Um nokkurt skeið hefur samanburður á alþjóðlegum vörum eins og iPhone-símum (yfir milljarður slíkra síma er í umferð í heiminum) sýnt að verð á vörum og þjónustu á Íslandi er grunsamlega hátt. Þar beinist kastljósið að gengi krónunnar gagnvart alþjóðlegum myntum.
Munurinn á verðinu sýnir að á Íslandi er 30 til 40 prósent hærra verð heldur en algengt er í Bandaríkjunum og Evrópu. Þetta bitnar síðan beint og milliliðalaust á allri alþjóðlegri starfsemi þar sem aðeins einn landamæralaus markaður er fyrir hendi.
Krónan eins og korktappi í ólgusjó
Á honum er ekki spurt um krónur og aura, heldur evrur og Bandaríkjadali. Tilraunin íslenska um að halda út eigin mynt og peningamálakerfi, á einangruðum 200 þúsund manna vinnumarkaði, þekkist hvergi í veröldinni.
Spurningar um skynsemi þess verða sífellt stærri, ekki síst eftir að gjaldeyrisáhættan hefur magnast upp enn meira með uppgangi ferðaþjónustunnar á undanförnum árum og síðan sífellt meira alþjóðavæddum heimi viðskipta.
Stjórnmálamönnum og Seðlabankanum hefur eflaust liðið vel í haftaveröldinni, þegar krónan styrktist hratt, en það kemur að skuldadögum, eins og dæmin sanna.
Vantraustið gagnvart krónunni birtist með alls konar hætti erlendis. Einn lesandi Kjarnans sendi þessa sögu á dögunum: „Við fjölskyldan dvöldum í Portúgal í sumar og fengum son okkar og fjölskyldu frá Noregi í heimsókn. Þau keyptu evrur í Noregi á 9,7 NKR. Í hraðbanka í Portúgal greiddu þau 9,8 NKR. fyrir hverja evru. Þegar þau greiddu með kreditkorti þá kostaði evran fra 9,73 til 9,79 NKR. Semsagt með góðum vilja má segja að gengið hafi flökt um 1% á þessum tíma. Hjá okkur sem komu frá Íslandi, þá er staðreyndin þessi. Við keyptum € á 125,65 ISK. Í hraðbanka kostaði € frá 137,27 ISK til 142,40 ISK hver €. Þegar við greiddum með kreditkort var gengið frá 125,01 ISK til 127,96 ISK hver €. Munurinn að kaupa € í hraðbanka er því allt að 13,6% dýrara. Vil vara við að kaupa € fyrir ISK í hraðbanka. Þetta er auðvita ekki bara grín, þetta er mjög alvarlegt mál.“
Svo mörg voru þau orð.
Það kann að vera að gengissveiflur krónunnar séu í miklu uppáhaldi hjá valdamönnum, en til framtíðar litið getur varla verið eftirsóknarvert að búa við þetta. Vonandi mun unga kynslóðin í landinu breyta þessu þegar valdaþræðirnar fara að færast meira þangað.
Veikist vegna óvissu
Á fjórum mánuðum hefur verðið á evrunni hækkað úr 120 krónum í 131 krónu og verðið á Bandaríkjadal úr 99 krónum í 113,5 krónur.
Seðlabankinn greip með afgerandi hætti inn í gjaldeyrismarkað í dag þegar gengi krónunnar féll hratt.
Titringur er nú á mörkuðum vegna þess að tíðindi hafa ekki borist enn af því að WOW Air hafi tryggt sér 50 til 100 milljónir evra til að styrkja fjárhaginn og styðja við frekari vöxt, meðal annars þegar kemur að flugi milli Evrópu og Asíu. Eins og fram hefur komið er tíðinda að vænta af þessu, og of snemmt að segja til um hvernig málalyktir verða.
Greinilegt er að einhverjir fjárfestar hafa áhyggjur af því að þetta muni ekki ganga vel, og þess vegna hefur hlutabréfaverð Icelandair, stærsta samkeppnisaðilans, hækkað í dag og krónan gefið eftir.
Vantar upplýsingar
Hvernig sem þessi staða mun teiknast upp, á næstu dögum, þá er augljóst mál að yfirvöld hafa sofið á verðinum hvað einn þátt varðar. Hann snýr að nauðsyn þess að skapa umgjörð á markaði þar sem gagnsæi er meginregla. Það er alltaf best að hafa sem mest af upplýsingum opinberar svo að ákvarðanataka - bæði hjá hinu opinbera og hjá fyrirtækjum, fjárfestum og öðrum á markaði - sé tekin á sem áreiðanlegustum forsendum.
Ótrúlegt er að hugsa til þess núna, að engar ítarlegar upplýsingar um starfsemi WOW Air hafi birst opinberlega mánuðum saman (fram að birtingu Pareto á fjárfestakynningunni), í ljósi kerfislægs mikilvægis fyrirtækisins fyrir íslenska hagkerfið. Ástæðan fyrir því er samt einföld. Yfirvöld hafa ekki gert kröfur um að gagnsæi ríki á þessum markaði. Samgöngustofa, sem gefur út flugrekstrarleyfi og á að hafa eftirlit með fluggeiranum, hefur ekki gert þessar kröfur. Þess vegna hefur þetta fengið að vera svona. Besta aðhaldið og eftirlitið er samt fólgið í þessu, að skylda opinbera upplýsingagjöf.
Framvegis hljóta að verða breytingar á þessu, svo að það liggi fyrir hvernig mál eru að þróast, bæði þegar vel gengur og líka þegar þrengir að. Það á ekki að vera einkamál fárra heldur varðar þetta allan almenning sem býr við gengisáhættuna alla daga.