Ákall um afnám virðisaukaskatts á bækur hefur bergmálað um fjölmiðla í mörg ár. Yfirlýst markmið slíkra ívilnana er að auka við lestur ungs fólks og skjóta styrkari stoðum undir íslenskuna. Þetta er sannarlega verðugur málstaður og ríkisstjórnin brást við þeim kröfum síðastliðið haust með loforði um prósentubundna endurgreiðslu til útgefenda. Að öllum líkindum er það hin ágætasta málamiðlun. Ég tel samt vert að spyrja hvort hér sé raunverulega verið að tækla kjarna vandans.
Bóksala hefur, á síðustu áratugum, dalað og líklegar orsakir þess flestum kunnugar, sjónvarp, tölvur, net, o.s.frv. Úrval afþreyingar hefur aldrei verið meira, fréttir, tónlist, tölvuleikir og heilu árin af kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Eðli þeirra samkvæmt hafa bækur, sem afþreying, þróast lítið á síðustu áratugum. Helst ber þar að nefna rafbækur en Amazon hefur haft markaðsráðandi stöðu þar með kyndlunum sínum. Burtséð frá áðurnefndum sviptingum í afþreyingargeiranum virðist umræðan á Íslandi alltaf einblína á virðisaukaskattinn, eins og hann sé það sem standi raunverulega í vegi fyrir því að ungmenni landsins kafi á nýjan leik í menningararf íslenskra bókmennta. Af fréttaflutningi þessa máls mætti draga þá ályktun að læsi ungmenna og örlög tungumálsins yltu á þessum 24 hundraðshlutum og Ævari vísindamanni.
Í heimi ódýrra netbóka og bókasafna verður innihald bókanna sífellt aðgengilegra. Þó eru nýjar, fýsískar bækur eru oft mjög dýrar og er það miður. Ef þessar bækur væru ódýrari myndi bóksala örugglega aukast, en þeirri hugmynd sem útgefendur tefla fram í fjölmiðlum að bókaverð sé einhverskonar flöskuháls yndislestrar leyfi ég mér að efast um. Þó bókasöfn séu tiltölulega vel nýtt hef ég ekki fundið fyrir því að ungt fólk sé að hrúgast þangað inn til að flýja virðisaukaskattinn. Það er eitthvað annað og meira en þessi skattur sem fælir ungmenni frá bókabúðum og að netmiðlum.
Ég held að hundurinn liggi grafinn hjá uppáhalds blóraböggli allra, snjalltækjunum síkátu. Á bak við tjöld þeirra eru fyrirtæki með ótæmandi vasa með það eitt fyrir stafni að grípa athygli okkar og læra að halda henni eins lengi og mögulegt er, hver mínúta sem við ljáum þeim hjálpar. Sjálfur hef ég fundið fyrir hrakandi athyglisgáfu samhliða þróaðri algrími netmiðla og tel ég mig ekki einsdæmi. Netmiðlar svara þessum áhyggjum mínum með því að benda mér á smáforrit sem gerir mér kleift að „lesa“ 4 bækur á einum degi með örkynningum á lykilatriðum þeirra. Þá fæ ég allt hið praktíska gildið úr bókinni á nokkrum mínútum! Ég get sem sagt gleypt ævisögu Steve Jobs á nokkrum mínútum, án þess að leggja símann frá mér, og græði þannig sólarhring sem ég gæti þá t.d. nýtt til að hanga lengur á þessum miðlum.
Að lesa bók er góð skemmtun. Íslenskumælendur eru heppnir að njóta gífurlegs úrvals þýðinga og frumsamdra bóka á okkar fallega máli. Stór hluti þeirra getur líka lesið bækur á ensku og þá er úrvalið hér um bil endalaust. En í stað þess að vera á bókasafni að göfga andann erum við hér á netinu að lesa hálfbakaðar hugmyndir tvítugs stráks. Verðlækkun bóka væri jákvæð þróun og afnám virðisaukaskatts er að öllum líkindum hið besta mál. Ég tel þó ljóst að í stóra samhenginu sé samdráttur í bóksölu birtingarmynd fyrirbæris sem tengist verði þeirra lítið sem ekkert.