Á þremur árum, frá miðju ári 2014 og fram á mitt ár 2017, hækkaði íbúð miðsvæðis í Reykjavík sem var keypt á 200 þúsund Bandaríkjadali upp í 600 þúsund Bandaríkjadali. Það er þreföldun.
Þarna kom einkum tvennt til. Mikil nafnverðshækkun á húsnæði, meðan verðbólga hélst í skefjum, og hröð og mikil styrking krónunnar gagnvart helstu erlendu viðskiptamyntum. Mikið launaskrið, samhliða verðfalli á heimsmarkaðsverði á olíu, hjálpaði til við að búa til mikla kaupmáttaraukningu almennings, sem ýtti undir eignaverð.
Einsdæmi
Það sem skipti miklu máli einnig var að fjármagnshöft voru fyrir hendi á þessum tíma, en þau voru sett á í nóvember 2008, eins og alkunna er. Peningar streymdu inn frá ferðamönnum og krónan styrktist stöðugt, en höftin sáu til þess að peningar söfnuðust upp í hagkerfinu, svona til einföldunar sagt. Þegar horft er til baka má segja að allt hafi fallið með Íslandi á þessu tímabili og ekki ofsagt að tala um að þetta hafi verið eindsæmi í heiminum á þessum tíma, þegar kemur að efnahagsþróun hjá einu ríki.
Á hinn bóginn...
Þessi mikla hækkun á húsnæði var sú mesta um getur í heiminum, á fyrrnefndu tímabili. Ekki einu sinni hávaxtarsvæði Vesturstrandar Bandaríkjanna, í Seattle og San Francisco, voru með jafn miklar hlutfallslegar hækkanir og hafa þau svæði þó gengið í gegnum eitthvert lygilegasta vaxtartímabili sem um getur í sögu mannkyns, ekki síst vegna þess að öll stærstu tæknifyrirtæki heimsins eru með höfuðvígin í sinni starfsemi á því svæði.
Það er mikilvægt að muna, að hagfræðingar geta aldrei - frekar en aðrir - vitað með vissu hvað er að gerast í hagkerfinu eða hvers vegna. Í félagsvísindum eins og hagfræði eru forsendurnar alltaf lykilatriði og inn í þær vantar stundum breytur sem skipta miklu máli fyrir heildarútkomuna.
Húsnæðishækkunin skekkir
Til dæmis er oft ekki talað um að sú mikla og afgerandi hækkun á húsnæði sem hefur verið á undanförnum árum, hefur líka haft afgerandi áhrif á kaupmáttarmælingar almennings. Mikil hækkun á húsnæðisverði og lágir vextir, í sögulegu samhengi, hafa haft afgerandi áhrif á kaupmáttarmælingar, sem síðan eru oft helsta atriðið í rökræðum um hagþróunina.
Samt er húsnæðisverð á hverjum tíma lítið annað en tölur á blaði fyrir almenning. Sagan sýnir að það sveiflast upp og niður, eftir því hvernig hagsveiflan er hverju sinni.
Nú er farið að hægja verulega á hagvexti, vöxtur í ferðaþjónustunni minni en hann hefur verið undanfarin ár, og verðbólguþrýstingur hefur aukist mikið, vegna hækkunar á olíuverði og þrengri skorðum í efnahagnum. Á sama tíma er gert ráð fyrir 5 þúsund nýjum íbúðum út á markað á höfuðborgarsvæðinu á næstu 18 mánuðum og margir þeirra sem leigðu íbúðir út til ferðamanna í miðbænum, eru nú farnir að koma þeim út til varanlegrar búsetu til lengri tíma. Þetta leiðir til aukins framboðs, á sama tíma og það er þrengt að eftirspurninni.
Nú er íbúðin sem kostaði 600 þúsund Bandaríkjadali á vormánuðum í fyrra, og 200 þúsund Bandaríkjadali árið 2014, komin niður í um 480 þúsund Bandaríkjadali. Kannski fer hún enn neðar, einkum ef krónan veikist áfram.
Það ætti ekki að koma neinum á óvart, að gengi krónunnar sé nú búið að falla um 15 prósent það sem af er ári, og það má jafnvel spyrja að því, hvort frekari veiking sé í kortunum.
Ennþá er verðlag umtalsvert hærra á Íslandi en víðast í Bandaríkjunum og Evrópu, svo dæmi sé tekið. Samkeppnishæfni alþjóðlegra fyrirtækja á Íslandi er ekki góð, sé litið til þessarar stöðu.
Það má líka benda á það, að okkar stærstu alþjóðlegu fyrirtæki, Marel og Össur, eru nú að verða 35 og 50 ára gömul. Það vantar sárlega fleiri þokkalega stór alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi, og vel má hugsa sér að hið einangraða íslenska krónu hagkerfi - á tímum alþjóðavæðingar internetsins - sé ekki endilega að hjálpa til við að styrkja alþjóðageirann. Jafnvel þó margt spennandi sé að gerast í nýsköpun, og stuðningur hafi farið vaxandi, þá vantar fleiri stærri alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi, til að skapa spennandi störf til framtíðar. Við erum eftirbátur margra annarra þjóða í þessum efnum.
Kjaradeilur í krefjandi stöðu
Nú þegar er komin nokkur harka í kjaradeilur á vinnumarkaði, og benda ítrustu kröfur stéttarfélaga, með forystu Eflingar, VR og Starfsgreinasambandsins í broddi fylkingar, til harðra kjaraviðræðna. Munurinn á mati atvinnurekenda og stéttarfélaga, á svigrúmi til samninga, hefur sjaldan eða aldrei verið meiri.
Óháð því hvaða skoðun fólk hefur á kröfum beggja fylkinga, þá bendir þetta ólíka mat til þess að það séu verkföll í kortunum í vetur og harðar deilur. Því kröfur eins og þær sem settar hafa verið fram eru ekki til skrauts heldur marka þær viðræðurnar strax frá fyrsta degi. Teningunum hefur verið kastað.
Viðbótarkröfur um kerfisbreytingar, t.d. þegar kemur að verðtryggingu lána, skattleysismörk, pólitíska stefnumörkun um meiri jöfnuð, og styttri vinnuviku, varða síðan stjórnvöld beint. Þau geta því haft afgerandi áhrif á það hvernig mun ganga með að ná sátt um þau sjónarmið. En eftir stendur samt gapandi kjaradeila.
Því miður gæti sigurvegarinn úr þessari baráttu orðið verðbólgudraugurinn, sem áður hefur riðið húsum á Íslandi og skilið eftir sviðna jörð, ef svo má segja. Sá tími mikillar hagsældar, sem hefur verið í gangi undanfarin 5 til 6 ár, markaðist af fjármagnshöftum, og honum er lokið. Þeim er ekki hægt að beita núna til að koma böndum á verðbólgudrauginn, og því mun reyna enn meira á klóka og góða hagstjórn, bæði hjá hinu opinbera og aðilum vinnumarkaðarins.
Ályktun hinnar hagsýnu húsmóður, eftir mikinn uppgang síðustu ára, ekki síst á fasteignamarkaði, er líklega sú að allt sem fari svona hratt upp komi niður aftur. En spurningin er þá hversu langt niður og frá hvaða sjónarhóli er horft.
Því veikari króna þýðir til dæmis oft uppgang á landsbyggðinni - einkum í sjávarplássum - á meðan verulega sterk króna eykur eignamyndun fólks á höfuðborgarsvæðinu og leiðir til góðæris þar.
Niðursveifla - jafnvel þó hún verði ekki mikil eða harkaleg - ætti ekki að koma neinum á óvart, eftir það sem á undan er gengið.