Í ár fagnar Staðlaráð Íslands því að 15 ár eru liðin frá því ráðinu var fengið hlutverk með lögum nr. 36/2003. Staðlastarf á Íslandi er hins vegar talsvert eldra. Þeir stjórnendur fyrirtækja sem notað hafa staðla til að bæta afkomu og umhverfisvernd, tryggja öryggi og gæði og bæta aðgengi að mörkuðum þekkja ávinning af notkun staðla. En hver er þessi ávinningur?
Ný rannsókn meðal 1200 fyrirtækja á Norðurlöndunum leiðir í ljós að á 38 ára tímabili hefur staðlanotkun stuðlað að 39% framleiðniaukningu og 28% aukningu á landsframleiðslu. Landsframleiðsla á Íslandi á síðasta ári nam 2,555 milljörðum. Stjórnendur fyrirtækja taka einnig þátt í mikilvægu starfi á vegum staðlasamtaka til að auka aðgengi að mörkuðum, auka gæði vöru og þjónustu og auðvelda áhættustjórnun svo eitthvað sé nefnt.
Á Íslandi eru í gildi um 28.000 staðlar. Hver og einn aðgengilegur í vefverslun Staðlaráðs. Flestir eiga rætur að rekja til Evrópu en hérlendis skrifum við líka staðla um jafnlaunakerfi, byggingarstig húsa, samningsskilmála um hönnun og ráðgjöf og staðlaskjöl af öðru tagi sem segja til um grunngerðir rafrænna viðskipta, traustþjónustu og innviði og tengistaði rafbíla svo eitthvað sé nefnt.
Daglegt brauð
Staðlar eru ekki „boð að ofan“ heldur sameiginleg niðurstaða sérfræðinga hlutaðeigandi haghafa sem ákveða í sameiningu hvernig ýmis kerfi eiga að tala saman, hvernig við tryggjum upplýsingaöryggi og persónuvernd o.s.frv. Staðlar eru líka alla jafna valfrjálsir en verða viðmið í tilteknum atvinnugreinum vegna þess að haghafarnir sammælast um þau. Það er fáránlega mikilvægt að staðla grunngerðir kerfa til að tryggja fjölbreytni og nýsköpun þeirra sem nota eiga kerfin. Það er engin tilviljun hvað það er auðvelt að smíða öpp í farsíma og tölvur.
Staðlar eru mjög mikilvægir þegar kemur að neytendavernd. Vísað er til þeirra í ýmsum íslenskum reglum og lögum s.s. í byggingarreglugerð, reglugerðum á sviði vinnuverndar og öryggismála og varðandi öryggi leikfanga. Þeir eru því ekkert alltaf bara eitthvað sem er gott að hafa. Þeir gegna mikilvægu hlutverki í daglegu lífi okkar. Það er t.d. engin tilviljun að kreditkort virka í bankakerfum alls staðar í heiminum. Það er heldur engin tilviljun að nú eru hleðslutæki flestra síma orðin stöðluð og að metrinn er alls staðar jafnlangur. CE merkingar ýmissa vara er líka mjög mikilvæg neytendavernd. Þeir sem vilja setja á markað ýmis konar vörur í Evrópu verða að merkja þær með CE merki og þar með lýsa því yfir að þeir uppfylli kröfur sem taka mið af stöðlum. Staðlanotkun léttir okkur því lífið á hverjum einasta degi. Oftast án þess að við tökum eftir því.
En staðla má líka nota til að breyta heilum samfélögum, til hins betra fyrir íbúana. Það má varða leiðina að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með stöðlum sem þegar eru til, eru viðurkenndir og þekktir. Það má líka byggja flesta ef ekki alla innviði snjallsamfélaga með leiðbeiningum úr stöðlum sem þegar eru til, eru viðurkenndir og þekktir. Glænýr staðall, ISO 37120 um árangursmælingar sveitarfélaga er gott dæmi um það.
Stærð skiptir ekki máli
Þeir sem halda að staðlar séu bara fyrir orkuveitur og verkfræðistofur hafa líka rangt fyrir sér. Staðlar henta vel litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem taka hlutverk sitt alvarlega og vilja bæta reksturinn með einhverjum hætti. Hvort sem málið varðar lyftuvíra, logsuðutæki, gúmmíhanska eða gæðakerfi þá er eiginlega ekkert sem okkur er óviðkomandi. Við eigum m.a.s. staðla sem auðvelda fyrirtækjum að gera verðmæti úr kvörtunum viðskiptavina, um stjórnkerfi gegn mútugreiðslum og samfélagslega ábyrgð. Staðlanotkun ætti að vera hluti af framtíðarstrategíu stjórnenda allra fyrirtækja sem taka rekstur sinn alvarlega og vilja bæta afköst, gæði, öryggi og afkomu.
Höfundur er framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands.