Því meiru sem þú stelur því líklegri ert þú til að komast upp með það. Þetta virðist vera meginregla í íslensku samfélag svo ekki sé talað um ef þú er atvinnurekandi sem níðist á starfsmönnum þínum. Einkum ef þeir eru útlendingar. Á Íslandi er ekki gert ráð fyrir því að slíkir atvinnurekendur séu stoppaðir af og hljóti dóma. Að minnsta kosti ekki miðað við veruleikann hér á landi og þá svívirðilegu meðferð sem sumir atvinnurekendur beita launafólk. Það eru ekki til lög og reglugerðir yfir þessa hegðun. Það er alger skortur á viðurlögum. Þannig taka sveitarfélög, þingið, ríkisstjórnin og opinberir embættismenn þátt í þessum glæpum sem engin refsing er fyrir. Og glæponinn gengur laus.
Þetta þýðir í raun ekkert annað en að atvinnurekendur geta gert við starfsfólk það sem þeim sýnist. Hrúgað þeim saman í herbergi, látið það búa í hjólhýsum, gámum eða tjaldvögnum og láta þá borga himinháa húsaleigu fyrir. Láta þá vinna myrkranna á milli, stela af þeim á öllum sviðum, láta þá borga gjöld sem ekki eru til, skrá þá ekki hjá Vinnumálastofnun, svíkja þá um kennitölur og svo mætti lengi telja. Málin ná ekki einu sinni til dómstóla þó um mansal sé að ræða.
Kjarasamningar eru lögbundnir og því er atvinnurekendum bannað samkvæmt lögum að borga laun undir launatöxtum, brjóta lög um orlofsgreiðslur, yfirvinnugreiðslur og fleira slíkt. Þetta er hægt að sækja. En þar sem eftirlitsmenn verkalýðsfélaganna eru svo fáir þá er erfitt að fylgja þessu eftir. Það eru líka til lög um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum en vegna þess hve Vinnueftirlitið er vanbúið af mannskap og úrræðum, þá er mjög erfitt að fylgja þeim lögum eftir líka.
Kúgunin getur orðið svo svæsin að fólk óttast að missa vinnuna, ef það segir frá. Skilaboðin til starfsmanna eru þá þau að ef þeir eru með eitthvað múður þá getið þeir bara tekið pokann sinn og farið. Dæmin eru um að þeim sé hent út á götu um hánótt. Það segir sig sjálft hvað þetta er gríðarlega erfitt fyrir útlent starfsfólk sem er jafnvel ótryggt, með enga kennitölu og hvergi til í kerfinu.
Þeir einu sem eitthvað eru að gera í þessum málum eru eftirlitsmenn verkalýðsfélaganna en þeir eru allt of fáir. Og eins og fyrr segir eru viðurlögin nánast engin og því hafa þeir engan stuðning. Geta bara sótt það sem varðar lögbundna kjarasamninga. En til að bæta gráu ofan á svart þá getur það tekið marga mánuði og jafnvel ár að fá greitt það sem atvinnurekandinn hefur stolið af starfsmönnum. Og áfram spilar glæponinn frítt og getur auk þess skipt um kennitölur. Hann getur haldið áfram að níðast á starfsmönnum sínum. Fulltrúar verkalýðsfélaganna hafa sagt í fjölmiðlum að dæmin um kúgun og illa meðferð á starfsfólk séu að verða verri. Að atvinnurekendur leggi meiri vinnu í að finna út úr því hvernig þeir geta snuðað fólk, jafnvel með aðstoð lögfræðinga.
Allt þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu staða atvinnurekenda á vinnumarkaði er sterk. Þeir geta jafnvel stundað mansal án þess að fá dóm fyrir það. Af hverju er atvinnurekendum gert kleift að fara svona með fólk? Af hverju geta þeir kúgað fólk, sagt því upp störfum þegar þeim sýnist og brotið á því á margvíslegan hátt? Er þetta náttúrulögmál? Af hverju er þegjandi samkomulag um það að atvinnurekendur hirði allan arðinn sem skapast af vinnu launafólks?
Nú hefur Alþýðusamband Íslands aðeins tekið við sér og í frétt sambandsins sem sett var á vef þess núna 3. október segir að lögbinda verði hörð viðurlög og sektargreiðslum við launaþjófnaði og öðrum brotum gegn launafólki. Samræma þurfi og þétta vinnustaðaeftirlit út um allt land sem kalli á samstarf allra þeirra aðila sem málið varðar; Vinnumálastofnunar, Vinnueftirlitsins, Ríkisskattstjóra, sveitarfélaga, lögreglunnar auk verkalýðshreyfingarinnar. Þá er kallað á ábyrgð samtaka atvinnurekenda. Gott og vel en þetta er ekki nóg. Hvernig á að sækja málið? Hvaða aðferðum á að beita til að ná þessu fram? Það fylgir ekki sögunni. Og á meðan gengur glæponinn laus.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og MA í atvinnulífsfræðum frá Háskóla Íslands