshreyfingin þarf að vakna og beita sér fyrir því að lögum og reglum um uppsagnir verði breytt og afstýra þar með þessari stöðugu og samfelldu kúgun á launafólki.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og með MA próf í atvinnulífsfræðum frá Háskóla Íslands