Hún er oft skrítin umræðan sem fram fer um lífeyrissjóði landsins. Nýjasta innleggið var nánast ævintýralega skrítin umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks í síðustu viku þar sem fjallað var um lífeyrissjóð í Nevada ríki í Bandaríkjunum, sem samkvæmt umfjölluninni greiðir nánast engin gjöld af umsýslu tæplega 4.400 milljarða króna eignasafns síns. Einföld mynd var teiknuð upp af einum reglusömum sjóðstjóra sem stýrir öllum fjárfestingum sjóðsins og geymir allar eignir hans í vísitölusjóðum. Laun sjóðstjórans, sem fullyrðir í þættinum að sjóðurinn greiði nánast engar þóknanir, eru um ein og hálf milljón á mánuði.
Fimm og hálfur milljarður í fjárfestingagjöld
Fyrir þá sem ekki vita eru vísitölusjóðir hlutabréfasjóðir sem endurspegla markaðinn á hverjum tíma. Ef virði fyrirtækis er 5% í tiltekinni hlutabréfavísitölu, liggur 5% af eignasafni vísitölusjóða í fyrirtækinu. Vísitölusjóðir spegla markaðinn en eru að öðru leiti ekki virkir, hafa enga skoðun á rekstri einstakra félaga, starfsemi eða stefnu. Það getur verið að það henti lífeyrissjóði í Nevada að fjárfesta aðeins í vísitölusjóðum. Sem hann gerir raunar ekki, um 5% eigna hans er t.d. í fasteignasjóðum og um 5% í framtaksfjárfestingarsjóðum. En er þessi áhersla sjóðsins á eignir í vísitölusjóðum eitthvað sem hægt er að læra af? Á Íslandi eru vísitölusjóðir bæði fáir og hlutfallslega dýrir og það er því óframkvæmanlegt fyrir íslenska lífeyrissjóði að fjárfesta aðeins í þeim. Til viðbótar myndi líklega eitthvað heyrast ef lífeyrissjóðirnir myndu flytja stóran hluta eigna sinna úr íslenska hlutabréfamarkaðnum yfir í erlenda vísitölusjóði. Væntanlega með tilheyrandi verðrýrnunum og almennu uppnámi.
Það stenst ekki heldur skoðun að það kosti sjóðinn í Nevada ekkert að sýsla með eignasafn sitt. Fjárfestingagjöld sjóðsins námu tæpum fimm og hálfum milljarði króna í fyrra og sjóðurinn er að sjálfsögðu með á sínum vegum fjölda aðkeyptra sérfræðinga. Í umfjöllun Kveiks var ekki minnst einu orði á þennan kostnað þó að upplýsingar um hann liggi fyrir í ársreikningi sjóðsins sem er öllum aðgengilegur.
Engin tilraun til samanburðar
Í „fréttaskýringu“ Kveiks var lögð nokkur áhersla á að rekstrarkostnaður Nevada sjóðsins væri helmingi lægri en íslenskra lífeyrissjóða. Enn einu sinni var engin tilraun gerð til samanburðar á því umhverfi sem sjóðirnir starfa í. Slíkur samanburður myndi meðal annars leiða í ljós að íslensku sjóðirnir þurfa að kosta talsverðu til við innheimtu lífeyrisiðgjalda, sem ameríski sjóðurinn þarf ekki að gera því í honum eru opinberir starfsmenn, og hið opinbera leggur ekki í vana sinn að vangreiða lífeyrisiðgjöld. Örorkubyrði sjóðsins í Nevada er einnig mjög lág, eða um 4% til samanburðar við um og yfir 30% hjá mörgum íslenskum sjóðum. Sjálfsögð þjónusta íslenskra lífeyrissjóða við örorkulífeyrisþega kostar mikinn tíma og talsverða fjármuni. Sjóðirnir taka enn fremur þátt í rekstri VIRK, og greiða því hluta af endurhæfingu þúsunda Íslendinga, þeim og samfélaginu öllu til hagsbóta. Ameríski sjóðurinn rekur ekki séreignardeildir og hann veitir ekki bein húsnæðislán eins og íslensku sjóðirnir. Til viðbótar er Nevada ríki þekkt fyrir að innheimta lága skatta, sem hefur áhrif á laun og þar með rekstrarkostnað. Að lokum má benda á að það regluverk sem íslensku lífeyrissjóðunum er gert að starfa eftir er viðamikið og flókið. Eftirlit með sjóðunum er umfangsmikið og starfsmenn íslenskra lífeyrissjóða eyða drjúgum tíma í að svara fyrirspurnum frá t.d. Seðlabankanum, Samkeppniseftirliti og Fjármálaeftirliti. Sem er sjálfsagt og tryggir gegnsæi og byggir upp traust. Eftirlitskerfið í Nevada er mun einfaldara, sem þýðir minni vinnu fyrir sjóðinn og þar með lægri kostnað. Og já, meðan ég man, hluti af rekstrarkostnaði íslenskra lífeyrissjóða liggur í að þeir greiða hluta af rekstrarkostnaði FME. Sjóðurinn í Nevada tekur ekki þátt í neinum slíkum kostnaði.
Skökk mynd
Erfitt var að skilja umfjöllun Kveiks á annan hátt en að beinn og óútskýrður samanburður á íslenskum lífeyrissjóðum og þess í Nevada væri bæði raunhæfur og þarfur. Sem getur vel verið. En þá þurfa allar hliðar málsins að koma fram. Það er vissulega rétt að sjóðurinn virðist við fyrstu sýn vel rekinn. En hann starfar í umhverfi sem gerir honum það kleift, umhverfi sem er afar ólíkt íslenskum raunveruleika. Það er með nokkrum ólíkindum að fréttaskýringaþáttur á borð við Kveik leggi enga vinnu í samanburð á þeim tveimur kerfum sem fjallað var um, en birti hugsunarlaust viðtal við einn starfsmann, fjalli yfirborðskennt um einn sjóð og yfirfæri niðurstöðurnar gagnrýnislaust yfir á allt íslenska lífeyriskerfið. Þáttur sem kennir sig við fréttaskýringar verður einfaldlega að gera betur!
Höfundur er forstöðumaður upplýsingamála hjá Gildi-lífeyrissjóði.