Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, fékk birta hér í Kjarnanum skoðanagrein til réttlætingar á lagasetningu sem var afgreidd með fáheyrðum flýti á Alþingi til að bregðast við niðurstöðu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) vegna sjókvíaeldis á sunnanverðum Vestfjörðum. Þau rök sem Ari teflir fram benda til þess að hann hafi ekki kynnti sér nægilega vel bakgrunn málsins.
Þannig segir Ari í greininni „Harðir gagnrýnendur fiskeldis fundu ágalla í allgömlu en gildu leyfi og kærðu leyfisveitinguna, byggða á samþykktri matsskýrslu. Fyrirtæki í fiskeldi höfðu unnið eftir leyfinu, hvað sem þessum ágalla leið.”
Þarna koma fram tvær alvarlegar rangfærslur. Í fyrsta lagi voru leyfin sem ÚUA felldi úr gildi alls ekki „allgömul“. Þau voru gefin út 22. desember 2017 og kærð til ÚUA þann 16. janúar 2018, eða þremur vikum eftir útgáfu.
Að sjálfsögðu vissu sjókvíaeldisfyrirtækin af því að útgáfa leyfanna hafði verið kærð. Tal um lögmætar væntingar og góða trú á því sér enga stoð í raunveruleikanum. Þau kusu að halda áfram undirbúningi sínum og hefðu að sjálfsögðu átt að bera sjálf ábyrgð á þeirri ákvörðun.
Í öðru lagi nefnir þingmaðurinn „samþykkta matsskýrslu“. Þetta er í besta falli útúrsnúningur. Ari Trausti á að vita betur. Á Íslandi eru ekki teknar bindandi ákvarðanir í umhverfismatsferli fyrr en við leyfisveitingu og leyfin voru kærð nánast um leið og þau voru gefin út.
ÚUA benti í úrskurði sínum á leið sem hefði verið fær, ef ráðherrar hefðu viljað fresta réttaráhrifum úrskurðarins, en Ari Trausti og félagar kusu þess í stað að ryðja í gegnum þingið lögum án þess að þau færu í hefðbundið umsagnarferli. Þar fyrir utan eru komin fram gild sjónarmið um að lagasetningin sjálf geti verið brot á tveimur alþjóðasamningum, Árósasamningnum og EES-samningnum.
Þetta mál hefur eðlilega sett þingmenn Vinstri græns framboðs í meiri vandræði en hinna ríkisstjórnarflokkanna tveggja, enda gefa þeir sig ekki út fyrir að vera sérstakir umhverfisverndarflokkar ólíkt flokknum sem kennir sig við græna litinn.
Í þessu samhengi er gagnlegt að rifja upp orð sem annar þingmaður VG lét falla í umræðum á Alþingi fyrir tveimur árum.
„Í þessu máli eru mýmörg og alvarleg lögfræðileg álitamál auk þess sem í málatilbúnaðinum öllum er náttúruverndarsjónarmiðum vikið til hliðar í þágu einnar framkvæmdar sem er óásættanlegt. Í frumvarpinu er lagt til að kæruheimild umhverfisverndarsamtaka sem virkjast við lok langs ferils verði í raun felld úr gildi með sértækum lögum. Framkvæmdaleyfið eitt getur virkjað umrædda heimild, að gildandi lögum, og hlýtur því að vera umhugsunarefni hvort löggjafinn sé með þessu máli að skapa fordæmi fyrir því að kæruheimildin verði höfð að engu í fleiri málum og þar með þau réttindi umhverfisverndarsamtaka sem Árósasamningurinn mælir fyrir um.”
Þetta sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir á Alþingi 10. október 2016 og hittir þar algjörlega naglann á höfuðið. Þann 9. október 2018 greiddi hún svo atkvæði með lagafrumvarpi sem víkur öllu því til hliðar sem hún hafði varað við tveimur árum áður.
Jón Kaldal er blaðamaður og meðlimur hópsins að baki umhverfisverndarsjóðnum The Icelandic Wildlife Fund.