Til þess að svara grein Jóns Kaldal í bakhópi The Icelandic Wildlife Fund, í Kjarnanum, þarf allmörg orð.
Jón gerir athugasemd við að ég segi leyfi til fiskeldis sem úrskurðuð voru úr gildi (af Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, ÚUA) vera "allgamalt". Leyfið/leyfin eru tæplega ársgömul og ég skal fúslega viðurkenna að við getum deilt um hvaða lýsingarorð hentar. Fyrir mér er 10 mánaða gildistími leyfa, sem nýttur var til undirbúnings frekara fiskeldis, alllangur tími í hraðfara atvinnugrein. Ég get ekki séð að ónákvæmni mín eða túlkun á orðinu allgamalt skyggi á það sem skiptir máli:
- Matsskýrsla um umhverfisáhrif framkvæmda liggur frammi.
- Til þess bærar stofnanir hafa samþykkt hana.
- Umbeðin leyfi eru útgefin.
Hvað gerir framkvæmdaaðili þá? Hann hefst handa. Kæra vegna eins eða fleiri atriða í matsskýrslu, eða vegna leyfisveitingar, getur komið fram fljótlega eða seint eftir leyfisveitingu. Kæran leggur upp í óvissuferð. Framkvæmdaaðili verður þá að íhuga framhaldið.
Sennilega er mjög algengt að fyrirtæki, sem þannig er búið um hjá, haldi sínu striki við undirbúning framkvæmda (eða framkvæmdirnar) þótt leyfisveitingin sé kærð. Meðal ástæðna þess eru þær að hvorki er vitað hver verður niðurstaða kærunnar né hve langan tíma meðferð hennar tekur. Vissulega getur þessi hegðun verið háð eðli starfseminnar og í einhverjum tilvikum er beðið með allar athafnir þar til kæran hefur verið afgreidd. Í eldisstarfsemi með dýr er það a.m.k. erfitt. Falli úrskurður vegna kæru á þann veg að leyfi falli úr gildi verður framkvæmdaaðilinn að láta staðar numið eða bæta úr ágalla sem veldur leyfissviptingu. Ekki er óeðlilegt þegar milljarðar eru í húfi eða atvinna stórs hóps að menn leggi sig fram við að lagfæra ágalla, nema um sé að ræða mjög alvarlegar yfirsjónir við gerð forsenda fyrir leyfisveitingu (eða hana sjálfa).
Jón lítur svo á að ríkisstjórnin öll hafi ekki samþykkt lagasetninguna og með tekið fram fyrir hendur fjölskipaðs stjórnvalds. Það tel ég ekki standast því hvorki ráðherra landbúnaðar/sjávarútvegs né umhverfis/auðlinda stóðu einir að lagasetningunni. Ríkisstjórnin gerði það með sínum þingmeirihluta.
Hann gagnrýnir að lagasetningin hafi ekki farið í hefðbundið umsagnarferli. Hið hefðbundna ferli er langt og hefði gert lagasetninguna óþarfa því leyfissvipting úrskurðarnefndarinnar merkti nánast tafarlausa lokun starfseminnar. Auðvitað kemur fyrir í störfum Alþingis að einungis er tími til að fá nokkra gesti til fagnefndar sem um mál fjallar. Í þessu tilviki mættu sérfræðingar í lögum og stjórnsýslu og samkvæmt viðtölum við þá stendur úrskurður kærunefndarinnar óskertur og engir alþjóðasamningar hafa verið brotnir. Lögin gefi aðeins svigrúm til að laga ágalla á umræddri umhverfismatsskýrslu, í þessu tilviki, hvað sem síður kann að gerast fyrir áhrif laganna. Þær gallalagfæringar tryggja raunar fiskeldisfyrirtækjunum ekki annað en starfsfrest þar til matsskýrslan öll eða hlutar hennar hafa verið teknir til skoðunar og endurmats og því lokið.
Vandséð er hvaða samhengi orð Lilju hafa við nýsamþykkt lög um bráðabirgðaleyfi til fiskeldis í 10 mánuði (með framlengingarmöguleika um 10 mán.). Hvergi er snert við kæruheimild með nýju lögunum. Með þeim er verið að búa til svigrúm, sem ekki fæst með því að úrskurðarnefndin geti frestað réttaráhrifum (eins og aðrar slíkar nefndir), til þess að kanna hvort fiskeldisleyfin haldi ekki eftir viðgerðir á matsskýrslu. Nýju lögin fyrirskipa ekki fiskeldi í opnum sjókvíum í umræddum fjörðum.
Inn í þessa umræðu fléttast svo hagsmunir stórra hópa og milljarðaverðmæti á báða bóga. Fiskeldið er lífakkeri byggða, t.d. á Vestfjörðum, og hagsmunir stangveiðirétthafa (og veiðimanna) gríðar mikilvægir. Við bætist inntak villtrar náttúru, matvælaframleiðslu, umhverfis - og loftslagsmála, og fleira. Ábyrgð allra sem um véla er mikil og við stjórnmálamenn verðum að leysa þar hnúta jafnt sem að gæta meðalhófs í ákvörðunum. Mikilvægir þrýstihópar (NGO) eru einnig þar á meðal. Náttúrnytjar og náttúruvernd er flókin vog að stilla í jafnvægi.