Lengi hefur verið uppi hávært ákall meðal þeirra sem sinna margskonar þjónustu við innflytjendur hér á landi að það vanti samræmda og aðgegnilega þjónustu sem veitt er á einum stað. Vinstri græn hafa verið hjartanlega sammála því ákalli og leggja áherslu á að boðið verði upp á heildstæða þjónustu sem veitt er með mannúð að leiðarljósi.
Þeir sem setjast hér að koma úr öllum áttum og ástæður þess að þeir setjast hér að eru fjölbreyttar. Ekki er hægt að líta á innflytjendur sem einsleitan hóp. Þarfir, óskir og draumar þeirra eru margvíslegir og fjölbreyttir. Þetta verður ávallt að hafa í huga þegar þjónustan er skipulögð.
Staðreyndirnar tala sínu máli. Innflytjendur verða fyrir margskonar mismunum í samfélaginu t.d á vinnumarkaði. Þeir sem hafa nýlega sest hér að vita ekki hver réttindi þeirra eru, hvaða þjónusta stendur til boða eða hvert er hægt að sækja hana.
Samvinna ríkis og sveitarfélaga – lykilinn að betri þjónustu
Í vor samþykkti borgarstjórn fyrstu heildstæðu stefnu í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Stefnan var unnin undir forystu Vinstri grænna og er ég stolt af niðurstöðunni. Fjölmargar aðgerðir snéru að samvinnu ríkis og sveitarfélaga í málaflokknum. En slík samvinna er lykilinn að því að veita betri og heilstæðari þjónustu.
Ein mikilvæg forgangsaðgerð snýr að því að opnuð verði upplýsingamiðstöð fyrir innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Í ljósi þessa ber að fagna framkominni þingsályktunartillögu um að sett verði á fót Ráðgjafarstofa innflytjenda sem byggir á samvinnu ólíkra ráðuneyta sem koma að málaflokknum og sveitarfélaga. Slík miðstöð þarf að veita sértæka ráðgjöf sem gengur þvert á verkaskiptingu ríkis og einstakra sveitarfélaga t.d. um helstu borgararéttindi og hvert skuli leita eftir þjónustu sveitarfélaga og ríkis.
Ég tel mikilvægt að vinna málið hratt og vel enda er um forgangsmál að ræða. Ekki þarf að fara í flóknar stjórnkerfisbreytingar til að opna slíka miðstöð. Slíka miðstöð má opna hratt og vel án flókinna stjórnkerfisbreytinga. Fyrir því eru fordæmi t.d með rekstri t.d Bjarkarhlíðar en hún er fjármögnnuð af innanríkis- og velferðarráðuneyti og Reykjavíkurborgar og hefur tekist vel til.
Við viljum saman skapa samfélag án aðgreiningar þar sem allir fá tækifæri til að leggja sitt af mörkum. Innflytjendur eru mikilvægur hluti af íslensku samfélagi og hafa fjölmargt fram að færa. Með heildstæðri þjónustu og betri upplýsingagjöf má auðvelda nýjum íbúum sín fyrstu skref og er það öllum til heilla.
Höfundur er varaborgarfulltrúi Vinstri grænna.