Fátt virðist kljúfa íslensku þjóðina jafn mikið og viðhorf okkar til hvalveiða. 34% Íslendinga eru hlynnt hvalveiðum, 34% andvíg og 31% eru hvorki hlynnt né andvíg.
Andstaða við hvalveiðar hefur farið vaxandi og mótmæli aukist en dökk mynd var dregin upp af veiðunum í heimspressunni í sumar. Á sama tíma virðist sem stuðningur ákveðins hóps við veiðarnar sé að styrkjast samanber nýleg frelsisverðlaun sem Kristján Loftsson formaður Hvals Hf hlaut frá ungum sjálfstæðismönnum.
Er verið að ganga á okkar rétt?
Í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar um áframhaldandi hvalveiðar má finna þau meginrök sem við Íslendingar höfum haldið okkur við til stuðnings hvalveiðum. Það er að hvalir séu eins og hver önnur lifandi auðlind sem við eigum rétt á að nýta á sjálfbæran hátt innan okkar lögsögu.
Er kominn tími til að líta í eigin barm?
Í rannsókn frá árinu 2014 á drápum á 50 langreyðum við Íslandsstrendur kom í ljós að 16% þeirra sem veiddir voru börðust í löngu sársaukafullu dauðastríði sem entist að meðaltali um 8 mínútur og allt upp í 15 mínútur.
Hér þurfum við að staldra við því að niðurstöður þessarar rannsóknar vekja upp fjölda siðferðilegra spurninga sem við getum ekki litið fram hjá.
Allt tal um sjálfbærar veiðar og réttinn til þess að nýta auðlindir verður merkingarlaust þegar horft er til þess hve grimmileg drápin á hvölum eru.
Hvernig getur grimmdin við drápin farið fram hjá okkur?
Til þess að geta rætt um siðferði hvalveiða þurfum við að passa að láta ekki tungumálið blekkja okkur.
Við erum ekki að tala um veiðar á lifandi auðlindum, við erum að tala um veiðar á langreyðum og hrefnum sem eru spendýr sem hafa meðvitund, upplifa og forðast sársauka á svipaðan hátt og við. Flestir hafa upplifað að sjá gæludýr sitt ganga í gegnum sársauka, af hverju þykir okkur það í lagi að veita langreyðum í sjónum margra mínútna sársauka í dauðastríði að óþörfu? Við þurfum ekki kjötið þeirra, eftirspurnin er nánast engin og vistkerfið í hafinu sér um sig sjálft.
Að skjóta sprengjuskutli í spendýr vitandi það að hluti þeirra mun þjást svo mínútum skiptir getur ekki kallast veiðar eða nýting. Það er grimmilegt dráp.
Að vera á móti hvalveiðum hefur stundum verið kallað öfgafullt. En hvað er öfgafullt við það að velja að valda öðrum sem minnstum skaða? Hvað með að kvelja hvali ekki að óþörfu? ber það með sér merki um öfga eða hófsemi?
Fylgjum ekki menningu okkar í blindni
Við getum lifað lífinu á þann veg að við berjumst fyrir frelsinu til þess að gera það sem við erum vön að gera. Mannkynssagan er full af fólki sem elti fjöldann, fylgdi gömlum hefðum í blindni og staðnaði.
Berðu það undir þína eigin sannfæringu hvort þér þyki betra að kjósa að valda sem minnstum skaða og hætta hvalveiðum eða að berjast fyrir réttinum til þess að veiða hvali og kvelja að óþörfu.
Finnst þér í lagi að drepa að óþörfu þegar þú getur valið um annað?
Ég myndi segja að það sé rangt að drepa að óþörfu þegar þú getur valið um annað og borðað úr jurtaríkinu en ég skil að mörg okkar sjá það ekki enn þá. Það er svo á allt öðru plani að bæði drepa og kvelja að óþörfu. Drápsaðferðin á hvölum myndi vera talin óásættanleg fyrir öll húsdýr og villt dýr á landi. Hvetjum stjórnvöld til að gefa ekki aftur út hvalveiðileyfi, hættum hvalveiðum og sýnum að við erum fyrirmynd þegar kemur að því að vera friðelskandi þjóð.
Hvalir eru ekki lifandi auðlind heldur einstaklingar og eiga að hafa rétt til þess að vera frjálsir í hafinu.
Höfundur er markaðsfræðingur.
Heimildir:
Alþingi, svar: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um hvalveiðar.
Killing efficiency in the Icelandic fin whale hunt 2014 Report to the Directorate of Fisheries in Iceland, February 19, 2015 By Dr. Egil Ole Øen.