Eftir að ég hóf störf sem hársnyrtir upp úr aldamótum fór ég smám saman að gefa því gaum hversu mikil eiturefni leynast oft í hársnyrtivörum. Þegar ég gekk með mitt fyrsta barn ákvað ég loks að snúa alfarið baki við hinum hefðbundnu hársnyrtivörum. Ég áttaði mig á því að barninu mínu gæti verið hætta búin af þessari miklu snertingu minni við eiturefni. Ég rak mína eigin hársnyrtistofu á þessum tíma og fór á stúfana að reyna að byggja upp græna hársnyrtingu, það er að segja hársnyrtistofu án efna sem eru skaðleg starfsfólki, viðskiptavinum og umhverfinu.
Þetta var ekkert einföld aðgerð og hefði aldrei gengið upp hefði ég ekki komist í samband við dönsk vottunarsamtök, sem bæði fræða hársnyrta og votta grænar stofur á Norðurlöndunum. Ég gekk á fjölda veggja hér heima því fjöldi fyrirtækja og framleiðenda hika ekki við að segja hreinlega ósatt til um vörurnar sem þau selja. Með öðrum orðum, var það fyrir tilstilli erlendra almannasamtaka og samvinnu við stéttafélagið mitt að ég gat innleitt græna hársnyrtingu á stofunni minni. Samtaka sem höfðu innanborðs bæði starfsfólk og meðlimi sem trúðu það sterkt á hugsjónir sínar um að bæta hag starfsfólks, neytenda og umhverfis að þegar þau fréttu af því að ég ætlaði að breyta hársnyrtistofunni minni á Íslandi hoppuðu þau hæð sína af gleði og buðu mér alla aðstoð sem ég þyrfti. Með samtakamætti breiðist stefnan smátt og smátt til annara landa og stétt hársnyrta verður smám saman upplýstari og getur verndað sig og neytendur á nýjan máta.
Þarna heillaðist ég af kraftinum sem leynist í samstöðunni. Ein og sér gat ég lítið, en sem hluti af hópi fólks tókst mér að þróa þetta áfram. Og það er einmitt þessi trú á samstöðunni sem varð til þess að ég ákvað að gefa kost á mér til formanns Neytendasamtakanna, ásamt hópi fólks sem býður sig fram til stjórnarsetu til að stórefla samtökin.
Við verðum að horfast í augu við að staða neytenda á Íslandi er veik og það getur af sér óheilbrigðan markað þar sem fyrirtæki, bankar og leigusalar eru margfalt sterkari en neytendur. Ef við viljum ekki að valtað sé yfir okkur, þurfum við að taka höndum saman. Þrátt fyrr öflugt starfsfólk og margt gott fólk sem lagt hefur Neytendasamtökunum lið í gegnum tíðina, þá eru samtökin mun veikari en þekkist í nágrannalöndum okkar. Félagsfólki hefur fækkað og þjónustsamningar við hið opinbera eru svo illa fjármagnaðir að almennir félagsmenn eru í raun að niðurgreiða þá. Þessu þarf að snúa við.
Fjárhagsgrundvöll samtakanna þarf því að styrkja, bæði með fjölgun félagsfólks og með aðkomu stjórnvalda. Samtökin þurfa að teygja sig til fólkisins, því sameinuð getum við allt, sundruð munum við engu áorka.
Samhliða þurfa samtökin að skoða hvernig hægt er að efla starfsemina enn frekar. Verður það best gert í samvinnu við verkalýðshreyfinguna? Verður það best gert með samstarfi við önnur neytendasamtök, svo sem samtök leigjenda, skuldara og bifreiðaeigenda? Verður það best gert með því að byggja upp landsamtök með neytendafélögum í hverju landshluta? Þurfum við að endurskoða innra starfs samtakanna og virkja fólk meira til þátttöku?
Ég kann ekki svör við öllum þessum spurningum. Ég er ekki að bjóða mig fram til formanns Neytendasamtakanna vegna þess að ég hafi öll svörin. Ég býð mig fram sem formann Neytendasamtakanna vegna þess að ég vil, með góðu fólki, setja markmiðin, móta stefnuna og finna styrkinn meðal félagsfólks. Og þegar markmiðin liggja fyrir og stefnan hefur verið mótuð, langar mig að nýta styrk samtakanna til að láta þá stefnu móta íslenskt samfélag. Það er kominn tími til að almenningur móti samfélagið eftir sínum hagsmunum og væntingum.
Við höfum góðar fyrirmyndir, ekki síst á hinum Norðurlöndunum, eltum þær. Byggjum upp sterk og öflug Neytendasamtök.
Höfundur er í framboði til formanns Neytendasamtakanna.