Munurinn á að verða fyrir áfalli tvítugur að aldri eða fimmtugur er að tvítugur verður maður sennilega frekar reiður en fimmtugur meira sorgmæddur. Ástæðan fyrir því er sú að þegar manneskjan er orðin fimmtug hefur hún yfirleitt náð þeim þroska að sjá að lífið skuldar henni ekki neitt. Þegar við erum ung finnst okkur einhvern veginn líf og heilsa nokkuð sjálfsögð réttindi, þið vitið, þessi unggæðingslega ódauðleikatilfinning sem er auðvitað eðlileg á ákveðnum aldrei og raunar hvati þess að maður upplifi, reki sig á og læri af lífinu. Síðan líður tíminn og við förum að sjá að það er ekkert sjálfsagt að halda góðri heilsu eða yfirhöfuð bara að vera til, þeirri uppgötvun getur reyndar stundum fylgt ákveðin krísa sem er nefnd miðaldurskrísa og birtist þannig að fólk telur sig annað hvort vera að missa af einhverju eða hafi jafnvel sóað fyrri hálfleik í tóma vitleysu. En það er önnur saga.
Ég minnist þess hvað faðir minn sálugi sótti mikið í að umgangast sér mun eldra fólk. Framan af hafði ég talið það stafa af óbilandi áhuga hans á þjóðlegum fróðleik, gömlum kvæðum og fornum siðum en eftir því sem ég sjálf eldist og grána hallast ég frekar að því að hann hafi laðast að æðruleysi hins lífsreynda manns. Pabbi var nefnilega oft ferlega kvíðinn eins og ég sjálf en tjáði sig þó töluvert minna um það, muninn má nú sennilega rekja til þess að hann var fæddur árið 1935 en ég árið 1978.
Andstæða kvíðans er æðruleysi um leið og æðruleysið er meðal sem gagnast í glímunni við kvíðann, það er ekkert verra og vitlausara en að hafa tvær kvíðnar manneskjur saman í aðstæðum þar sem þær geta magnað órökréttar hugsanir og kvíða upp hjá hvor annarri. Þess vegna þekki ég það sjálf að upplifa oft einstaka slökun í nálægð við aldrað fólk sem hefur þroskast ríkulega á lífsgöngunni og tekst þannig að afrugla mann í tilætlunarseminni gagnvart lífinu. Stundum skil ég ekki alveg hvað Guð var að hugsa með að láta okkur fæðast svona ung og vera síðan orðin passlega fær um að lifa í æðruleysi þegar veislunni er um það bil að ljúka.
Þetta er reyndar svipuð pæling og fólst í spurningu þjónanna við brúðkaupið í Kana þegar Jesús breytti vatni í vín sem reyndist síðan miklu betra vín en það sem borið hafði verið fram í upphafi veislunnar. Sú saga kennir okkur reyndar það að blessun Guðs kemur ekki eftir okkar pöntun heldur hans ráðstöfun því Guð veit hvað okkur er fyrir bestu. Þess vegna ætla ég ekkert að fara að rökræða þetta við hann um æviskeiðin, þau hafa greinilega öll sinn tilgang og uppröðun þeirra líka. Það væri reyndar mjög skrýtið ef uppröðunin væri önnur og maður fæddist til dæmis bólugrafinn unglingur með stórt nef og buxurnar á hælunum, ég er ekki viss um að foreldrar væru eins þolinmóðir gagnvart því að vakna til gargandi unglings um miðja nótt og gefa honum að borða svo aðrir í húsinu myndu ekki vakna.
Það er einhver djúp hugsun á bak við það að láta okkur fæðast krúttleg og ilmandi en um leið svo skelfilega ósjálfbjarga. Þá hlýtur líka að vera einhver svakaleg pæling á bak við það að hafa okkur yfirveguð og æðrulaus þegar hallar af degi og ellin tekur við. Guð er kannski með ADHD, hver veit, en hann lætur það samt ekki stjórna gjörðum sínum, svo mikið er víst. Lífið á að vera eins og það er uppbyggt, með æsku, ungdómsárum, manndómsárum, miðjum aldri og elli, akkúrat í þessari röð. Það sem okkur síðan skortir er ekki af Guðs völdum heldur okkar og þess vegna finnst okkur lífið oft svo erfitt, við mennirnir höfum tilhneigingu til að skapa skort, hvort sem er með hugsun eða gjörðum og þess vegna er þjáningin auðvitað endalaus hér í heimi sökum fátæktar, ofbeldis og óréttlætis ýmis konar eins og við vitum og þekkjum.
En svo sköpum við líka hvert og eitt okkar eigin persónulega skort með því til dæmis að gleyma okkur í vinnu, á samfélagsmiðlum eða í lífsgæðakapphlaupinu meðan við gætum svo vel verið að rækta raunveruleg tengsl við annað fólk á öllum aldri. Þegar pabbi minn var orðin mjög veikur og illa haldinn af heilabilun og kominn inn á stofnun fórum við stundum með honum inn í svokallað minningarherbergi en það var lítið herbergi á Landakotsspítala sem var eins og smækkuð mynd innan úr íslenskum torfbæ, þar var gamall askur og spónn og skilvinda og strokkur og ýmis gömul verkfæri sem að fólk notaði í samfélagi hvert við annað, svo voru þar gamlar myndir og bækur sem ætlað var að hafa róandi áhrif á þá kynslóð sem hafði alist upp í þessu umhverfi en var nú horfin bak við gler gleymskunnar.
Og þá mundi ég einmitt eftir því hvað pabbi hafði oft talað um gömlu húsfreyjuna á Hlíðarenda í Bárðardal þar sem hann var drengur í sveit. Húsfreyjan hét Ólína og pabbi sat oft á búrkistunni hjá henni, dinglaði löppunum og lærði að stoppa í sokka með sínum bústnu fingrum á meðan hún spjallaði við hann og kenndi honum kvæði og alltaf þegar hann talaði um frú Ólínu færðist yfir hann einhver ólýsanlegur friður og hamingja.
Þess vegna sagði ég yfirleitt það sama við hann þegar við fórum inn í minningarherbergið á Landakoti, sömu setninguna sem ég var búin að uppgötva að jafnaðist á við heilt spjald af sobril; „Pabbi þú varst nú mörg sumur í sveit á Hlíðarenda í Bárðadal, þar lærðir þú að stoppa í sokka hjá frú Ólínu“ og þótt viðbrögð hafi kannski orðið minni og minni við hverja heimsókn merkti ég samt sem áður frið yfir ásjónu hans, bara við það eitt að nefna Hlíðarenda, Bárðardal og frú Ólínu.
Hann hafði verið lítill drengur í sveit hjá vandalausum þar sem gömul kona sýndi honum áhuga og nærgætni af því að hann var óvenjulegur drengur, kotroskinn, örgeðja en viðkvæmur en hún gömul og æðrulaus og vitur og þegar hann var svo orðinn heilabilaður, búinn að þjóna sem prestur og vígslubiskup innan íslensku þjóðkirkjunnar í marga áratugi þá var það nafn þessarar konu sem sefaði óróann í brjósti hans.
Ekki veit ég hvernig minningarherbergi minnar kynslóðar verður inn á Landakoti þegar fram líða stundir en það er ljóst að þar verður ekki gamall askur, skilvinda eða strokkur. Ég vona samt að það verði eitthvað annað en tölvur og snap chat, kannski brúni apinn sem fæst í fínum hönnunarverslunum og kostar svaka mikið en er samt bara eins og þroskaleikfang úr IKEA á að líta eða hvítmáluðu tréstafirnir sem hægt er að raða upp í glugga og skrifa LOVE eða FAMILY svona til að minna okkur á að það eitthvað til sem heitir tengsl og þarf að rækta svo við verðum ekki of kvíðinn og hrædd við að deyja.
Ég held sumsé að partur af kvíða okkar og streitu sé fólginn í þessum skorti á víðfeðma samskiptum. Það er ekki nóg að börn séu bara í samtali við önnur börn og unglingar bogri yfir skilaboðum annarra unglinga og gamalt fólk horfi framan í annað gamalt fólk yfir mánudags ýsunni á Grund. Og það er heldur ekki nóg að við sem erum miðaldra og höldum uppi tjaldsúlum samfélagsins, sem stendur séum bara að tala hvert við annað. Þá gerist það nefnilega að okkur fer að skorta tengsl við fortíðina og framtíðina sem er bara allt annar hlutur en að lifa einhverri núvitund, vissulega er það dagurinn í dag sem skiptir máli en hann skiptir samt ekki meira máli en arfur eldri kynslóða, lífsreynsla þeirra og æðruleysi nú eða þá hugmyndir, draumar og væntingar barnanna okkar. Við höfum gnægð tækifæra allt í kringum okkur, það er enginn skortur á manneskjum, verum í víðfeðma samskiptum.